Leikdagur: Tyrkland – Ísland

Þá er komið að næst síðasta leik Íslands í þessari undankeppni. Eins og staðan er núna virðast allar líkur á því að við þurfum að fara í umspil í mars, Tyrkland er í lykilstöðu í baráttunni við Ísland um annað af tveimur efstu sætum riðilsins með Frakklandi. En þetta er ekki búið ennþá! Það er enn möguleiki á að klára þetta strax. Til þess þurfum við bara að vinna báða leikina okkar, þ.á m. Tyrkina á þeirra heimavelli í þessum leik, og treysta svo á að Ilde Lima og félagar geri eitthvað sniðugt gegn Tyrklandi í lokaumferðinni.

A-landslið karla,
undankeppni fyrir EM 2020.
9. umferð í H-riðli.
Fimmtudagurinn 14. nóvember 2019,
klukkan 17:00 að íslenskum tíma (20:00 að staðartíma).

Tyrkland – Ísland

Völlur: Türk Telekom Stadium í Istanbúl.

Dómari: Anthony Taylor, frá Englandi.


Dagskrá og veður

Þessi leikur verður í þráðbeinni útsendingu á RÚV og hefst útsending á slaginu 16:15. Hann verður svo sýndur í óbeinni útsendingu á Stöð 2 Sport, sú útsending hefst klukkan 23:05.

Vinir okkar á Ölveri Sportbar í Glæsibæ, félagsheimili Tólfunnar og alhliðarsnilldarstað, verða að sjálfsögðu með leikinn í gangi í öllum hornum og skúmaskotum, eitthvað gríðarlega svalandi á krana eða í kæli og fullan matseðil af gúrmei fótboltapöbbamat. Það er aldrei leiðinlegt að horfa á leiki þar í góðum félagsskap. Ef það er einhvern tímann dagur til að hringja sig inn veikan í vinnuna og mæta svo snemma á barinn þá er það þessi dagur. Gerðu það fyrir landsliðið þitt, sýndu stuðninginn í verki! Áfram Ísland!

Veðrið á að vera fínt á meðan leik stendur, 16-17 gráðu hiti, alskýjað með mögulega smávegis rigningu með um 4 m/s af vestsuðvestanátt. Afskaplega huggulegt veður sem ætti ekki að trufla fótboltann neitt.


Tyrkland

Upphitunin fyrir fyrri leik liðanna í riðlinum.

Staða á styrkleikalista FIFA: 32. sæti. Tyrkland er nú með 1.490 stig, bætir við sig 15 stigum frá því síðasti listi kom út og hækkar um 4 sæti.

Gengi í síðustu 10 leikjum: S S S S S T S S S J
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 20-4

Eini tapleikur Tyrkja í síðustu 10 viðureignum, ásamt 2 af mörkunum 4 sem liðið hefur fengið á sig á þeim tíma, kom í 2-1 sigri Íslands á Laugardalsvellinum í júní.

Landsliðsþjálfari: Hinn 87 ára gamli ?enol Güne? tók við tyrkneska liðinu 1. júní 2019. Þrátt fyrir háan aldur fékk kallinn 4 ára samning og hefur byrjað vel. Hann stýrði liðinu áður á árunum 2000 til 2004.
Landsliðsfyrirliði: Emre Belözo?lu, miðjumaður hjá Fenerbahçe.

Leikjahæstur: Markvörðurinn Rü?tü Reçber spilaði 120 A-landsleiki á sínum ferli á árunum 1994 til 2012. Af þeim sem eru enn að spila hefur fyrirliðinn Belözo?lu spilaði 101 landsleik og Arda Turan 100.

Markahæstur: Goðsögnin Hakan ?ükür skoraði 51 mark í 112 A-landsleikjum á sínum ferli á árunum 1992-2007. Sá sem kemur næstur er enn að spila en vantar ansi mikið upp á. Burak Y?lmaz, framherji hjá Be?ikta? hefur spilað fyrir A-landsliðið frá árinu 2006 og er kominn með 24 mörk í 55 landsleikjum.

Embed from Getty Images

Tyrkland hefur fjórum sinnum komist á lokamót EM karla í fótbolta og tvisvar á lokamót HM. Bestum árangri á EM náði liðið 2008 og á HM 2002, í bæði skiptin endaði liðið með bronsverðlaun. Á EM í Frakklandi 2016 endaði liðið í 17. sæti eftir 1 sigur og tvö töp í riðlakeppninni, var eitt tveggja liða sem enduðu í þriðja sæti en sátu eftir. Tyrkland sat svo eftir í fjórða sæti í sínum riðli í undankeppninni fyrir HM í Rússlandi í fyrra, í riðli sem við Íslendingar sigruðum.

Þessi undankeppni hefur þó gengið mjög vel hjá Tyrkjunum. Þeir hafa náð upp einum besta varnarleik sem sést í undankeppninni, hafa aðeins fengið á sig 3 mörk í undankeppninni. 2 þeirra gegn Íslandi eftir hornspyrnur og eitt gegn Frakklandi á útivelli. Tyrkir hafa unnið 6 leiki, þar á meðal Frakka í Tyrklandi, gert eitt jafntefli (gegn Frakklandi úti) og aðeins tapað þessum eina leik, gegn Íslandi á Laugardalsvellinum í júní.

Tyrkirnir hafa skorað 16 mörk í undankeppninni, þeirra markahæstur er Cenk Tosun, samherji Gylfa Þórs hjá Everton. Hann hefur skorað 5 mörk í undankeppninni til þessa. Fjögur þeirra komu í 2 leikjum gegn Moldóvu og hið fimmta í tæpum sigri á Albönum í Tyrklandi í október. Næstur á eftir Tosun kemur svo Kaan Ayhan, leikmaður Fortuna Düsseldorf, með 3 mörk. Ayhan spilar oftast sem miðvörður en getur einnig spilað hægri bakvörð eða sem varnarsinnaður miðjumaður. Ayhan skoraði í báðum leikjunum gegn Frökkum auk þess að skora gegn Moldóvum í Tyrklandi í mars. Þetta eru einu landsliðsmörkin sem Ayhan hefur skorað, en hann hefur spilað 26 A-landsleiki.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 40. sæti. Ísland er nú með 1.460 stig, missir 1 stig frá síðasta lista en hækkar þó um eitt sæti.

Gengi í síðustu 10 leikjum: J J S T S S S T T S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 14-12

Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén er landsliðsþjálfari Íslands með Frey Alexandersson sem sinn aðstoðarmann.
Landsliðsfyrirliði: Aron Einar er að sjálfsögðu alltaf fyrirliðinn okkar en í meiðslum hans er Gylfi Þór Sigurðsson mjög vel að bandinu kominn, enda líka gríðarlega mikill og góður leiðtogi bæði innan sem utan vallar.

Leikjahæstur: Ragnar Sigurðsson er núna næstur á eftir Rúnari Kristins á listanum yfir leikjahæstu leikmenn karlalandsliðs Íslands frá upphafi. Raggi er kominn með 92 A-landsleiki, aðeins 12 leikjum á eftir Rúnari. Birkir Már Sævarsson er þar á eftir með 90 leiki.

Embed from Getty Images

Markahæstur: Kolbeinn Sigþórsson hefur náð Eiði Smára Guðjohnsen á markakóngslista Íslands, þeir eru báðir með 26 mörk. Þetta gerðist auðvitað allt eftir að Kolli kíkti í heimsókn í hlaðvarp Tólfunnar, við segjum bara verði þér að góðu, Kolli!

Gylfi Þór Sigurðsson er næstur á eftir þeim, með 21 mark. Hann veit bara hvað hann þarf að gera til að ná þeim, kíkja við sem gestur í hlaðvarpinu okkar. Wink, wink!

Embed from Getty Images

Ísland er í þriðja sæti H-riðils eins og er, með 15 stig eftir 5 sigra og 3 töp í 8 umferðum. Tapleikir gegn heimsmeisturum Frakka voru svosem ekki óvæntir en það var afskaplega svekkjandi að tapa fyrir Albaníu á útivelli.

Ísland hefur skorað 12 mörk í riðlinum en fengið 10 á sig. Markahæsti leikmaður okkar liðs í þessari undankeppni er Kolbeinn Sigþórsson sem hefur skorað 3 mörk. Á eftir honum koma Birkir Bjarna og Raggi Sig með 2 mörk hvor.


Fyrri viðureignir

Ef teknir eru allir flokkar landsliða, bæði í karla- og kvennaflokki, þá hafa Ísland og Tyrkland mæst 28 sinnum í fótboltalandsleikjum.

Ísland hefur unnið 11 leiki, Tyrkland 14 og 3 hafa endað með jafnteflum. Samtals hafa íslensku liðin skorað 43 mörk en þau tyrknesku 52.

Embed from Getty Images

Ef við tökum bara A-landslið karla þá hafa þjóðirnar mæst 12 sinnum. Ísland hefur unnið 8 af þeim leikjum, Tyrkland 2 og 2 hafa endað með jafntefli. Ísland hefur í þessum 12 leikjum skorað 23 mörk gegn 11 tyrkneskum mörkum.


Dómarahornið

Dómarinn í þessum leik verður hinn margreyndi Anthony Taylor frá Manchesterborg í Englandi. Þann 20. október sl. hélt Taylorinn upp á 41 árs afmælið sitt, hann hefur dæmt fótboltaleiki frá árinu 2002 og dæmt í ensku úrvalsdeildinni frá árinu 2010. Hann varð alþjóðlegur FIFA-dómari árið 2013 og hefur dæmt 52 leiki á vegum UEFA til þessa.

Embed from Getty Images

Með Anthony Taylor í þessum leik verða Gary Beswick og Adam Nunn sem aðstoðardómarar og Stuart Atwell sem fjórði dómari.


Áfram Ísland!