Leikdagur: Ísland – Sviss

Eftir frábæra frammistöðu í fyrsta leik og svekkjandi tap í lokin ætti íslenska liðið að mæta rækilega peppað í leik númer tvö. Mótherjinn í þessum leik er Sviss, sem einnig tapaði sínum fyrsta leik á mótinu. Það er mikið undir hjá báðum liðum og þetta ætti því að geta orðið spennandi viðureign.

Evrópukeppni kvenna í knattspyrnu í Hollandi,
laugardaginn 22. júlí 2017,
klukkan 16:00 að íslenskum tíma, 18:00 í Hollandi.

Ísland – Sviss

2. umferð í C-riðli

Völlur: Stadion De Vijverberg í Doetinchem. Völlurinn tekur 12.600 áhorfendur.
Hér er upphitunarpistill um Stadion De Vijverberg völlinn.
Hér er upphitunarpistill um Doetinchem.

Dómari: Anastasia Pustovoitova, rússnesk.
Aðstoðardómarar: Ekaterina Kurochkina, rússnesk, og Svetlana Bili?, serbnesk.
Fjórði dómari: Lorraine Clark, skosk.

Anastasia Pustovoitova fæddist 10. febrúar 1981. Hún hóf sinn feril í knattspyrnunni sem leikmaður og náði fínum árangri þar, var m.a. hluti af landsliðshóp Rússa sem tók þátt í EM 2001 og HM 2003. Þá spilaði hún í vörninni.

En hún ákvað að hætta að spila fótbolta og taka þess í stað upp dómaraflautuna. Hún náði fljótt að koma sér í fremstu röð, var til dæmis kosin besti kvendómari Rússlands árið 2010 og var fljótlega komin með alþjóðleg dómararéttindi og farin að dæma landsleiki. Árið 2010 dæmdi hún úrslitaleikinn í EM U-17 og árið 2012 varð hún fyrsta rússneska konan til að dæma leik í karlafótbolta þegar hún dæmdi leik varaliða nágrannaliðanna CSKA Moscow og Lokomotiv Moscow.

Pustovoitova hefur einu sinni dæmt leik hjá A-landsliði Íslands áður. Það var í undankeppni HM 2015, þá dæmdi hún útileik gegn Serbíu 31. október 2013. Ísland vann þann leik 2-1 með mörkum frá Margréti Láru Viðarsdóttur og Katrínu Ómarsdóttur.

Veðurspáin á leikdegi

Það er spáð ljómandi fínu veðri í Doetinchem á leikdegi. Það stefnir í léttskýjað og 22-26 stiga hita fram eftir deginum. Yfir leiknum sjálfum þá er spáð 22-24 stiga hita, léttskýjuðu og suðvestan 2 metrum á sekúndu. Það stefnir í bongó!

Upphitanir í Hollandi og Reykjavík

Íslenskt stuðningsfólk eignaði sér Tilburg fyrir síðasta leik og nú er komið að því að bláa hafið fylli Doetinchem. Það verður fanzone á svæðinu, að þessu sinni verður það staðsett á Ijsselkade sem er við ána Ijssel og alls ekki langt frá Stadion De Vijverberg.

Stuðningsmannasvæðið opnar klukkan 12 og verður opið til 22. Þar verður afþreying fyrir alla fjölskylduna. Þar verða fulltrúar frá KSÍ að selja miða á leikinn og þar verður einnig hægt að kaupa alls konar stuðningsmannavarning til að merkja sig liðinu okkar.

Sem fyrr verður EM torgið góða í gangi á Ingólfstorgi. Það viðraði ekki vel á torgfara í síðasta leik en þó var hópur sem lét veðrið ekki á sig fá og mætti í partýið. Okkar besta heimildarmanneskja hjá Veðurstofu Íslands þorði nánast að lofa því að hann myndi hanga þurr yfir leiknum á morgun, jafnvel að við gætum fengið sól. Í það minnsta á að vera hlýtt og ekki rok, bara þetta 5-6 m/s suðaustanátt. Þarna ætti að geta myndast hörku stemning! Greta Salóme ætlar að syngja og það verður andlitsmálning á staðnum. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 15:30 en það má alveg mæta fyrr.

Ísland

Ísland er mætt á EM, það er bara þannig.

Íslenska landsliðið

Landsliðsþjálfari: Freyr Alexandersson
Landsliðsfyrirliði: Sara Björk Gunnarsdóttir
Leikjahæst frá upphafi: Katrín Jónsdóttir, 132 leikir
Markahæst frá upphafi: Margrét Lára Viðarsdóttir, 77 mörk
Leikjahæst í EM-hópnum: Hólmfríður Magnúsdóttir, 110 leikir
Markahæst í EM-hópnum: Hólmfríður Magnúsdóttir, 37 mörk

Staða á styrkleikalista FIFA: 19. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: S J T J S S T J T T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 6-10

Þetta lið sem við eigum! Það stóð sig frábærlega vel gegn Frökkum í fyrsta leiknum. Það var ekki að sjá að annað liðið væri af mörgum sparkspekingum spáð Evróputitlinum á meðan hitt liðið er 16 sætum neðar á styrkleikalista FIFA. Í þessum leik var ekkert á milli liðanna nema tvær dómaraákvarðanir. Vörnin hjá íslenska liðinu í þessum leik var gjörsamlega frábær. Á löngum köflum hafði franska liðið engin svör önnur en að reyna bjartsýnis- og örvæntingarlangskot sem ollu hvorki vörn né markmanni neinum vandræðum. Skipulagið var flott, taktíkin var vel upp sett og stelpurnar lögðu alla vinnuna á sig sem þurfti til að eiga allavega eitt stig skilið úr þessum leik. Fyrir okkur stuðningsfólkið er alveg óhætt að vera bjartsýn á framhaldið, bæði í þessu móti en ekki síður á hvert þetta landslið getur náð á næstu árum. Virkilega flottir einstaklingar í þessu liði sem mynda stórkostlega liðsheild.

Nú er allt öðruvísi leikur framundan. Leikur gegn liði sem á að vera töluvert lakara en það franska en hefur þó reynst íslenska liðinu erfiðir andstæðingar á síðustu árum. Bæði lið þurfa sigur í þessum leik. Það býður upp á áhugaverða viðureign. Sviss er ekki eins vel mannað af einstaklingum og Frakkland en það hefur samt sínar hættur sem íslenska liðið þarf að varast.

Vörnin hjá Íslandi þarf að vera í toppstandi eins og gegn Frökkum. Það er ekki amalegt að hafa spilað þessum frábæru miðvörðum gegn Frökkum og vita það að á hliðarlínunni höfum við Önnu Björk Kristjánsdóttur tilbúna, sem spilaði 7 leiki af 8 í hjarta varnarinnar í undankeppninni og átti stóran þátt í góðum varnarleik íslenska liðsins þar. Það nákvæmlega sama á við um fleiri stöður á vellinum, alls staðar sjáum við frábæra karaktera í byrjunarliðinu og líka flotta karaktera og leikmenn sem eru tilbúnir að koma inn af bekknum og taka þátt í þessu af fullum krafti og öllu hjarta. Svo ekki sé minnst á allt starfið sem þjálfarateymið hefur lagt að baki til að gera undirbúning liðsins sem bestan. Þetta er svo glimrandi flott starf í alla staði.

En við erum ekkert södd bara á því að allir þátttakendur séu duglegir. Metnaður okkar allra; leikmanna, þjálfarateymis og stuðningsfólks, liggur hærra en það. Við ætlum að ná árangri, skila úrslitum, skapa fallegar minningar, skilja allt eftir í Hollandi.

Sviss

Hér má sjá upphitunarpistil um þetta hlutlausa land.

Svissneska landsliðið

Landsliðsþjálfari: Martina Voss-Tecklenburg
Landsliðsfyrirliði: Caroline Abbé
Leikjahæst frá upphafi: Fyrirliðinn Abbé og Martina Moser hafa báðar spilað 127 landsleiki
Markahæst frá upphafi: Ana-Maria Crnogor?evi?, 47 mörk í 90 leikjum
Leikjahæst í EM-hópnum: Abbé og Moser, 127 leikir. Lara Dickenmann hefur spilað 120 leiki.
Markahæst í EM-hópnum: Crnogor?evi?, 47 mörk. Lara Dickenmann kemur þar á eftir með 46 mörk.

Staða á styrkleikalista FIFA: 17. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: S T T J S S S T T T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 16-18

Sviss var eitt af sex liðum í undankeppninni sem tapaði ekki leik. Ekki nóg með það heldur var Sviss ein af aðeins fjórum þjóðum sem vann alla sína leiki í undankeppninni. Sviss var í 6. riðli undankeppninnar, ásamt Ítalíu, Tékklandi, Norður-Írlandi og Georgíu. Í sínum 8 sigurleikjum skoraði Sviss 34 mörk (jafn mörg og Ísland) og fékk á sig 3 mörk (einu fleira en Ísland).

Markahæsti leikmaður Sviss í undankeppninni var Ana-Maria Crnogor?evi?. Hún var einn 5 leikmanna Sviss sem tók einhvern þátt í öllum 8 leikjunum í undankeppninni og hún skoraði í þeim 7 mörk. Hún er að upplagi sóknarmaður en virðist helst vera notuð sem hægri bakvörður hjá þessu svissneska landsliði. Það kemur þó ekki í veg fyrir að hún geti skorað mörk, hvort sem er úr vítum eða opnum leik.

Framherjinn Fabienne Humm kom næst á eftir henni, með 6 mörk í 8 leikjum. Þar á eftir kom svo Ramona Bachman, með 4 mörk í 7 leikjum. Þetta eru stórhættulegir leikmenn sem verður að hafa góðar gætur á í leiknum.

Crnogor?evi? er ekki bara góð í að skora mörk, hún er líka öflugasti leikmaður Sviss þegar kemur að því að leggja upp mörk fyrir aðra. Stoðsendingahæsti leikmaður undankeppninnar fyrir Sviss, með 7 stoðsendingar. Aðeins einn leikmaður í allri undankeppninni var með fleiri stoðsendingar en það (Tessa Wullaert hjá Belgíu, með 9 stoðsendingar í 8 leikjum). Bachman og Dickenmann eru kannski þekktustu nöfnin sem ber að varast, af góðri ástæðu, en það er algjörlega krúsjal að stoppa Crnogor?evi?. Í raun þarf íslenska liðið bara að ná upp fanta varnarleik aftur í alla staði.

Sviss náði hins vegar ekki að skora í leik sínum í fyrstu umferð, gegn nágrönnunum í Austurríki. Austurríki náði hins vegar að skora eina mark leiksins og vinna þann leik. Það var nokkuð gegn því sem flestir bjuggust við fyrirfram. Ekki nóg með að Sviss hafi tapað leiknum heldur missti liðið báða miðverði sína útaf í leiknum. Annars vegar þurfti fyrirliðinn, og annar af leikjahæstu leikmönnum liðsins, Caroline Abbé að yfirgefa völlinn eftir að hafa meiðst fyrr í leiknum. Hins vegar fékk svo Rahel Kiwic klaufalegt rautt spjald stuttu eftir að Abbé fór af velli. Þetta voru aðal miðverðir liðsins í undankeppninni, spiluðu 8 og 7 leiki þar. Abbé nær líklega leiknum gegn Íslandi samt en Kiwic verður í banni.

Fyrri viðureignir

A-landslið Íslands og Sviss í kvennafótbolta hafa mæst 7 sinnum áður og mættust þau síðast í mars árið 2015.

Fyrstu fjórir leikir liðanna voru vináttuleikir sem fóru fram á árunum 1985 og 1986. Liðin spiluðu tvo leiki í Sviss, 17. og 19. ágúst 1985, og svo tvo leiki á Íslandi, 21. og 23. ágúst 1986. Allt voru þetta vináttuleikir.

Fyrsti leikurinn fór fram í smábænum Sins, í kantónunni Aargau í norðurhluta Sviss, laugardaginn 17. ágúst 1985. Leikurinn var hápunktur á íþróttahátíð sem haldin var í bænum þessa vikuna og einnig notaður til að vígja glænýjan fótboltavöll á svæðinu. Af þeim ástæðum mættu 1.500 áhorfendur á völlinn, þrátt fyrir að skv. frétt Morgunblaðsins frá þeim tíma þá byggju bara um 1.900 manns í Sins. Allir þessir áhorfendur sáu ljómandi fínan leik hjá íslenska liðinu sem gerði 3-3 jafntefli við heimaliðið. Ásta María Reynisdóttir skoraði fyrstu tvö mörk Íslands og Ásta B. Gunnlaugsdóttir það þriðja.

Annar leikurinn fór fram tveimur dögum seinna, í Dietikon sem er fimmta stærsta borgin í Zürich kantónunni. Aðstæður voru ekkert sérstaklega góðar í þeim leik, þrumur og eldingar á meðan leik stóð og völlurinn þungur og erfiður. Ísland spilaði á sínu sterkasta liði aftur á meðan Sviss spilaði á sínu B-liði. Þrátt fyrir leiðindarveður var töluvert um áhorfendur á vellinum. Erla Rafnsdóttir kom Íslandi yfir í fyrri hálfleik en Sviss jafnaði fyrir leikhlé. Ragna Lóa Stefánsdóttir kom Íslandi aftur yfir í síðari hálfleik en aftur jöfnuðu þær svissnesku. Ragnheiður Jónasdóttir tryggði hins vegar Íslandi sigur með marki rétt fyrir leikslok, 3-2 lokastaðan.

Sumarið eftir kom Sviss í heimsókn í ágúst. Aftur voru spilaðir tveir leikir með stuttu millibili. Fyrri leikurinn fór fram á Valbjarnarvellinum 21. ágúst 1986. Svissneska liðið var sterkara til að byrja með og komst í 2-0. Kristín Arnþórsdóttir minnkaði muninn hins vegar fyrir leikhlé eftir góða stungusendingu frá Erlu Rafnsdóttur. Íslenska liðið hafði undirtökin það sem eftir lifði og var óheppið að bæta ekki við mörkum. Þess í stað náði Sviss að nýta færi sem það fékk eftir klukkutíma leik og lokastaðan í leiknum var 3-1.

Seinni leikurinn fór svo fram á Akranesvellinum tveimur dögum seinna. Það var jafn leikur, skv. blöðunum þóttu þær svissnesku flinkari og með betri knatttækni en íslenska liðið var í mun meiri baráttugír. Það dugði til heimasigurs, Kristín Arnþórsdóttir skoraði aftur eina mark Íslands en í þetta skiptið var það líka eina mark leiksins, 1-0 sigur fyrir Ísland staðreynd.

Það var rúmlega 27 ára bið eftir næsta leik milli þessara liða. Í undankeppninni fyrir HM 2015 í Kanada lentu Ísland og Sviss saman í undanriðli ásamt Danmörku, Ísrael, Serbíu og Möltu. Fyrri leikur liðanna í undankeppninni var í fyrstu umferðinni, 26. september 2013 á Laugardalsvellinum. Sviss vann þann leik 2-0. Seinni leikurinn fór svo fram á Colovray Stadium í Nyon þann 8. maí 2014. Sá leikur endaði 3-0 fyrir Sviss. Sviss endaði líka í efsta sæti riðilsins og fór til Kanada en Ísland þurfti að láta sér 2. sætið nægja. Sviss átti mjög sterka undankeppni þarna, vann 9 leiki af 10 og gerði 1 jafntefli. Skoraði 53 mörk og fékk aðeins 1 á sig. Ísland vann á meðan 6 leiki, gerði 1 jafntefli og tapaði 3 leikjum, samanlögð markatalan í þessum 10 leikjum var 29-9.

Síðast áttust þessi lið svo við á Algarve mótinu í Portúgal árið 2015. Þau lentu þar í B-riðli, ásamt Bandaríkjunum og Noregi. Ísland mætti Sviss í fyrsta leik og endaði sá leikur 2-0 fyrir Sviss. Í raun vináttuleikur og verið að prófa ýmislegt.

Í þessum 7 leikjum sem liðin hafa spilað þá hefur Ísland unnið 2 leiki, Sviss unnið 4 og 1 endað með jafntefli. Markatalan í þessum 7 leikjum er 15-8 fyrir Sviss.

Peppið

Til að byrja með er líklega ágætt að rifja upp og fara yfir helstu atriðin í víkingaklappinu™ svo allt stuðningsfólk, sama hvar það er, geti verið með það á hreinu:

Svona viljum við hafa þetta, nema bara enn meira af því sama:

Áfram Ísland!