Leikdagur: Ísland – Sviss

Það eru skiptar skoðanir á Þjóðadeild Evrópu. Sumum finnst þessi keppni algjör óþarfi, tilgangslaus og bara til þess fallin að skapa óþarflega mikið álag á knattspyrnumenn á meðan aðrir sjá möguleikann í að þetta verði alvöru keppni sem gaman verði að vinna. Við verðum að sjá til hvernig þróunin verður á keppninni en hér erum við núna og það er komið að þriðja leik Íslands í keppninni. Fyrri tveir enduðu ekki vel svo það er í það minnsta tilefni fyrir leikmenn og stuðningsfólk að gera betur, sýna að við viljum halda áfram að ná góðum árangri inni á vellinum og í stúkunni. Komaso!

A-landslið karla,
Þjóðadeild UEFA.
Þriðji leikur Íslands í 2. riðli í A-deild.
Mánudagurinn 15. október 2018,
klukkan 18:45.

Ísland – Sviss

Völlur: Laugardalsvöllur

Hann tekur alveg 9.800 manns. Liðið á skilið að fá góða mætingu og góðan stuðning. Við vitum að það er dýrt að fara á þessa leiki, sérstaklega miðað við að ekki er um undankeppni stórmóts að ræða. En við vonum að sem flest ykkar sjáið sér fært að mæta og að þau ykkar sem mætið takið þátt í að styðja liðið og hvetja það áfram. Látum heyra í okkur og peppum liðið.

Dómari: Andreas Ekberg, frá Svíþjóð.

Veðurspá:

Það verður ekki mjög heitt á meðan leik stendur, spáin segir 4-5 gráður. En það ætti ekki að rigna mikið. Það verður skýjað og mögulega einhverjir dropar. Hins vegar verður ekki mikill vindur, bara 2-4 m/s af suð-austanátt.


Dagskráin

Klassísk dagskrá. Vængir á BK klukkan 15. Ölver klukkan 16. Töflufundur, ganga niður á fanzone, stúkan, þjóðlögin sungin og svo peppað yfir leiknum. Skothelt!


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 36. sæti, fellur um 4 sæti frá síðasta lista.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T T T J J T T T T J
Markatala í síðustu 10 leikjum: 9-27

Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén.
Aðstoðarlandsliðsþjálfari: Freyr Alexandersson.

Embed from Getty Images

Landsliðsfyrirliði: Aron Einar Gunnarsson.
Varafyrirliði: Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið með bandið þegar Aron hefur vantað.

Embed from Getty Images

Leikjahæstur allra tíma: Rúnar Kristinsson, 104 landsleiki.
Leikjahæstur í núverandi hópi: Birkir Már Sævarsson, 85 landsleiki.
Ragnar Sigurðsson er næstur á eftir Birki, með 83 landsleiki.

Markahæstur allra tíma: Eiður Smári Guðjohnsen, 26 landsliðsmörk.
Markahæstur í núverandi hópi: Kolbeinn Sigþórsson, 22 landsliðsmörk.
Gylfi Þór Sigurðsson fylgir á eftir honum með 20 landsliðsmörk.

Embed from Getty Images

Þjóðadeildin fór ekki vel af stað hjá okkar mönnum en liðið sýndi síðan frábæra farmmistöðu í síðasta leik, gegn sjálfum heimsmeisturunum. Þvílíkur munur sem það var að fá lykilmenn aftur inn sem vantaði í síðasta hléi og sjá betri frammistöður hjá öðrum lykilleikmönnum.

Svona frammistöðu viljum við alveg endilega sjá aftur. Við þurfum líka að standa okkur betur í stúkunni en í síðasta heimaleik. Belgarnir sem mættu til Íslands til að styðja sitt lið létu vel í sér heyra allan leikinn á meðan það sama átti ekki við um nógu marga af þeim sem fylgdu heimaliðinu. Við erum í þessu saman, leyfum strákunum inn á vellinum að finna það.


Sviss

Staða á styrkleikalista FIFA: 8. sæti, standa í stað frá síðasta lista.

Gengi í síðustu 10 leikjum: S J S J S J T S T T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 21-8

Landsliðsþjálfari: Vladimir Petkovi?.
Aðstoðarlandsliðsþjálfari: Antonio Manicone.

Embed from Getty Images

Landsliðsfyrirliði: Stephan Lichtsteiner, Arsenal.
Varafyrirliði: Lichtsteiner er ekki með Sviss í þessum leikjum, það var samkomulagsatriði milli leikmanns, landsliðs og félagsliðs að hann tæki þátt í leikjunum í september en myndi þá hvíla í þessum leikjum og leikjunum í nóvember. Fyrirliði í þessum leik verður samherji Lichtsteiner hjá Arsenal, Granit Xhaka.

Leikjahæstur allra tíma: Heinz Hermann, 118 landsleikir.
Leikjahæstur í núverandi hópi: Granit Xhaka, 77 landsleikir.

Markahæstur allra tíma: Alexander Frei, 42 landsliðsmörk.
Markahæstur í núverandi hópi: Xherdan Shaqiri, 22 landsliðsmörk.

Embed from Getty Images

Landsliðsþjálfarinn Vladimir Petkovi? tók við Sviss eftir HM 2014. Það hafði verið tilkynnt um jólin 2013 að hann myndi taka við af Ottmar Hitzfeld. Petkovi? hafði verið tæknilega flinkur miðjumaður á sínum leikmannaferli og spilað með liðum á borð við FC Sarajevo og Koper í Júgóslavíu áður en hann fluttist til Sviss og spilaði þar með liðum eins og Sion, Bellinzona, Locarno og fleirum.

Petkovi? fæddist í Sarajevo, í þáverandi Júgóslavíu, árið 1963. Hann er frá Bosníu og Hersegóvínu en líka með svissneskt vegabréf eftir að hafa búið þar og starfað í fjöldamörg ár. Knattspyrnuferlinum lauk árið 1999 en þá var hann þegar byrjaður að þjálfa og stýra liðum, hafði t.d. verið spilandi knattspyrnustjóri hjá Bellinzona tímabilið 1997-98.

Framan af þjálfaði hann mestmegnis í Sviss, fyrir utan hálft tímabil þegar hann stýrði Samsunspor í tyrknesku deildinni, með slökum árangri. Hann náði hins vegar fínum árangri í Sviss, þjálfaði þar m.a. Young Boys frá 2008-11. Hann færði sig svo yfir til Ítalíu árið 2012 og stýrði Lazio til ársins 2014. Eftir það tók hann við svissneska landsliðinu.

Hjá Lazio hitti hann fyrir þjálfarann Antonio Manicone. Manicone var líka miðjumaður á sínum leikmannaferli, spilaði þá aðallega á Ítalíu. Hann átti sinn besta tíma með Inter þar sem hann varð meðal annars UEFA Cup meistari árið 1994. Hann lagði skóna á hilluna árið 2003 og fór þá að vinna sem unglingaliðsþjálfari hjá Inter. Árið 2012 varð hann svo aðstoðarþjálfari Petkovi? hjá Lazio og fylgdi honum svo yfir í svissneska landsliðið.

Petkovi? og Manicone hafa náð fínasta árangri með Sviss. Þeir hafa stýrt liðinu í 47 leikjum. Sviss hefur unnið 27 þeirra, 9 hafa endað með jafntefli og 11 tapast. Það er 57,45% sigurhlutfall.

Sviss er nú í 2. sæti 2. riðils A-deildar í Þjóðadeildinni. Eftir 6-0 sigur í fyrsta leik fylgdi 1-2 tap gegn Belgíu í þeim næsta.


Fyrri viðureignir

Þau ykkar sem hafið áhuga á að lesa ykkur til um fyrri viðureignir þessara þjóða getið kíkt á leikdagspistilinn fyrir fyrri leik þjóðanna í Þjóðadeildinni. Þar var farið yfir þau mál. Hér er sá pistill.


Dómarahornið

Dómarateymið kemur að þessu sinni frá Svíþjóð. Andreas Ekberg er aðeins 33 ára gamall en samt eru 20 ár síðan hann byrjaði að dæma knattspyrnuleiki. Hann varð atvinnudómari 19 ára gamall, árið 2014, og var farinn að dæma leiki í næstefstu deild í Svíþjóð árið 2007. 2 árum síðar var hann kominn í efstu deildina. Hann varð svo alþjóðlegur FIFA-dómari árið 2013 og hefur dæmt 42 leiki í Evrópukeppnum á vegum UEFA.

Embed from Getty Images

Aðstoðardómarar í leiknum verða þeir Mehmut Culum og Stefan Hallberg, sprotadómarar verða Kaspar Sjöberg og Magnus Lindgren en fjórði dómarinn verður Fredrik Nilsson. Þeir eru allir frá Svíþjóð eins og Ekberg.


Áfram Ísland!

Hér er lag Þjóðardeildarinnar. Það er peppandi.

Hann Gylfi okkar er búinn að vera í rosalegu stuði síðustu vikur í enska boltanum. Hann skoraði m.a. frábært sigurmark gegn Leicester á dögunum. Hér er það frá öllum sjónarhornum. Meira svona, Gylfi!

Annar sem hefur komið sterkur inn í enska boltanum á síðustu vikum er Jóhann Berg Guðmundsson. Hann kann ýmislegt sniðugt og skemmtilegt fyrir sér í íþróttinni eins og hér má sjá.