Vellirnir: Sparta Stadion

Nú er EM bara að detta í gang. Eftir alla þessa uppbyggingu á spennu og stemningu sem við höfum fundið fyrir í þjóðfélaginu þá er mótið loksins að byrja. Fyrsti leikur íslenska liðsins verður bara núna á þriðjudaginn, 18. júlí. Það er svo stutt í þetta, það er æði!

Núna er komið að því að við beinum sjónum okkar að leikvangi númer 3 sem íslenska liðið spilar á. Sá leikur fer fram miðvikudaginn 26. júlí, andstæðingurinn í leiknum verður Austurríki, leikurinn fer fram í borginni Rotterdam og völlurinn er Sparta Stadion. Kíkjum aðeins á hann.

Mynd: Mapio.net

Grunnupplýsingar

Nafn: Sparta Stadion
Gælunafn: Het Kasteel (Kastalinn)
Áhorfendur: ca. 11.000
Vallarflötur: Vanalega er gervigras á vellinum en vegna þess að það er ekki leyfilegt á þessu móti er búið að setja náttúrulegt gras á völlinn.
Vallaryfirborð: 105 m x 68 m

Opnaði: 1916
Fjöldi leikja á EM ’17: 5 leikir, 4 í riðlakeppninni og 1 í 8-liða úrslitum.

Heimilisfang:
Spartapark Noord 1
3027 VW Rotterdam

Mynd: StadiumDB.com

Aðeins meira um völlinn

Völlurinn var opnaður árið 1916. Hann er heimavöllur Sparta Rotterdam, elsta knattspyrnufélags Hollands, sem var stofnað árið 1888. Hann er í Spangen hverfinu í Rotterdam og gekk því fyrst undir nafninu Stadion Spangen. Opnunarleikurinn fór fram 15. október 1916, andstæðingarnir í þeim leik var Willem II frá Tilburg.

Völlurinn árið 1929, þegar hann gekk undir nafninu Stadion Spangen (Mynd: The Stadium Guide)

Eins og gengur og gerist gekk völlurinn í gegnum ýmsar stækkanir og endurbreytingar eftir því sem leið á 20. öldina. Stúkurnar voru endurnýjaðar eftir nýjum stöðlum og það voru jafnvel komnar fleiri en ein hæð á þær. Stæði urðu að sætum og fleira slíkt. Opinbera nafnið á vellinum breyttist úr Stadion Spangen yfir í ENECO-stadium og síðan yfir í Sparta Stadion, en gælunafnið á vellinum var þó yfirleitt það sama, það er Het Kasteel eða Kastalinn.

Het Kasteel á 9. áratug 20. aldar. Stúkurnar misháar og ekki tengdar saman ennþá (Mynd: The Stadium Guide)

Ástæðan fyrir því að völlurinn fékk gælunafnið Kastalinn var vegna byggingar á einni hlið leikvangsins sem hefur tvo áberandi turna og svipar mjög til kastala. Hönnunin á byggingunni var innblásin af kastala sem stóð í nágrenni vallarins á öldum áður. Upphaflega var planið að hafa sambærilega turna í öllum hornum leikvangarins en vegna efnisskorts var látið nægja að byggja þar látlausa innganga úr viði. Í mörg ár var það venjan að vallarstjóri félagsins byggi í þessari kastalabyggingu ásamt fjölskyldu sinni en nú er þar safn og verslun þar sem hægt er að kaupa muni tengda Sparta Rotterdam.

Kastalinn (Mynd: Mapio.net)

Það má segja að völlurinn hafi vaxið töluvert meira en hann réð við. Þegar mest gat völlurinn tekið við 30.000 áhorfendum. Það var einfaldlega of mikið, Sparta náði ekki að fylla völlinn og ekki að halda við stúkunum. Undir lok 10. áratugsins var leikvangurinn í mjög slæmu ásigkomulagi. Innan félagsins var ræddur sá möguleiki að byggja hreinlega nýjan völl, annars staðar í Rotterdam. Sá átti þá mögulega að vera í samstarfi við annað knattspyrnufélag í borginni, Excelsior. En þess í stað var þó ákveðið að ráðast í miklar framkvæmdir á vellinum og endurbyggja hann nánast frá grunni. Leikvellinum sjálfum var snúið um 90 gráður þannig að kastalabyggingin, eini hlutinn af gamla vellinum sem fékk að halda sér, er nú á langhlið vallarins í stað þess að vera fyrir aftan annað markið. Stúkan náði þá allan hringinn og var lægri en háu stúkurnar tvær sem áður prýddu langhliðarnar. Nú komust færri áhorfendur en áður, það fór úr 30.000 niður í 11.000, en hins vegar fór betur um þá áhorfendur sem mættu, nándinn við leikvöllinn jókst og stemningin jókst.

Mynd: Mapio.net

Fjórar hliðar stúkunnar bera allar nöfn. Kastalahliðin heitir bara Kasteel Stand, eða Kastalastúkan. Stúkan þar á móti, hin langhliðin, heitir Tonny van Ede stúkan, í höfuðið á knattspyrnumanninum Tonny van Ede sem spilaði allan sinn feril með félaginu og vann m.a. hollensku deildina árið 1959. Styttri endinn þar sem austurríska stuðningsfólkið verður heitir Bok de Korver stúkan, í höfuðið á öðrum knattspyrnumanni félagsins. De Korver spilaði með Sparta á árunum 1902 til 1923 og vann hollensku deildina 5 sinnum á þeim tíma. Hann vann líka tvisvar bronsverðlaun með hollenska landsliðinu á Ólympíuleikunum. Í þessari stúku er vanalega pláss fyrir fjölskyldur og stuðningsfólk útiliðsins sem heimsækir Sparta Rotterdam.

Stúkan sem íslenska stuðningsfólkið verður í heitir svo Denis Neville stúkan. Þetta er stúkan sem fyllist alltaf í fyrst þegar Sparta spilar. Þarna er háværasta heimastuðningsfólkið. Þarna er mesta og besta stemningin vanalega og þarna verður langbesta stemningin þegar Ísland mætir Austurríki! Þessi stúka heitir í höfuðið á Englendingnum Denis Neville, farsælum knattspyrnuþjálfara sem stýrði Sparta Rotteram á árunum 1955 til 1963 og hollenska landsliðinu 1964-66.

Yfirlitsmynd af vellinum (Hægt að kaupa miða hér!)

Fanzone

Að sjálfsögðu verður fanzone í Rotterdam. Í sumum af þeim borgum sem spilað verður í á mótinu verður aðeins opið fanzone á þeim dögum þegar leikið er í viðkomandi borg. En ekki í Rotterdam, þar verður fanzone-ið opið alla daga frá 16. til 26. júlí.

Það verður staðsett á Rotterdam Centraal Station, aðallestarstöðinni í Rotterdam. Það er búið að lofa okkur því að þarna verði eitthvað skemmtilegt fyrir alla aldurshópa, til að mynda hinar ýmsu knattþrautir og plötusnúður til að halda uppi stemningunni. Að auki verður svo hægt að horfa á alla leikina sem verða spilaðir þessa daga á risaskjá á staðnum.

Stemningin

Íslenski stuðningshópurinn sem mætir á völlinn í Rotterdam þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þar verði erfitt að búa til góða stemningu. Stúkan liggur lágt og þakið nær alla leið yfir sætin í fremstu röð. Nálægðin við grasið er því mikið og hljómburðurinn út úr stúkunni til fyrirmyndar. Allt þetta gerir það að verkum að öll hvatning mun skila sér vel til stelpnanna í landsliðinu.

Leikirnir á EM ’17

Af 31 leik í keppninni þá munu 5 þeirra fara fram á Het Kasteel vellinum í Rotterdam. Það eru eftirfarandi leikir:

1) Mánudagurinn 17. júlí 2017, klukkan 16:00 að íslenskum tíma (18:00 að staðartíma)
Ítalía – Rússland í B-riðli

2) Fimmtudagurinn 20. júlí 2017, klukkan 18:45 að íslenskum tíma (20:45 að staðartíma)
Holland – Danmörk í A-riðli

3) Sunnudagurinn 23. júlí 2017, klukkan 16:00 að íslenskum tíma (18:00 að staðartíma)
Skotland – Portúgal í D-riðli

4) Miðvikudagurinn 26. júlí 2017, klukkan 18:45 að íslenskum tíma (20:45 að staðartíma)
Ísland – Austurríki í C-riðli

5) Laugardagurinn 29. júlí 2017, 8-liða úrslit
Sigurvegari í B-riðli – 2. sæti í A-riðli