Mótherjinn: Argentína

Nú er þegar orðið ljóst hvaða leikmenn eru í HM-hópi Heimis Hallgrímssonar, við fengum að vita það síðasta föstudag. Og í dag er akkúrat mánuður þar til Ísland spilar sinn fyrsta leik á HM í fótbolta. Gæsahúð!

Til að stytta stundirnar fram að þessum stórviðburði ætlum við í podcastteymi Tólfunnar að skrifa nokkra upphitunarpistla sem munu birtast á nokkurra daga fresti fram að móti. Fyrst koma löndin sem eru með Íslandi í riðli, svo borgirnar þar sem leikir Íslands fara fram og að lokum vellirnir sem Ísland spilar á í mótinu. Vonum að þið hafið gaman af þessu.

Höfundur þessa pistils er Halldór Marteins.

Fáni Argentínu (Mynd fengin héðan: https://en.wikipedia.org/wiki/Flag_of_Argentina)

Argentína (República Argentina)

Höfuðborg: Buenos Aires
Stærð landsins: 2.780.400 km2 (áttunda stærsta land í heimi að flatarmáli)
Íbúafjöldi: 43,8 milljón (áætlaður fjöldi 2016)

Tungumál: það er ekkert opinbert tungumál Argentínu en spænska er langalgengasta tungumálið sem er talað þar. Önnur tungumál eru nokkuð algeng, eins og enska, ítalska, arabíska og fleiri. Staðbundin tungumál innan Argentínu eru t.d. frumbyggjamál eins og gvaraní, qom, mocoví og wichí.

Lönd sem liggja að Argentínu: Síle, Bólivía, Paragvæ, Brasilía og Úrúgvæ.

Argentína er sambandsríki með forseta og stjórnarskrárbundnu lýðræði. Það hefur verið með stjórnarskrárvarið sjálfstæði frá árinu 1853 en var undir stjórn Spánverja áður. Argentína hafði þó lýst yfir sjálfstæði strax árið 1816 eftir byltingu sem hófst árið 1810.

Argentína hefur löngum verið þekkt fyrir knattspyrnulið og -leikmenn. En þrátt fyrir að Argentína elski sinn fótbolta þá er fótboltinn samt ekki þjóðaríþrótt landsins. Það myndi vera hestaíþróttin pato. Pato þýðir önd, enda var íþróttin upphaflega leikin með lifandi önd en öndinni var seinna skipt út fyrir knött með handföngum.

Mynd: Federación Argentina de Pato y Horseball (Heimasíða: http://pato.org.ar/deporte-nacional/ )

Elstu heimildir um pato eru frá árinu 1610. Nokkur önnur lönd spila svipaða íþrótt sem kallast hestabolti og þróaðist út frá pato. Reglurnar eru nógu líkar til að haldin hafa verið heimsmeistaramót þar sem argentínskir patospilarar hafa tekið þátt. Argentína hefur þó ekki náð að sigra slíka keppni ennþá.

Árlega er keppt um Argentínumeistaratitil í pato. Núverandi meistarar eru í liðinu Las Heras-Los Baguales Agropharma sem sigraði El Relincho SRVT með 17 stigum gegn 15 í úrslitaleik í desember síðastliðnum.

Það að pato sé þjóðaríþrótt Argentínu er þó ekki vegna þess að það sé vinsælasta íþrótt landsins. Þar hefur knattspyrnan vinninginn, með töluverðum yfirburðum. Raunar er talið að um 90% af landsmönnum hafi aldrei séð leik af pato.

Skýringin á því hvers vegna pato er þjóðaríþróttin er sú að árið 1953 lýsti þáverandi forseti landsins, Juan Perón, því yfir að pato ætti að vera þjóðaríþrótt landisns. Þá hafði pato nýlega náð vinsældum aftur eftir nokkrar reglubreytingar. Íþróttin hafði dottið úr náðinni í mörg ár vegna þess hve ofbeldisfull hún var, sérstaklega þegar spilað var með lifandi dýr. En á fyrri hluta 20. aldar varð hún aftur hluti af þjóðarsálinni, sérstaklega vegna þess að ólíkt öðrum íþróttum var hún argentínsk uppfinning.

Embed from Getty Images

Þótt Argentína eigi enn eftir að ná því að verða heimsmeistari í hestabolta þá náði karlalandslið þeirra í knattspyrnu þó að verða heimsmeistari í fótbolta árið 1978. Þá stóð í markinu hjá þeim hinn 27 ára gamli Ubaldo Fillol. Fillol var einnig þekktur undir gælunafninu sínu en það var el Pato. Hvort það var vegna sérstaks áhuga markvarðarins á þjóðaríþróttinni skal ekki sagt. Hann var þó afskaplega góður í markinu og endaði á að vera valinn markmaður mótsins.

El Pato var í argentínska hópnum á þremur heimsmeistaramótum. Árið 1974 fór hann með Argentínu til Vestur-Þýskalands. Þá fékk hann treyjunúmerið 12 en spilaði ekkert á mótinu. Árið 1978 var hann í treyju númer 5 þegar mótið var í heimalandinu. Árið 1982 fór hann með til Spánar, var áfram aðalmarkmaðurinn, en í þetta skiptið í treyju númer 7. Harla óvanaleg númer fyrir markmann en árin 1978 og 1982 raðaði Argentína númerum í stafrófsröð á leikmenn sína. Þannig endaði það með því að bæði 1978 og 1982 voru miðjumenn í treyjum númer 1. Í fyrra skiptið var það Norberto Alonso en í seinna skiptið Osvaldo Ardiles. Ardiles sá spilaði á þeim tíma með Tottenham Hotspur en þurfti hálfpartinn að flýja á láni til PSG árið 1982 eftir að Argentína og England hófu stríð vegna Falklandseyja.

Tónlist og fótbolti

Í fljótu bragði gat ég ekki fundið neina argentínska tónlist um þjóðaríþróttina pato. Hún er þó sjálfsagt til fyrir það og það myndi líklegast hjálpa mér aðeins við leitina ef ég kynni eitthvað í spænsku. Ég fann þó tangó frá árinu 1926 sem heitir Pato, með frábærri söngkonu sem hét Rosita Quiroga. Rosita þessi var mikill frumkvöðull, hún var t.d. fyrsta söngkonan frá fátækari hluta Buenos Airos sem náði vinsældum og hún var fyrsta konan til að syngja í argentínsku útvarpi. En þetta tilfinningaríka lag er alls ekki um íþróttina sem kennd er við önd. Þarna er pato slangur sem þekkist í fátækari svæðum Buenos Aires og merkir þá fátæklingur.

Ég þarf hins vegar enga sérstaka spænskukunnáttu til að finna argentínska tónlist sem tengist knattspyrnuíþróttinni. Þau eru til dæmis ansi mörg, lögin þaðan sem fjalla um Diego Armando Maradona og hetjudáðir hans.

Árið 1987 ákváðu nokkrir vinir að stofna hljómsveitina Attaque 77. Þeir voru allir í kringum tvítugt á þeim tíma og komu úr verkamannahverfi í Buenos Aires. Þar höfðu þeir drukkið í sig fótbolta og pönk, helsta fyrirmynd þeirra í tónlist var Ramones og var upphaflegi tilgangurinn með hljómsveitarstofnuninni að spila saman lög eftir Ramones. En þeir byrjuðu fljótlega að semja eigin lög og sóttu sér þá innblástur í kringum sig, til dæmis fótboltann.

Árið 1989 kom fyrsta platan þeirra út, Dulce Navidad. Á þeirri plötu var lagið Sola en la Chanca (Ein í stúkunni) sem fjallaði um stúlku sem var einmana og misskilin en fann huggun í því að fara á fótboltaleiki með Boca Juniors og syngja stuðningslög.

Þegar tíundi áratugurinn rúllaði í gang komu töluvert fleiri rokklög sem tengdust fótboltanum á einhvern hátt. Jafnvel svo mikið að einhverjir fóru að tala um rock futbolero sem sérstakan undirflokk rokksins þar í landi.

En textarnir eru alls ekki eina tengingin sem argentínsk lög geta haft við fótboltann. Raunar er það svo að besta leiðin fyrir hljómsveitir til að sjá hvort þær hafi samið alvöru hittara er ekki að skoða sölutölur eða útvarpsspilanir heldur sjá hvaða viðtökur lagið fær í stúkunni. Allflest lög eru prófuð þar en ef lagið lifir og breiðist út, þá ertu með alvöru hittara.

Sumar hljómsveitir verða einfaldlega stórar á því að raða inn stúkuhitturum. Hljómsveitin Los Autenticos Decadentes þykir fremst á því sviði og Los Fabulosos Cadillacs fylgir þeim ekki langt á eftir. Hljómsveitin Los Calzones átti færri stúkuslagara en hin tvö böndin en þó slatta af þeim. Þeir voru þakklátir fyrir vinsældirnar og ákváðu að semja lag til baka, til heiðurs fótboltanum og fótboltastuðningi. Textinn fjallar líka um fótboltaupplifun svo stuðningsmenn, sem að sjálfsögðu rifu þetta lag með sér beint á pallana, þurftu engu að breyta þegar þeir notuðu lagið til að styðja sitt lið.

Argentínsk veisla

Ef þið viljið henda í góða, argentínska þemaveislu, annað hvort í aðdraganda HM eða bara laugardaginn 16. júní til að komast rækilega í gírinn fyrir fótboltaleikinn á milli Íslands og Argentínu, þá er best að fara bara beint í grunnstöffið.

Asado er argentínsk grillveisla og mikil stemning sem fylgir því. Það snýst í grunninn um að hæggrilla mat, aðallega helling af kjöti. Argentínumenn eru mikið fyrir gott kjöt, sér í lagi nautakjöt. Að meðaltali borðar hver manneskja í landinu 55 kíló af nautakjöti á ári. Það eru rúmlega 150 grömm af nautakjöti á dag fyrir hverja manneskju. Í asado er samt yfirleitt gert ráð fyrir 500 grömmum af kjöti á hvern matargest. Hér má sjá leiðbeiningar um hvernig á að gera gott asado.

Grillað nautakjöt. (Mynd: Vínótek.is)

En asado er flókið og ekki allir sem hafa tíma fyrir það. Þá má auðvitað bara finna sér extra gott nautakjöt og skella því á grillið. Hér má finna nokkrar hugmyndir og uppskriftir fyrir grillað nautakjöt.

Með þessu víni er tilvalið að hafa gott, argentínskt Malbec rauðvín. Til dæmis Trapiche Gran Medalla Malbec 2014 eða eitthvað annað gott Malbec sem fæst í Vínbúðinni. Það eru alveg nokkrar tegundir til þar.

Með þessari veislu má spila argentínskan tangó. Þessi klassíski stendur alltaf fyrir sínu en svo má fá aðeins uppfærðan fíling í partýið með því að spila hljómsveitina Tanghetto. Sú hljómsveit blandar saman tangó og raftónlist, spilar það sem hefur verið kallað neo tango eða tango nuevo.

Að lokum

  • Argentína var fyrsta landið til að nýta fingraför til að leysa lögreglumál. Það var árið 1892 þegar argentínskir rannsóknarlögreglumenn notuðu blóðugt fingrafar til að finna morðingja.
  • Árið 2001 skall mikil kreppa á Argentínu. Svo mikil varð ringulreiðin að á 10 daga tímabili komust 5 forsetar til valda í Argentínu.
  • Árið 1987 uppgötvaðust leifar af risaeðlu á búgarði í Argentínu. Þetta er talin vera stærsta, þekkta risaeðlutegund í sögunni og fékk hún nafnið Argentinosaurus. Hún er talin hafa geta orðið 50-100 tonn að þyngd og 25-40 metrar að lengd.