Leikdagur: Ísland – Moldóva

Þá heldur undankeppnin fyrir EM 2020, EM alls staðar, loksins áfram. Hvílík gleði að fá nú gott landsleikjahlé með heimaleik hjá karlalandsliðinu okkar. Partý partý í Laugardalnum!

A-landslið karla,
undankeppnin fyrir EM 2020.
Fimmta umferð í H-riðli.
Laugardaginn 7. september 2020,
klukkan 16:00.

Ísland – Moldóva

Völlur: Laugardalsvöllurinn. Völlurinn sem andstæðingarnir hata að spila á, skv. Kolbeini Sigþórs. Þessi leikvangur er kannski gamall og að mörgu leyti úreltur en hefur sína kosti, eins og þeir sem hlustuðu á nýjasta þáttinn af hlaðvarpi Tólfunnar fengu að heyra. Við verðum að gera okkar til að halda áfram að gera þennan heimavöll okkar virkilega óþolandi fyrir alla gesti.

Dómari: João Pinheiro frá Portúgal.


Dagskrá, hlaðvarp og veður

 

View this post on Instagram

 

Stútfullir kælar klárir fyrir landsleikinn! #tolfan #tólfan

A post shared by Sportbarinn Ölver (@sportbarinn) on

Leikurinn hefst klukkan 16:00 en við ætlum að byrja upphitunina fyrir leik á Ölveri klukkan 12:00. Þar verður heljarinnar húllumhæ og stemningsstuð að vanda, nýir eigendur Ölvers ætla að bjóða okkur upp á einhver sniðug tilboð og reyna að gera sitt besta til að gera okkur kleift að hámarka stuðið okkar fyrir leik. Vel séð!

Það er mjög oft mikil gleði á Ölveri

Freysi mætir svo að sjálfsögðu með sinn vanalega töflufund fyrir leik. Endilega kíkið á viðburðinn okkar á Facebook til að sjá nánari tímasetningu á því. Við ætlum svo að fylkja liði niður í dalinn og mæta snemma í stúkuna. Ingó veðurguð ætlar að taka lagið fyrir þjóðsöng og við stefnum á að hjálpa honum við flutninginn áður en við tökum vel undir í þjóðsöngnum.

Þá ætlum við að minnast Atla Eðvaldssonar fyrir leik og hvetjum við því fólk enn meira til að mæta tímanlega í stúkuna því þessi knattspyrnugoðsögn á skilið allan okkar heiður.

Embed from Getty Images

Fyrr í vikunni gaf framherjinn Kolbeinn Sigþórsson sér tíma til að spjalla aðeins við Tólfuna yfir einum kaffibolla. Það var virkilega gaman að heyra hvað hann hafði að segja, ekki síst um hvaða áhrif stuðningurinn og Laugardalsvöllurinn hefur á bæði hann og liðið. Við mælum með hlustun á þetta:

Það er hægt að finna Tólfuhlaðvarpið á Spotify, iTunes og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Ætti að vera nóg að slá bara inn Tólfan í leitina.

Veðurspáin fyrir leik er mjög haustleg. Það á að vera skýjað allan daginn, með töluverðri rigningu. Hitinn verður um 13 gráður yfir leikinn en það verða 5-7 m/s af suð-suð-vestan átt. Vindur sem strákarnir okkar kunna betur á en mótherjinn.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 36. sæti, niður um eitt sæti frá fyrri lista.

Gengi í síðustu 10 leikjum: J T T J J J S T S S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 12-15

Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén
Landsliðsfyrirliði: Aron Einar Gunnarsson, leikmaður ?????? ?????? ??????? í Qatar.

Mynd: Henning Bagger hjá B.T.

Leikjahæstur: Sá leikjahæsti í sögu íslenska karlalandsliðsins, snillingurinn Rúnar Kristinsson, fagnaði fimmtugsafmæli sínu á fimmtudaginn. Það væri nú ekki amalegt fyrir hann að fá tvo góða landsliðssigra í afmælisgjöf frá þjóðinni. Hann á það bara algjörlega skilið!

Birkir Már Sævarsson verður að hinkra aðeins eftir tækifærinu til að nálgast Rúner en í millitíðinni getur Ragnar Sigurðsson gripið tækifærið til að nálgast Birki. Birkir Már er með 90 leiki og Ragnar Sigurðsson 88. Ragnar er núna með jafnmarga landsleiki og Eiður Smári, ef hann spilar gegn Moldóvu (sem við reiknum fastlega með) þá jafnar hann Hermann Hreiðarsson í þriðja sætinu.

Embed from Getty Images

Markahæstur: Eiður Smári er ennþá markahæstur, hann er með 26 mörk. En Kolbeinn Sigþórsson er allur að koma til að eigin sögn og við hlökkum til að sjá hann skora fleiri mörk. Hann vantar þrennu til að ná Eiði Smára. Gylfi Þór kemur svo þar fyrir neðan með 20 mörk. Þeir mega alveg báðir láta Eið Smára fara að svitna pínu eftir þetta landsleikjahlé.

Ísland er fyrir þennan leik í þriðja sæti H-riðils, með 9 stig eftir 3 sigra í 4 leikjum og eitt tap. Þrjú efstu liðin eru öll með sama árangur en það sem aðskilur liðin er innbyrðismarkatalan. Þar er Ísland með -3, eftir 4 marka tap gegn Frökkum og 1 marks sigur á Tyrkjum, Tyrkir með +1 eftir eins marks tap gegn okkur og tveggja marka sigur á Frökkum, og Frakkar með +2 eftir 4 marka sigur á okkur en tveggja marka tap í Tyrklandi.

Ísland hefur skorað 5 mörk í keppninni til þessa, öllu færri en liðin fyrir ofan okkur. Okkar markahæsti maður til þessa er Ragnar Sigurðsson með sín 2 mörk. Birkir Bjarna, Jóhann Berg og Viðar Örn hafa skorað hin mörkin.


Moldóva

Nafnið á landinu

Landið sem við erum að fara að mæta í þessum leik heitir, samkvæmt Málfarsbanka Árnastofnunar, Moldóva. Það nafn tók landið upp þegar það lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991. Nafnið kemur frá ánni Moldóvu sem rennur um Rúmeníu. Það kann að hljóma heldur undarlega að Moldóva heiti eftir á sem rennur í öðru landi en það má þó rekja til þess að á árunum 1346 til 1859 var á þessu svæði sjálfstætt land sem hét Furstaríkið Moldavía. Það náði yfir alla núverandi Moldóvu, hluta af Rúmeníu (m.a. þann hluta sem áin Moldóva rennur um) og hluta sem nú tilheyra Úkraínu.

Það er því ekki alveg nógu nákvæmt að tala um Moldavíu í nútímanum, réttara að segja Moldóva. En það eru þó margir hér á landi sem kjósa að nota Moldavíunafnið frekar.

Núverandi Moldóva og hvernig gamla Moldavía lá.

Staða á styrkleikalista FIFA: 171. sæti, niður um eitt sæti frá síðasta lista.
Moldóvar hafa að meðaltali verið í 117. sæti á FIFA-listanum frá því þeir duttu fyrst inn á hann, árið 1994. Hæst náð þeir í 37. sæti árið 2008 en mestu lægðinni til þessa náðu þeir á síðasta ári þegar þeir voru um tíma í 175. sæti listans.

Gengi í síðustu 10 leikjum: J S J S J T T T S T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 6-12

Landsliðsþjálfari: Semen Yosypovych Altman, eða ????? ????????? ???????. Tók við liðinu í sumar.
Landsliðsfyrirliði: Alexandru Epureanu, leikmaður ?stanbul Ba?ak?ehir í Tyrklandi. Hann spilar þar sem miðvörður.

Embed from Getty Images

Leikjahæstur: Áðurnefndur Epureanu er ekki bara fyrirliði heldur líka leikjahæstur í sögu moldóvska landsliðsins. Hann hefur spilað 91 A-landsleik á ferlinum. Sá fyrsti þeirra kom árið 2006. Hann líka sjötti markahæstur í sögu liðsins, með 6 mörk.

Markahæstur: Markahæstur í sögu Moldóva er hins vegar Serghei Cle?cenco, núverandi aðstoðarknattspyrnustjóri hjá FC Rostov. Hann spilaði 69 A-landsleiki fyrir Moldóvu á árunum 1991 til 2006 og skoraði í þeim heil 11 landsliðsmörk.

Embed from Getty Images

Fyrir þessa umferð er Moldóva í 5. sæti í H-riðlinum, með 3 stig. Þeir byrjuðu á að steinliggja á heimavelli fyrir heimsmeisturum Frakka, 1-4 var lokastaðan í þeim leik. Í kjölfarið tók við ferðalag til Tyrklands þar sem liðið steinlá aftur, í þetta skipti enduðu leikar 4-0 fyrir heimamenn.

Í síðasta glugga byrjaði Moldóva á að landa heimasigri gegn Andorra, 1-0 voru lokatölur í þeim leik. Sú gleði var hins vegar skammvinn því þremur dögum seinna tapaði liðið á útivelli gegn Albaníu, 2-0.

Embed from Getty Images

Moldóva hefur aðeins náð að skora 2 mörk í keppninni, bæði þeirra komu á heimavelli. Á móti hafa þeir fengið á sig 10 mörk, þar af 6 þeirra í tveimur útileikjum.


Fyrri viðureignir

A-landslið þessara þjóða hafa aldrei áður mæst á fótboltavellinum, svo þetta er söguleg stund.

Hins vegar hafa yngri landslið, bæði karla og kvenna, mæst nokkrum sinnum. Strákarnir í U15-, U17- og U19-landsliðunum hafa samtals mæst 8 sinnum frá 1995 til janúar á þessu ári. Ísland hefur unnið 6 af þessum leikjum en tveir hafa endað með jafntefli. Moldóvar hafa ekki enn náð að sigra leik gegn Íslandi og við viljum endilega halda því þannig.


Dómarahornið

João Pinheiro er nafn á sveitarfélagi í Minas Gerais fylki í austurhluta Brasilíu. Það er líka nafnið á portúgölskum dómara þessa leiks. Hvort þetta tvennt tengist einhvern veginn veit ég ekki en mér þykir það þó mjög ólíklegt.

Dómarinn Pinheiro fæddist fjórða janúar 1988 í Vila Nova de Famalicão sem er í Bragahéraði í norðurhluta Portúgal. Hann dæmir í efstu deild í Portúgal og hefur verið alþjóðlegur FIFA-dómari síðan 2016.

Embed from Getty Images

Pinheiro hefur dæmt 23 Evrópuleiki á vegum UEFA til þessa. Hann hefur tvisvar dæmt leiki hjá U19-landsliði Moldóvu, í bæði skiptin tapaði Moldóva stórt án þess að ná að skora.

Hann dæmdi líka leik Maribor og Vals í undankeppni Meistaradeildarinnar fyrr í sumar. Sá leikur endaði 2-0 fyrir heimamenn í Maribor.

Með Pinheiro í þessum leik verða Bruno Rodrigues og Alvaro Mesquita með flöggin, Jorge Sousa verður fjórði dómari. Allir eru þeir frá Portúgal.


Áfram Ísland!

Embed from Getty Images