Leikdagur: Ísland – Tyrkland

Við fengum góðan sigur í fyrsta heimaleik Íslands í þessari undankeppni, töfrabrögð frá Jóhanni Berg og þéttur varnarleikur tryggðu þessi mikilvægu þrjú stig og það er vonandi að strákarnir nái upp sömu baráttu og sama varnarleik í næsta leik. Andstæðingarnir þar koma með mikið sjálfstraust inn í leikinn eftir virkilega öflugan sigur á heimsmeisturunum. Þetta verður rosaleg barátta!

A-landslið karla,
undankeppnin fyrir EM 2020.
Fjórða umferð í H-riðli.
Þriðjudagurinn 11. júní 2019,
klukkan 18:45.

Ísland – Tyrkland

Völlur: Laugardalsvöllur. Það var því miður ekki alveg uppselt síðast en það verður vonandi pakkfullt á þessum leik. Strákarnir eiga það skilið.

Dómari: Szymon Marciniak frá Póllandi.


Dagskrá og veður

Þar sem þessi leikur er á gáfulegri og skemmtilegr leiktíma en þessi á laugardaginn þá verður hefðbundnari leikdagsdagskrá en var fyrir síðasta leik. Við byrjum að sjálfsögðu á BK á Grensásveginum. Þar verður hægt að mæta í vængi og með því frá klukkan 14:30, ókeypis fyrir öll sem mæta í landsliðs- eða Tólfuklæðum.

Sportbarinn Ölver í Glæsibæ er félagsheimili Tólfunnar og nauðsynlegur hluti af lífinu og fótboltanum. Þangað ætlum við að mæta klukkan 16:00 og hita almennilega upp fyrir leikinn. Freysi aðstoðarlandsliðsþjálfari mætir svo þangað með sinni töflufund og við munum hita raddböndin í göngunum að vanda.

Síðan er planið að halda í hefðbundna Tólfuskrúðgöngu niður á Laugardalsvöllinn og vera mætt í stúkuna tímanlega fyrir þjóðsöng og hvatningaróp allt frá fyrstu mínútu leiks.

Veðurspáin er bara fín. Að vísu spáir alskýjuðu en það á samt að hanga þurrt og hitinn verður um 11 gráður. Þá verður sáralítill vindur, bara rétt 2 m/s af norðanátt. Fínt júníkvöld í Reykjavík framundan.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 40. sæti, einu sæti neðar en Tyrkland.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T J T T J J J S T S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 10-17

Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén.
Landsliðsfyrirliði: Aron Einar Gunnarsson.

Embed from Getty Images

Leikjahæstur: Rúnar Kristins er enn leikjahæstur. Sá leikjahæsti í leikmannahópi undanfarið hefur verið Birkir Már Sævarsson en hann var ekki einu sinni í hóp í síðasta leik sem gaf þeim sem spiluðu leikinn tækifæri til að nálgast hann um einn leik. Raggi Sig er t.d. núna búinn að spila 87 landsleiki og ef hann spilar gegn Tyrkjum, sem verður að teljast líklegt, þá jafnar hann landleikjafjölda Eiðs Smára Guðjohnsen sem nú situr í 4. sætinu.

Markahæstur: Talandi um Eið Smára, hann er ennþá markahæstur. Kolbeinn Sigþórsson kom inn á gegn Albaníu og náði næstum því að skora en hann vantar enn 3 mörk upp á að ná Eiði Smára. Hann mætti endilega komast nær því í þessum leik.

Ísland komst með sigrinum í síðasta leik upp í 3. sæti riðilsins og er þar með 6 stig rétt eins og Frakkar.


Tyrkland

Staða á styrkleikalista FIFA: 39. sæti, fóru upp um 2 sæti frá síðasta lista og þar með uppfyrir okkur.

Gengi í síðustu 10 leikjum: S J T T J S S S S S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 15-6

Landsliðsþjálfari: ?enol Güne?, hann stýrði Tyrklandi fyrst á árunum 2000 til 2004 og tók svo aftur við liðinu fyrir þessa undankeppni.
Landsliðsfyrirliði: Mehmet Topal. Þessi 33 ára gamli varnarsinnaði miðjumaður spilar fyrir Fenerbahçe í heimalandi sínu. Topal er þó ekki í leikmannahópnum að þessu sinni og er því fastlega búist við því að Emre Belözo?lu beri fyrirliðabandið. Sá er mikill reynslubolti, hefur verið í landsliðinu frá 2000 og spilaði í síðasta leik sinn 100. landsleik. Hann tilkynnti fyrir nýafstaðið tímabil að það yrði hans síðasta en hefur þó lofað Fenerbahçe að mæta á fund til félagsins eftir þetta landsliðsverkefni, hann útilokar ekki að taka eitt tímabil í viðbót með Fener, sem yrði þá í þriðja skipti sem hann færi til félagsins.

Leikjahæstur: Markvörðurinn skrautlegi, Rü?tü Reçber, er leikjahæstur í sögu tyrkneska landsliðsins. Hann spilaði 120 landsleiki á árunum 1994-2012.

Markahæstur: Markamaskínan Hakan ?ükür er auðvitað markahæstur frá upphafi, hann skoraði 51 mark í 112 landsleikjum fyrir Tyrkland á árunum 1992 til 2007.

Tyrkland hefur nokkrum sinnum komist á lokamót stórmóta án þess þó að hafa nokkurn tímann náð fastri áskrift að lokamótunum. Bestum árangri á EM náði liðið árið 2008 þegar það fór alla leið í undanúrslit þar sem það tapaði 2-3 gegn Þýskalandi eftir að hafa náð forystu í leiknum.

Embed from Getty Images

Tyrkirnir hafa byrjað þessa undankeppni afskaplega vel. Það kom inn í undankeppninna með slakan árangur í Þjóðadeildinni á bakinu, endaði þá í neðsta sæti síns riðils í B-deildinni með 3 stig. En það var ekki að sjá að sjálfstraust vantaði í liðið í fyrstu þremur leikjum þessarar undankeppni. Tyrkland byrjaði á að vinna Albaníu á útivelli, 0-2. Vann svo Moldóvu á heimavelli 4-0 áður en liðið skellti heimsmeisturum Frakka í Tyrklandi í síðustu umfer með 2 mörkum gegn engu.

Tyrkland er því efst í H-riðli eftir þrjár umferðir með 9 stig og markatöluna 8-0.

Markahæstu leikmenn liðsins til þessa eru Kaan Ayhan, leikmaður Fortuna Düsseldorf og Evertonmaðurinn Cenk Tosun en þeir hafa báðir skorað 2 mörk.


Fyrri viðureignir

Ísland og Tyrkland hafa 11 sinnum mæst áður á fótboltavellinum. Fyrstu viðureignirnar voru í undankeppni fyrir HM 1982 en þetta er þriðja stórmótið í röð þar sem Ísland og Tyrkland dragast saman í riðla í undankeppninni.

Ísland hefur oftar haft betur, sjö sinnum hafa leikar endað með íslenskum sigri. 2 leikir hafa endað með jafntefli en 2 með tyrkneskum sigri. Ísland hefur skorað 21 mark í þessum 11 leikjum en Tyrkland 10.

Þjóðirnar hafa sex sinnum áður mæst á Laugardalsvellinum. Fyrsti leikurinn af þeim var spilaður í september 1981. Sá leikur endaði með 2-0 sigri Íslands þar sem Lárus Þór Guðmundsson og Atli Eðvaldsson skoruðu mörk Íslands. Í september 1989 skoraði Pétur Pétursson bæði mörk Íslands í 2-1 sigri.

Árið 1991 var komið að Arnóri Guðjohnsen. Eftir að Sigurður Örn Grétarsson hafði skoraði fyrsta mark Íslands í vináttuleik gegn Tyrkjum skoraði Arnór næstu fjögur og tryggði Íslandi 5-1 sigur í eina vináttuleik þessara tveggja liða. Í október 1995 voru um 3.000 áhorfendur mættir í Laugardalinn til að fylgjast með markalausu jafntefli Íslands og Tyrklands í undankeppni EM 1996.

Það voru þó töluvert fleiri sem mættu á völlinn í september 2014, þá sáu tæplega 9.000 áhorfendur Ísland eiga frábæran leik gegn Tyrkjum og vinna mjög sanngjarnan 3-0 sigur. Jón Daði, Gylfi Þór og Kolbeinn sáu þá um að skora mörkin. Í síðasta leik liðanna á Laugardalsvelli voru það svo Theodór Elmar og Alfreð Finnbogason sem skoruðu í 2-0 sigri.

Á Laugardalsvellinum er árangur Íslands gegn Tyrkjum mjög góður. 5 sigrar og 1 jafntefli, markatalan 14-2.


Dómarahornið

Ef ykkur finnst nafnið Szymon Marciniak kunnuglegt þá er það líklega af því þetta er sá sami dómari og dæmdi leik Íslands gegn Austurríki á EM í Frakklandi árið 2016. Sá leikur var nú heldur betur eftirminnilegur.

Embed from Getty Images

Ekki nóg með það heldur dæmdi vinur okkar Szymon líka leik Ísland gegn Argentínu á lokamóti HM í Rússlandi á síðasta ári. Önnur eftirminnileg viðureign.

Og það er ekki eins og því sé lokið þarna, Szymon hefur líka dæmt leik milli þessara þjóða áður. Hann var á flautunni í Eski?ehir í október 2017 þegar Ísland vann frábæran útisigur á Tyrklandi með 3 mörkum gegn engu. Sannkallaður Íslandsvinur, hann Szymon Marciniak.

Með Szymoni í þetta skiptið verða þeir Pawe? Sokolnicki og Tomasz Listkiewicz með flöggin en Tomasz Musia? verður fjórði dómari. Þeir eru allir frá Póllandi.


Áfram Ísland!