Leikdagur: Sviss – Ísland

Þá er komið að fyrsta leik Íslands í glænýrri keppni. Það verður áhugavert að sjá hvernig Þjóðadeildin kemur út. Það er þó á hreinu að Heimir Hallgríms fílar Þjóðadeildina og það að Ísland sé í A-deildinni gefur okkur mörg góð tækifæri. Nú er um að gera að nýta þau vel.

A-landslið karla,
Þjóðadeild UEFA,
Fyrsti leikur í 2. riðli í A-deildinni.
Laugardagurinn 8. september,
Klukkan 16:00 að íslenskum tíma, 18:00 að staðartíma.

Sviss – Ísland

Völlur: Kybunpark-völlurinn í St. Gallen í Sviss.

Sviss er ekki með einn ákveðinn heimavöll heldur skiptist á að spila á nokkrum heimavöllum. Kybunpark-völlurinn í St. Gallen er einn þeirra, þar spilaði Sviss t.d. einn af heimaleikjunum í undankeppninni fyrir síðasta heimsmeistaramót. Sviss spilaði þá 6 heimaleiki á 6 mismunandi völlum.

Embed from Getty Images

St. Gallen er ekki það gamall völlur, það eru 10 ár síðan hann var tekinn í notkun fyrst. Völlurinn er heimavöllur FC St. Gallen sem spilar í efstu deildinni í Sviss. Svissneska landsliðið hefur spilað 9 leiki þarna, unnið 6 þeirra, gert 2 jafntefli og tapað 1. Markatala Sviss á vellinum er 23-6. En það skal þó tekið fram að meðal leikja sem Sviss hefur spilað á vellinum er vináttuleikur gegn Liechtenstein og undankeppnisleikir gegn San Marínó, Andorra og Litháen. Átta sinnum hefur völlurinn verið notaður fyrir vináttulandsleiki sem ekki innihélt Sviss, nú síðast spilaði Sádí-Arabía tvo leiki þarna í aðdraganda HM í Rússlandi, gegn Ítalíu og Perú.

Völlurinn tekur 19.694 áhorfendur í sæti og það er hefðbundið gras á vellinum sjálfum.

Dómari: Michael Oliver, enskur.

Veðurspá:

Á meðan leik stendur verður hitinn að lækka úr þetta 20 gráðum niður í 15-16 gráður, sem er samt ljómandi fínt. Það verður léttskýjað til heiðskírt, ætti að vera úrkomulaust og það verður 1-2 m/s af norð- til norð-norð-austan átt.


Dagskráin

Það verður án efa slatti af íslensku stuðningsfólki á þessum leik í Sviss. Við treystum á að allir Íslendingar á vellinum láti vel í sér heyra og peppi liðið til dáða.

Að vanda eru allar Tólfur sem eru á höfuðborgarsvæðinu, eða tilbúnar að leggja á sig ferðalag þanga, velkomnar á sportbarinn Ölver. Hann er okkar uppáhalds bar og hálfgert félagsheimili fyrir allar Tólfur. Þar líður okkur vel og þar erum við alltaf velkomin, hvort sem verið er að spila heimaleiki eða útileiki og einnig þegar enginn leikur er í gangi.

Við ætlum að horfa á leikinn saman á Ölveri. Það verður svosem engin sérstök dagskrá í gangi í þetta skipti en við stefnum á að vera mætt þar í seinasta lagi klukkan 15:00.


Sviss

Staða á styrkleikalista FIFA: 8. sæti
Sviss var í 6. sæti yfir sumartímann, sem er með því hæsta sem Sviss hefur náð. Hæst fór Sviss í 3. sæti í stuttan tíma árið 1993 en það hefur komist í 4. sæti á mismunandi tímapunktum, til dæmis á árinu 2017. Lægst fór Sviss í 83. sæti árið 1998. Að meðaltali hefur Sviss verið í 31. sæti en síðustu 5 ár hefur Sviss verið í ca. 8.-12. sæti.

Gengi í síðustu 10 landsleikjum: S J S S J S J S J T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 16-6
Einn af þessum sigurleikjum er 6-0 sigur í vináttuleik gegn Panama.

Landsliðsþjálfari: Vladimir Petkovi?
Fyrirliði: Stephan Lichtsteiner, Arsenal.

Embed from Getty Images


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 32. sæti.
Ísland fellur um 10 sæti á styrkleikalistanum. Er þó ekki með versta stökk niður á milli lista því Egyptaland fellur um 20 sæti á listanum frá því síðast, fer í 65. sæti.

Gengi í síðustu 10 landsleikjum: J S S T T T J J T T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 18-18

Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén
Fyrirliði: Aron Einar Gunnarsson, Cardiff City.

Við höfum glænýjan landsliðsþjálfara, nýjan aðstoðarþjálfara fyrir karlalandsliðið og nýjar viðbætur við þjálfarateymið. Þar að auki erum við ekki með okkar hefðbundna landsliðsfyrirliða í þessum leik.

Aron Einar Gunnarsson hefur fórnað ansi miklu í gegnum tíðina til að leiða landsliðið okkar. Hann hefur alltaf gefið sig allan í verkefnin og var til að mynda í landsliðsverkefni þegar hans fyrsta barn fæddist. Í þetta skipti gafst honum tækifæri til að vera viðstaddur fæðingu annars sonar síns og það er frábært. Við óskum honum að sjálfsögðu innilega til hamingju með soninn.

Embed from Getty Images

Hamrén hefur gefið það út fyrir þennan leik að Gylfi Þór Sigurðsson verði fyrirliði liðsins í leiknum. Það er fyllilega verðskulkdað.


Fyrri viðureignir þjóðanna

A-karlalandslið Íslands og Sviss hafa sex sinnum áður mæst á knattspyrnuvellinum. Enginn af þessum leikjum var vináttuleikur heldur hafa þeir allir komið í undankeppnum fyrir mismunandi stórmót.

Fyrst lentu þjóðirnar saman í riðli í undankeppninni fyrir EM 1980. EM var þá haldið í Ítalíu og ásamt Íslandi og Sviss kepptu Holland, Pólland og Austur-Þýskaland um eitt laust EM-sæti í riðli 4.

Fyrri leikur þjóðanna í þessari undankeppni fór fram á Wankdorfstadion í Bern 22. maí 1979. 20. 234 áhorfendur mættu á völlinn til að sjá tvö lið sem bæði höfðu tapað öllum leikjunum í keppninni til þessa. Ísland hafði spilað 3 leiki en Sviss 4. Það gekk ekki vel hjá okkar mönnum og Sviss náði að skora eitt mark í hvorum hálfleik. Herbert Hermann skoraði í fyrri hálfleik og hinn vel nefndi Gian-Pietro Zappa skoraði í seinni hálfleik. Zappa þessi var öflugur varnarmaður sem á þeim tíma spilaði fyrir FC Zürich. Hann var þekktur fyrir sín þrumuskot og hættulegar aukaspyrnur. Íslenska liðið átti engin svör við því.

Seinni leikurinn fór fram 18 dögum síðar, laugardaginn 9. júní 1979, á Laugardalsvellinum. 10.469 áhorfendur mættu í Laugardalinn til að fylgjast með leiknum, þrátt fyrir heldur dapurt gengi Íslands í undankeppninni fram að þessu. Eftir markalausan fyrri hálfleik fengu íslenskir áhorfendur tækifæri til að fagna duglega á 49. mínútu þegar Janus Guðlaugsson kom Íslandi yfir í leiknum. En því miður entist það ekki lengi því Raimondo Ponte jafnaði fyrir Sviss á 59. mínútu og Heinz Hermann (yngri bróðir Herberts Hermann) skoraði sigurmark Sviss tveimur mínútum síðar.

Holland endaði á að vinna riðilinn og fór á EM. Sviss fékk einu stig sín gegn Íslandi og skoraði í þeim leikjum 4 af 7 mörkum sínum í undankeppninni. Ísland endaði stigalaust á botni riðilsins og skoraði aðeins 2 mörk í 8 leikjum. Annað þeirra gegn Sviss en hitt gegn Austur-Þýskalandi.

Árið 1996 sneri fótboltinn aftur heim, eins og sungið var í Englandi þegar EM var haldið þar yfir sumartímann. Í undankeppninni fyrir það mót lenti Ísland aftur með Sviss í riðli. Löndin voru saman í riðli 3, ásamt Tyrklandi, Svíþjóð og Ungverjalandi. 3. riðillinn var eini riðillinn af 8 sem innihélt 5 lönd, í öllum hinum riðlunum voru 6 þjóðir.

Fyrri leikur þjóðanna í þeirri undankeppni fór fram á Stade olympique de la Pontaise í Lausanne 16. nóvember 1994. 15.800 áhorfendur voru mættir þegar Patrick Kelly frá Írlandi flautaði leikinn á. Sviss náði að vinna leikinn og var það miðjumaðurinn Thomas Bickel, þáverandi leikmaður Grasshopper Zürich, sem skoraði eina mark leiksins á 44. mínútu.

Seinni leikurinn var spilaður 16. ágúst 1995, fyrir framan 8.387 áhorfendur á Laugardalsvellinum. Framherjinn Adrian Knup kom Sviss yfir strax á 4. mínútu. Knup spilaði á þessum tíma með Karlsruher SC í Þýskalandi. Á 18. mínútu bætti sóknarmaðurinn Kubilay Kubi Türkyilmaz við öðru marki fyrir gestina. Kubi var þarna að skora sitt 17. landsliðsmark. Hann átti eftir að bæta öðrum 17 við áður en landsliðsferlinum lauk og endaði þann feril með 34 mörk í 64 leikjum. Á þeim tíma var það markamet hjá svissneska karlalandsliðinu. Því meti hélt hann til ársins 2008 þegar Alexander Frei tók frammúr honum. Hann er þó enn í 2.-3. sæti.

Sviss gekk mun betur í þessari undankeppni en fyrir EM 1980. Liðið vann 5 leiki, gerði 2 jafntefli og tapaði aðeins einum leik. Það dugði þeim til sigurs í riðlinum svo Sviss fór á EM í Englandi ásamt Tyrklandi. Íslandi gekk örlítið betur en í undankeppninni fyrir EM 1980, náði þarna í 5 stig og skoraði alveg 3 mörk. En aftur varð neðsta sætið hlutskipti okkar.

Núna síðast lentu löndin svo saman í riðli í undankeppninni fyrir HM í Brasilíu árið 2014. Þá voru þessar þjóðir í E-riðli ásamt Noregi, Slóveníu, Albaníu og Kýpur. Ein þjóð í hverjum riðli fór beint á HM á meðan 8 af 9 löndum sem enduðu í 2. sæti fóru í umspil.

Fyrri leikur þessara þjóða var spilaður á Laugardalsvellinum 16. október 2012. Það var í 4. umferð riðlakeppninnar. Fyrir hafði Ísland náð að vinna Noreg á heimavelli, tapað svo fyrir Kýpur úti en unnið Albaníu síðan á útivelli. Sviss hafði aftur á móti unnið Slóveníu úti og Albaníu heima áður en þeir gerðu jafntefli við Noreg á heimavelli.

Fyrsti rúmi klukkutíminn var markalaus en á 66. mínútu náði Tranquillo Barnetta að brjóta ísinn fyrir Sviss. Þessi miðjumaður spilar einmitt núna í St. Gallen en hefur ekki verið í svissneska landsliðinu síðan 2014. Framherjinn Mario Gavranovi? bætti við öðru marki á 79. mínútu og Sviss vann leikinn þannig. Ísland hefur aðeins tapað einum keppnisleik á Laugardalsvelli síðan þá.

Seinni leikurinn fór fram á Stade de Suisse í Bern 6. september 2013. Ísland hafði í millitíðinni unnið Slóveníu úti en tapað fyrir þeim á heimavelli. Sviss hafði farið til Kýpur og gert þar markalaust jafntefli en síðan unnið Kýpur í Sviss. 26.000 áhorfendur mættu á leikinn.

Hann byrjaði mjög vel fyrir okkar menn, Jóhann Berg Guðmundsson kom Íslandi yfir strax á 3. mínútu með stórglæsilegu marki. Ekki hans síðasta í þeim leik. Sviss svaraði hins vegar og var komið í 3-1 eftir hálftíma leik. Stephan Lichtsteiner skoraði 2 og Fabian Schär eitt. Sviss fékk svo víti eftir tæpar 10 mínútur í seinni hálfleik, Blerim Džemaili skoraði og kom Sviss í 4-1. Fór þá um margan íslenskan stuðningsmanninn. En íslenska liðið var aldeilis ekki búið að gefast upp og Kolbeinn Sigþórsson minnkaði muninn í 4-2 strax í kjölfarið. Jóhann Berg skoraði svo annað glæsimark á 68. mínútunni og íslenska liðið kláraði leikinn á fullu. Í uppbótartíma fullkomnaði Jóhann Berg eina allra flottustu þrennu sem knattspyrnan hefur séð þegar hann skrúfaði boltann í fjærhornið utan teigs. 4-4 niðurstaðan, sem er eina stigið sem Ísland hefur náð gegn Sviss. En það er þá bara alveg kominn tími á að ná fyrsta sigrinum!


Áfram Ísland!

Sjá þetta!