Úrdráttarpistill

Þegar kemur að því að setja saman draumariðil fyrir strákana okkar á EM 2016 er margt sem hægt er að huga að. Það er hægt að taka mismunandi vinkla á þessu öllu saman. Til dæmis er hægt að taka grunntilfinningu á þetta, hvaða lið væri skemmtilegt að fá með Íslandi í riðil. Ef það væri reglan þá hefði ég til dæmis hent í Írland og Norður-Írland sem óskamótherja, það er bara eitthvað svo heillandi tilhugsun við að taka gott fótboltastórmótsdjamm með írsku frændum okkar. En þar sem báðar þessar þjóðir eru með Íslandi í styrkleikaflokki þá gengur það ekki upp.

Ég ætla því að taka aðeins vísindalegri aðferð á valið. Eiginlega eru þetta hávísindalegar aðferðir. Pjúra fagmennska. Gerist ekki taktískara. Hér verður spilað til sigurs!

Byrjum á potti 3. Þar ættu að vera næst slökustu þjóðir í hverjum riðli. Svona fyrirfram og á pappír að sjálfsögðu, en við vitum betur. Til að finna út hvaða þjóð á að velja á óskalistann í þeim potti ætla ég að skoða árangur íslenska liðsins í gegnum tíðina gegn þessum liðum.

Pottur 3

15. Tékkland – 2 sigrar, 0 jafntefli, 3 töp – 6 stig, 1,2 stig pr leik

16. Svíþjóð – 2 sigrar, 2 jafntefli, 12 töp – 8 stig, 0,5 stig pr leik

17. Pólland – 0 sigrar, 1 jafntefli, 5 töp – 1 stig, 0,17 stig pr leik

18. Rúmenía – 0 sigrar, 0 jafntefli, 2 töp – 0 stig, 0,0 stig pr leik

19. Slóvakía – 1 sigur, 1 jafntefli, 2 töp, 4 stig – 0,5 stig pr leik

20. Ungverjaland – 3 sigrar, 0 jafntefli, 7 töp – 9 stig, 0,9 stig pr leik

Í fljótu bragði virðist liggja beint við að velja Ungverjaland, þar eru flestir sigrar og flest stig. Eða Svíþjóð sem vara. En það segir aldeilis ekki alla söguna. Hlutfallslega stendur Ísland best að vígi gegn Tékkunum. Ísland hefur ekki unnið Ungverjaland síðan 1995 og ekki sigrað Svíagrýluna síðan 2000 en hvenær vannst síðast sigur á Tékkunum? Jú, það var einmitt bara á þessu ári. Augljós sigurvegari úr þessum potti.

Óskamótherji, pottur 3: Tékkland.

En það er ekkert vit í að taka alltaf sömu aðferðina. Hinn vísindalega þenkjandi óskamótherjaspámaður þarf að halda sér á tánum, vera tilbúinn fyrir allt, auga tígursins!

Í potti 2 finnum við þau lið sem eiga að vera næst best í hverjum riðli fyrir sig. Aftur, við vitum nú betur. Í þetta skiptið ætla ég ekki að skoða árangur íslenska landsliðsins heldur hugsa aðeins meira skapandi, kíkja út fyrir kassann. Þjálfarinn hefur gríðarmikið að segja, bæði fyrir liðið sem hann stjórnar en einnig getur hann haft sálfræðilegt tak á andstæðingnum. Ég ætla því að skoða árangur Lars Lagerbäck gegn liðunum í potti 2. Ég veit að Heimir Hallgríms er þarna líka en í þessum útreikningum ætla ég að yfirfæra árangur Lars yfir á teymið. Enda eru þeir algjört draumapar.

Pottur 2

6. Ítalía – 0 sigrar, 0 jafntefli, 1 tap – 0 stig, 0,0 stig pr leik

9. Rússland – 0 sigrar, 0 jafntefli, 2 töp – 0 stig, 0,0 stig pr leik

10. Sviss – 0 sigrar, 1 jafntefli, 1 tap – 1 stig, 0,5 stig pr leik

11. Austurríki – 1 sigur, 2 jafntefli, 0 töp – 5 stig, 1,67 stig pr leik

12. Króatía – 0 sigrar, 1 jafntefli, 3 töp – 1 stig, 0,25 stig pr leik

14. Úkraína – 0 sigrar, 0 jafntefli, 1 tap – 0 stig, 0,0 stig pr leik

Þarna er algjörlega skýr sigurvegari. Tjah, ég segi sigurvegar en ég meina auðvitað að þarna er algjörlega skýrt hvaða lið er að fara að tapa fyrir Íslandi í draumariðlinum okkar. Það er Austurríki. Eiga ekki séns, Lars hefur aldrei tapað fyrir þeim og ætlar ekkert að byrja núna.

Óskamótherji, pottur 2: Austurríki.

Þá er bara einn pottur eftir. Heiti potturinn. Það er ekki chili í þessum pottrétt, það er indverskur ghost pepper í þessum. Hér förum við að verða virkilega djúsí. Pottur 1! Bestu liðin í Evrópu. Hvaða aðferð notum við þá?

Einfalt, það er curve ball. Aftur notum við netta blöndu af tölfræði og sálfræði. Köllum það Tálfræði 101. Við skoðum hvort við séum á góðu rönni gagnvart einhverju liði. Hvar eru okkar menn taplausir lengst?

Pottur 1

X. Frakkland – Taplausir í 0 leikjum, síðasta tap í maí 2012

2. Spánn – Taplausir í 1 leik, síðasta tap í mars 2007

1. Þýskaland – Taplausir í 0 leikjum, síðasta tap í október 2003

3. England – Taplausir í 0 leikjum, síðasta tap í júní 2004

4. Portúgal – Taplausir í 0 leikjum, síðasta tap í október 2011

5. Belgía – Taplausir í 0 leikjum, síðasta tap í nóvember 2014

Nú vandast málið. Það er lengst síðan íslenska karlalandsliðið tapaði gegn Þjóðverjum en síðasti leikur gegn þeim var vissulega tap. Besta taplausa hrinan er gegn Evrópumeisturum Spánverja, en það eru 2 lið sem Ísland er taplaust gegn í lengri tíma. Þótt vissulega sé það satt að, tæknilega séð, hefur liðið ekki tapað gegn þeim af því það hefur ekki spilað gegn þeim…

En þetta er samt nokkuð augljóst. Ísland er á rönni gegn Spánverjum. Spánverjar er eina liðið af þessum sem Ísland hefur unnið á knattspyrnuvelli. Þar eru flest stigin. Skiptir litlu máli þótt þeir séu ríkjandi Evrópumeistarar og svona, tálfræðin lýgur ekki!

Óskamótherji, pottur 1: Spánn

Þar með er þetta komið á hreint. Samkvæmt ströngustu útreikningum með vísindalegustu aðferðum mögulegum er hér kominn óskadraumafantasíuriðill Íslands á EM 2016:

Spánn

Austurríki

Tékkland

Ísland

Svo bíðum við bara spennt eftir því að sjá þessi lið koma upp úr hinum metafóríska hatti á laugardaginn. Áfram Ísland.