Leikdagur: Moldóva – Ísland

Þá er það lokaleikurinn í undankeppninni fyrir EM alls staðar á næsta ári. 90 mínútur eftir af þessari undankeppni og um að gera að nýta þær sem best. Andstæðingurinn er ekki sá öflugasti og við gerum skýra kröfu um að hirða öll þrjú stigin í leiknum. Þótt það sé ekki lengur möguleiki á að komast á EM í gegnum undankeppnina þá væri gaman að sjá leikmenn gefa allt í þennan leik, sérstaklega ef við sjáum ný andlit fá góðar mínútur.

A-landslið karla.
Undankeppni fyrir EM 2020,
10. umferð í H-riðli.
Sunnudagurinn 17. nóvember 2019,
klukkan 19:45 að íslenskum tíma (21:45 að staðartíma).

Moldóva – Ísland

Völlur: Zimbru Stadium í Chi?in?u, höfuðborg Moldóvu. Völlurinn opnaði 2006 eftir að hafa verið 27 mánuði í smíðum og kostað 11 milljón dollara. Völlurinn er þjóðarleikvangur Moldóvu, þar spilar landsliðið alla sína heimaleiki. Einnig er þetta heimavöllur félagsliðsins FC Zimbru Chi?in?u. Zimbru er áttfaldur moldóvskur meistari í fótbolta, auk þess sem liðið vann sovétsku efstu deildina árið 1955.

Dómari: Pavel Královec frá Tékklandi.


Dagskrá og veður

Leikurinn verður í beinni útsendingu hjá RÚV, útsending þar hefst klukkan 19:20. Leikurinn verður svo sýndur í óbeinni útsendingu á Stöð 2 Sport, þar hefst útsendingin klukkan 23:00.

Að vanda verður svo hægt að mæta með kæti á Ölver í boltalæti og fá sér sæti, finna eitthvað æti sem bætir lund og glas á fæti með einhverju til að væta kverkarnar yfir leiknum. Vinir okkar í Glæsibæ taka alltaf vel á móti boltaþyrstu fólki.


Moldóva

Upphitunarpistill fyrir fyrri leik liðanna í undankeppninni.

Staða á styrkleikalista FIFA: 175. sæti listans, með 963 stig. Moldóva hefur lækkað um 3 sæti og misst 15 stig frá fyrri lista.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T T T S T T T T T T
Markatalan í síðust 10 leikjum: 3-25

Landsliðsþjálfari: Engin F?rat tók við moldóvska liðinu í lok október. Hann er frá Tyrklandi og þrátt fyrir að vera aðeins 49 ára gamall hefur hann 22 ára reynslu af knattspyrnuþjálfun.
Landsliðsfyrirliði: Artur Ioni?a, hinn 29 ára gamli miðjumaður hjá Cagliari, er fyrirliði liðsins.

Embed from Getty Images

Leikjahæstur: Alexandru Epureanu var lengi vel fyrirliði liðsins og er leikjahæstur í sögu Moldóvu. Hann spilaði 91 A-landsleik og skoraði í þeim 7 mörk. Af núverandi leikmönnum liðsins er miðjumaðurinn Eugeniu Cebotaru, leikmaður FC Academica Clinceni í Rúmeníu, leikjahæstur með 66 A-landsleiki.

Markahæstur: Markahæsti leikmaður í sögu Moldóvu skoraði 11 mörk á sínum ferli. Þar var á ferðinni framherjinn Serghei Cle?cenco, sem spilaði 69 leiki fyrir Moldóvu á árunum 1991 til 2006.

Eftir 9 umferðir er Moldóva í neðsta sæti, með 3 stig eftir 1 sigur og 8 töp. Moldóva náði bara í sigur gegn Andorra, þegar liðin mættust í Moldóvu þann 8. júní. Varnarmaðurinn Igor Arma? skoraði eina markið í þeim leik.

Embed from Getty Images

Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 40. sæti listans, með 1460 stig.

Gengi í síðustu 10 leikjum: J S T S S S T T S J
Markatala í síðustu 10 leikjum: 12-10

Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén.
Landsliðsfyrirliði: Aron er enn maðurinn með bandið en Gylfi Þór Sigurðsson stendur sig ávallt vel sem fyrirliði þegar á reynir.

Leikjahæstur: Rúnar Kristinsson missir ekki leikjametið sitt á þessu ári en það gæti mögulega gerst á næsta ári, síðasta lagi 2021. Hann á alltaf sína 104 A-landsleiki en Ragnar Sigurðsson er líklegastur til að toppa það.

Embed from Getty Images

Markahæstur: Kolli mark, du du du du du du. Kolli mark, du du du du du du. Kolli mark, du du du du du du. Kolli mark! Allir að taka undir, Kolli mark við Baby Shark lagið. Þetta svínvirkar.

Þannig fór um þessa undankeppni. Í sjálfu sér eru úrslitin búin að vera fín, fyrir utan eitt leiðinlegt tap úti gegn Albaníu og kannski óþarflega stór töp gegn Frökkum. Tyrkirnir náðu einhvern veginn í fjögur stig gegn Frökkum og það skilaði þeim áfram, þótt þeir næðu bara í 1 stig gegn okkur.

En það er bara að horfa áfram veginn, við fáum umspilsleiki í mars og eigum enn séns á að komast á annað stórmót. Áfram Ísland!


Fyrri viðureignir

Ef við skoðum alla landsleiki, upp alla aldursflokka, bæði í karla- og kvennaflokki á milli þessara þjóða þá hafa þær mæst 13 sinnum til þessa. Ísland hefur sigrað 11 sinnum, 2 leikir hafa endað með jafntefli en Moldóva hefur aldrei sigrað. Íslensku liðin hafa samtals skorað 38 mörk gegn 5 mörkum Moldóvu.


Dómarahornið

Dómari leiksins heitir Pavel Královec og kemur frá bænum Domažlice í vesturhluta Tékklands. Hann hélt upp á 42 ára afmælið sitt um miðjan ágústmánuð. Královec varð alþjóðlegur FIFA-dómari árið 2005 og hefur dæmt marga leiki síðan þá. Hann þykir fremsti dómari Tékklands. Áhugaverð staðreynd um Královec er að hann var fyrsti dómarinn í Tékklandi til að nota dómaraspreyið vinsæla til að merkja staðsetningu aukaspyrnu og varnarveggs. Það gerði hann 26. september 2014, í deildarleik milli FK Teplice og 1. FC Slovácko.

Aðstoðardómarar í þessum leik verða Ivo Nadvornik og Tomáš Mokrusch, fjórði dómarinn verður Miroslav Zelinka. Þeir eru allir sömuleiðis frá Tékklandi.


Áfram Ísland!