Upphitunarpistill: Austurríki

Nú er komið að þriðja upphitunarpistlinum. Fyrst var það Portúgal, svo Ungverjaland og nú er komið að síðasta landinu sem er með okkur Íslendingum í F-riðli, Austurríki. Árni Súperman tekur svo við af mér hér í upphitunarhorni Tólfunnar og kemur með einhvern skemmtilegan fróðleik á næstu dögum.

Fáni Austurríkis
Austurríski fáninn (sjá: https://en.wikipedia.org/wiki/Flag_of_Austria)

Austurríki (Republik Österreich)

Höfuðborg: Vín
Stærð lands: 83.879 km² (81,4% af stærð Íslands)
Íbúafjöldi: 8,5 milljónir (2.500% af íbúafjölda Íslands)

Tungumál: þýska

Lönd sem liggja að Austurríki: Þýskaland, Ítalía, Ungverjaland, Tékkland, Slóvenía, Sviss, Slóvakía og Liechtenstein

Austurríki er líka landlukt ríki, líkt og Ungverjaland.  Þar er lýðveldi og þingbundin stjórn, líkt og hjá öðrum þjóðum í F-riðli, og hefur verið síðan 1955. Í Austurríki er þjóðin nýbúin að kjósa sér nýjan forseta í æsispennandi kosningum þar sem á endanum munaði aðeins 0,6% á milli tveggja efstu frambjóðenda. Hagfræðiprófessorinn og félagshyggjumaðurinn Alexander Van der Bellen hafði þar betur gegn hinum þjóðernissinnaða Norbert Hofer sem er eins langt til hægri og hægt er, boðskapur hans einkennist helst af útlendingaandúð og fordómum. Líklega ágætt að hagfræðiprófessorinn tók þetta þar sem heimurinn hefur ekki beint góða reynslu af þjóðernissinnuðum öfgastjórnmálamönnum frá Austurríki.

Efsta deild karla í knattspyrnu í Austurríki heitir Österreichische Fußball-Bundesliga og hefur heitið það frá 1974. Þó er saga deildarmóts í fótbolta lengri í Austurríki og fyrsta deildarkeppnin fór fram 1911-12. Alls hafa verið spiluð 104 tímabil í efstu deild í Austurríki. Sigursælustu 2 liðin koma bæði úr höfuðborginni Vín, annars vegar Rapid Wien (32 titlar, 58 sinnum í topp 2) og hins vegar Austria Wien (24 titlar, 42 sinnum í topp 2). Núverandi meistarar eru þó annað lið, FC Red Bull Salzburg frá Walz-Siezenheim, 12 þúsund manna sveitarfélagi í fylkinu Salzburg. Með þeim sigri fór FC Red Bull Salzburg upp í 3. sæti yfir sigursælustu lið Austurríkis með 10 sigra. 3 fyrstu þeirra komu þó á 10. áratug síðustu aldar þegar liðið hét Casino Salzburg.

Austurríska deildin er sú 16. besta í Evrópu samkvæmt styrkleikalista UEFA. Hún er einu sæti neðar en Rúmenía og einu ofar en Króatía. Efsta deild kvenna í Austurríki heitir ÖFB-Frauenliga (ÖFB stendur fyrir austurríska knattspyrnusambandið).  Þrátt fyrir að enn séu 2-3 leikir eftir hjá liðunum í Freuenliga hafa meistarnir frá því í fyrra, FSK St. Pölten-Spratzern, þegar tryggt sér sigurinn. Þær hafa unnið alla 16 leiki sína í deildinni til þessa. Þær eru búnar að vinna deildina 2 ár í röð og austurríska bikarinn 4 ár í röð.

FC Red Bull Salzburg
Leikmenn Red Bull Salzburg fagna austurríska meistaratitlinum (Mynd af heimasíðu félagsins, http://www.redbullsalzburg.at/en)

Austurríki í Júró

Ólíkt nágrönnum sínum í Ungverjalandi er Austurríki afskaplega vel sjóað í Júrófræðum, landið hefur 49 sinnum tekið þátt í keppninni sem er það 12. mesta meðal þátttökuþjóða Júró. Austurríki tók fyrst þátt árið 1957, í annarri keppninni sem haldin var. Þá mætti Bob Martin á svæðið og söng Wohin, kleines Pony? (e. Where to, Little Pony?) Það gekk hins vegar ekki mjög vel hjá kappanum, hann fékk aðeins 3 stig og endaði í síðasta sæti af 10 keppendum.

Þetta var ekki í síðasta skipti sem Austurríki endaði í neðsta sætinu, alls hefur það gerst 8 sinnum. Þar af hafa austurrísku keppendurnir fjórum sinnum staðið uppi stigalausir. Fyrst árið 1962 þegar Eleonore Schwarz söng lagið Nur in der Wiener Luft (e. Only in the Vienna Air). Næst gerðist það árið 1988 þegar Wilfried Scheutz söng lagið Lisa Mona Lisa. Lagið er hrikalegt en trommuleikarinn sýnir þvílík tilþrif sem minna stundum á meistara Phil Collins. Þriðja skipti sem Austurríki endaði stigalaust var árið 1991. Þá söng Thomas Forstner lagið Venedig im Regen (e. Venice in the rain). Forstner hefur örugglega óskað þess að hann væri eins svalur og Stebbi og Eyfi! Fjórða skiptið var svo í fyrra. Þá fékk austurríska lagið, I Am Yours með The Makemakes, ekki eitt einasta stig. Hins vegar lenti lagið, merkilegt nokk, ekki í neðsta sæti. Þýskaland fékk líka 0 stig en Austurríki var framar í flutningsröðinni og þar af leiðandi endaði Þýskaland neðst en ekki Austurríki. Meikar sens!

Austurríki hefur tvisvar unnið Júró. Fyrst árið 1966 þegar Udo Jürgens söng lagið Merci, Chérie (e. Thank you, darling) og svo árið 2014 þegar hin vel skeggjaða Conchita Wurst söng lagið Rise like the phoenix.

Conchita Wurst
Conchita Wurst kampakát með sigurinn í Eurovision 2014 (Mynd: Thomas Hanses, Eurovision.tv)

Menningarhornið

Austurríki hefur alið af sér marga frábæra kvikmyndaleikstjóra. Á tímum þöglu myndanna var framlag austurrískra leikstjóra bæði mikið og magnað. Einn þeirra leikstjóra sem komu fram á sjónarsviðið á þeim tíma var Fritz Lang. Lang fæddist í Vínarborg árið 1890 og hóf að gera kvikmyndir rétt eftir fyrri heimsstyrjöld. Hann vakti athygli fyrir framúrstefnulega leikstjórn og epískar kvikmyndir. Hann gerði t.d. 5 klukkutíma kvikmyndaútgáfu af Niflungahringnum.

Kvikmyndin Metropolis, frá árinu 1927, er líkega hans þekktasta og merkilegasta verk á ferlinum. Gríðarlega epísk framtíðarsaga sem hann gerði í Þýskalandi og var á þeim tíma dýrasta kvikmynd sem framleitt hafði verið auk þess sem það þykir hafa rutt brautina fyrir vísindaskáldskap í kvikmyndagerð.

Í aðalkarlhlutverkið réð Lang ungan, þýskan leikara að nafni Gustav Fröhlich. Sá kom frá Hannover og hafði verið að reyna fyrir sér sem leikari í einhvern tíma, þrátt fyrir ungan aldur. Hann hafði þó ekki náð teljandi frama, aðallega leikið í minni myndum og vafasömum leikritum. En hann sló í gegn í þessari mynd. Sem er vel skiljanlegt því hann er frábær í henni.

Ein af næstu myndum sem Frölich lék í var Die elf Teufel, eða Djöflarnir ellefu. Sú kvikmynd er ekki nærri því eins eftirminnileg og Metropolis en er þó frumkvöðull á ákveðnu sviði því þetta var ein af fyrstu leiknu kvikmyndunum sem fjölluðu um fótbolta. Frölich lék í henni karakter sem kallaður er Tommy og er hæfileikaríkur framherji í knattspyrnuliðinu SC Linda (sem hefur gælunafnið Djöflarnir). SC Linda er verkamannafélag og á í harðri baráttu við ríka félagið International. Hljómar eins og skemmtileg mynd.

Fritz Lang
Fritz Lang að leikstýra Metropolis

Austurríska matarboðspartýið?

Fyrir þau ykkar sem spyrjið „nú er ég búin/n að rúlla upp þessum landaþemamatarboðum og þau hafa bara gert mig að vinsælustu manneskjunni sem ég þekki, þvílíkt sem þetta hefur slegið í gegn! Ég finn að það er farinn að byggjast upp þrýstingur á að ég klári þetta með síðasta landinu, geturðu hjálpað?“ þá ætla ég bara að hafa þetta einfalt.

Austurríki. Vínarborg. Vínarsnitzel. Þjóðarréttur Austurríkis. Steinliggur. Hér má nálgast ekta, austurríska uppskrift að þeirri veislu.

Í eftirrétt er annar svakalega basic réttur sem tengist Austurríki, það er Wiener Apfelstrudel, jaaah. Bara að láta alla gestina segja nafnið á þessum eftirrétti upphátt ætti að koma öllum í gott skap. Hér er ekta, austurrísk uppskrift.

Í Austurríki er algengt að klára góða veislu á rækilega áfengum drykk. Einn slíkur drykkur fæst í vínbúðum hérlendis, Stroh 60.

Eftir þetta borgar sig nú ekki að fara of geyst. Þó má finna passlega grúví tónlist sem er róleg en heldur fólki í gírnum. Kruder & Dorfmeister eru með svarið í lágstemmdri raftónlist, dæmi hér. Þegar meira fjör færist í hópinn má henda Parov Stelar í gang og dansa.

Wiener Schnitzel
Vínarsnitsel, omnom (Mynd: https://en.wikipedia.org/wiki/Wiener_Schnitzel)

Að lokum

Pez sælgætið er frá Austurríki. Austurríski sælgætisframleiðandinn Eduard Haas III hóf framleiðslu á því árið 1927. Hylkin sem halda pezinu voru upphaflega látin líkjast sígarettukveikjurum og pezið markaðssett sem valkostur í staðinn fyrir reykingar.

Slow motion, sú tækni að sýna myndband hægt, var fundin upp af austurrískum presti, August Musger, snemma á 20. öldinni. Án hans hefðum við til dæmis ekki hægar endursýningar af fótboltamörkum.