Leikdagur: Ísland – Frakkland

Loksins, loksins er komið að stóru stundinni. Spennan hefur verið að byggjast upp, hægt og rólega til að byrja með en svo gríðarlega mikið síðustu daga og vikur. Fjölmiðlaumfjöllun hefur verið verulega flott og metnaðarfull, fyrirtæki eru að styðja vel við bakið á landsliðinu og þessu móti með auglýsingum og maður finnur það á spjalli í samfélaginu að fólk er búið að vera að keyra sig í gírinn. Í dag byrjar EM hátíðin hjá íslenska liðinu. Fyrsti leikurinn á EM, let’s go!

Evrópukeppni kvenna í knattspyrnu í Hollandi,
þriðjudaginn 18. júlí 2017,
klukkan 18:45 að íslenskum tíma, 20:45 í Hollandi

Ísland – Frakkland

í C-riðli.

Völlur: Koning Willem II Stadion í Tilburg. Völlurinn tekur 14.637 áhorfendur.
Hér er upphitunarpistill um Koning Willem II Stadion völlinn.
Hér er upphitunarpistill um borgina Tilburg.

Dómari: Carina Vitulano, ítölsk.
Aðstoðardómarar: Lucia Abruzzese, ítölsk, og Svetlana Bili?, serbnesk.
4. dómari: Kateryna Monzul, úkraínsk.

Carina Vitulano fæddist 22. júlí 1975 í Buenos Aires í Argentínu. Faðir hennar var knattspyrnumaðurinn Miguel Vitulano. Miguel fæddist á Ítalíu en ólst upp í Argentínu. Hann sneri hins vegar aftur til Ítalíu til að spila knattspyrnu með Livorno og þar ólst Carina upp ásamt þremur systrum sínum.

Carina Vitulano hefur verið dómari síðan árið 1993. Árið 2002 varð hún ein af fjórum kvenkyns dómurum sem hóf að dæma í serie D í karlafótboltanum á Ítalíu. Hún hefur verið alþjóðlegur FIFA dómari síðan 2005 og dæmt á Evrópumótum félagsliða auk stórmóta hjá landsliðum síðan þá.

Vitulano hefur einu sinni áður dæmt leik hjá íslenska landsliðinu. Það var í undankeppninni fyrir EM 2013, þegar Ísland keppti við Norður-Írland á útivelli. Sá leikur fór fram á The Oval í Belfast miðvikudaginn 26. október 2011. Ísland vann þann leik 2-0, Hólmfríður Magnúsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu mörkin.

Vitulano hefur þrisvar dæmt leiki með A-landsliði Frakklands. Frakkland vann tvo þeirra, gegn Ísrael og Spáni, en tapaði þeim síðasta, gegn Danmörku í 8-liða úrslitum á EM 2013. Það tap kom eftir vítaspyrnukeppni.

Meðfram dómgæslustörfum kláraði Vitulano verkfræðigráðu í Háskólanum í Písa og hefur frá árinu 2000 starfað fyrir vespuframleiðandann Piaggio.

Veðurspáin í Tilburg á leikdegi er góð. Það verður léttskýjað yfir daginn og hiti 23-26 gráður fram eftir degi. Sólsetur er áætlað í upphafi seinni hálfleiks (21:48 að staðartíma) en hitinn verður áfram um og yfir 20 gráður fram yfir miðnættið. Það verður gola, ca. 4 m/s austanátt. Ekki amalegt.

Upphitanir í Hollandi og Reykjavík

Við treystum á ykkur öll að halda uppi gríðarlegri stemningu fyrir leik og á meðan leik stendur, sama hvar þið eruð (ég geri ráð fyrir að þið séuð knattspyrnuáhugafólk á annað borð, fyrst þið eruð að lesa þennan pistil).

Fyrir þau ykkar sem eruð stödd í Tilburg eða nágrenni, hvað þá ef þið eruð líka á leið á leikinn sjálfan til að halda uppi stuðinu þar, þá má benda á að það er fanzone í borginni. Það verður á Pieter Vreedeplein. Þar verða ýmis konar skemmtiatriði og afþreying. Klukkan 17:30 hefst íslensk dagskrá, þar sem Glowie, Amabadama og Emmsjé Gauti koma fram áður en haldið verður í skrúðgöngu að Koning Willem II vellinum. Sjá meira á heimasíðu KSÍ.

Fyrir fólk sem verður statt á höfuðborgarsvæðinu verður EM torgið aftur á sínum stað. Líkt og í fyrra mun það verða á Ingólfstorgi til að byrja með en aðstandendur EM torgsins eru tilbúnir að flytja það til ef áhorfendur verða fleiri en torgið ræður við.

EM Torgið | Með ykkur alla leið!

EM Torgið snýr aftur 16.júlí!
Upplifðu einstaka stemmingu á Ingólfstorgi og styðjum Stelpurnar okkar áfram þann 18.júlí á móti Frakkland?
ÁFRAM ÍSLAND! ??

Posted by EM torgið on Sunday, 16 July 2017

Það er um að gera að mæta snemma á EM torgið. Þarna verður afþreying fyrir leik þar sem Friðrik Dór mun troða upp. Dagskráin byrjar klukkan 18:15 á torginu. En auðvitað má alveg mæta fyrr!

Ísland

Hér má sjá íslenska hópinn sem fór út til Hollands.

Íslenska landsliðið

Landsliðsþjálfari: Freyr Alexandersson
Fyrirliði: Sara Björk Gunnarsdóttir
Leikjahæst frá upphafi: Katrín Jónsdóttir, 132 leikir
Markahæst frá upphafi: Margrét Lára Viðarsdóttir, 77 mörk
Leikjahæst í EM-hóp: Hólmfríður Magnúsdóttir, 110 leikir
Markahæst í EM-hóp: Hólmfríður Magnúsdóttir, 37 mörk

Íslenski hópurinn á EM (Mynd: KSÍ)

Staða á styrkleikalista FIFA: 19. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: T S J T J S S T J T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 6-10

Íslenska liðið stóð sig frábærlega í undankeppninni fyrir þetta mót. Það vann alla leiki nema einn og hélt sömuleiðis hreinu í öllum leikjum nema einum. Aðeins 4 þjóðir af 40 fengu færri mörk á sig í undankeppninni en Ísland og aðeins 2 þjóðir náðu að skora fleiri mörk en Ísland.

Fagnað í Skotlandi (Mynd: BBC)

Eftir að íslenska liðið tryggði sig inn á þessa lokakeppni hefur hins vegar ekki gengið alveg eins vel. Erfið meiðsli hjá lykilleikmönnum settu strik í reikninginn og því var mikilvægt að nýta undirbúningstímabilið til að bregðast við þeim breytingum sem urðu á hópnum í kjölfar meiðsla. En það fylgir þessu og það hefur orðið mikil framför á spilamennsku liðsins á undirbúningstímabilinu, þrátt fyrir að úrslit hafi ekki endilega alltaf fylgt frammistöðu. Við treystum hins vegar alveg á að liðið komi vel undirbúið, vel skipulagt og vel mótiverað inn í þessa keppnisleiki á EM. Og við trúum því heilshugar að íslenska liðið geti náð langt á þessu móti.

Frakkland

Hér er upphitunarpistill um þetta fína land.

Franska landsliðið

Landsliðsþjálfari: Olivier Echouafni
Fyrirliði liðsins: Wendie Renard
Leikjahæst frá upphafi: Sandrine Soubeyrand, 198 leikir
Markahæst frá upphafi: Marinette Pichon, 81 mark
Leikjahæst í EM-hóp: Laura Georges og Camille Abily, báðar með 179 leiki
Markahæst í EM-hóp: Marie-Laurie Delie, 65 mörk

Staða á styrkleikalista FIFA: 3. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: S J S S S J S S S J
Markatala í síðustu 10 leikjum: 19-3

Frakkland var í riðli 3 í undankeppninni fyrir EM, ásamt Rúmeníu, Úkraínu, Grikklandi og Albaníu. Frakkland vann þann riðil með yfirburðum, sigraði í öllum leikjunum sínum og fékk ekki á sig mark. Liðið skoraði 27 mörk í þessum 8 leikjum, 12 markanna komu reyndar í tveimur 6-0 sigrum á Albaníu.

Markahæst í franska liðinu í þessari undankeppni var framherjinn Eugénie Le Sommer sem skoraði 8 mörk í 8 leikjum. Hún var þar með í 4.-5. sæti yfir markahæstu leikmenn undankeppninnar. Hún var hins vegar í efsta sæti yfir leikmenn með flestar marktilraunir á rammann, með 20 tilraunir. Til samanburðar þurfti Harpa Þorsteinsdóttir 16 tilraunir á ramma til að ná sínum 10 mörkum í 6 leikjum.

Þegar kom að stoðsendingunum þá dreifðust þær mjög vel. 6 leikmenn voru með 2 stoðsendingar hver og 2 leikmenn með eina stoðsendingu. Sérstaka athygli vekur að Eugénie Le Sommer er eini leikmaður franska liðsins sem tók þátt í öllum 8 leikjum liðsins í undankeppninni. Til samanburðar spiluðu Hallbera Guðný Gísladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir allar í öllum 8 leikjum íslenska liðsins. Þar af spiluðu Hallbera og Glódís hverja einustu af 720 mínútum sem liðið spilaði. Le Sommer spilaði 657 mínútur.

Frakkland var líka að nota mun fleiri leikmenn í undankeppninni en Ísland. 30 leikmenn spiluðu einhverjar mínútur fyrir Frakkana á meðan 22 leikmenn spiluðu fyrir Ísland.

Það er mikil reynsla í franska leikmannahópnum. Þannig eru 8 leikmenn liðsins með yfir 100 landsleiki á ferilskránni, þrjár þeirra eru með yfir 170 leiki. Á meðan 2 leikmenn í íslenska hópnum hafa spilað fleiri en 100 landsleiki.

Frakkarnir eru heimakærir, það eru til dæmis aðeins tveir leikmenn í franska hópnum sem spila utan Frakklands. Reynsluboltinn Élise Bussaglia (172 landsleikir) er hjá Barcelona en þó aðeins rétt nýkomin þangað því hún skrifaði undir samning við spænska liðið í lok júní. Fyrir það spilaði hún í tvö tímabil hjá Wolfsburg. Amandine Henry spilar svo með Dagnýju Brynjarsdóttur hjá Portland Thorns í Bandaríkjunum.

8 leikmenn af 23 spila með Lyon í Frakklandi. Lyon hefur verið  yfirburðarlið í Frakklandi síðustu ár og unnið frönsku deildina 11 sinnum í röð (15 sinnum alls), franska bikarinn síðustu 6 ár í röð (9 sinnum alls) og Meistaradeild Evrópu síðustu 2 tímabil (4 sinnum alls). Þetta er eitt besta félagslið í heimi og kjarninn í því er einnig kjarninn í franska landsliðinu.

Frakklandi hefur gengið afskaplega vel í undankeppnum stórmóta á síðustu árum. Raunar er liðið núna búið að vinna 41 fótboltaleik í röð í undankeppnum EM og HM, sem er met. Síðasti leikur sem liðið vann ekki var spilaður 16. júní 2007, á Laugardalsvellinum. 1.667 áhorfendur á Laugardalsvelli sáu Margréti Láru skora eina mark leiksins.

En þótt Frakkland hafi ekki tapað undankeppnisleik í rúmlega 10 ár þá hefur liðið ekki þótt standa undir væntingum þegar í lokamótin er komið. Frakkland hefur tekið þátt í síðustu 5 lokamótum EM. Í fyrstu þrjú skiptin náði liðið ekki að komast upp úr sínum riðli. Í síðustu tveimur mótum komst liðið upp úr riðlinum og í 8-liða úrslit en ekkert lengra en það. Í bæði skiptin féll Frakkland út eftir að hafa tapað í vítaspyrnukeppni gegn liði sem var talið töluvert lakara en það franska. Árið 2009 var það Holland og 2013 var það danska liðið.

Enn á ný er pressa á franska liðinu, það er talið eitt af líklegustu liðum til að velta Þýskalandi úr sessi sem Evrópumeistarar. Ýmsir spekingar telja að Frakkland hafi bestu og flinkustu leikmennina í sínum hóp, að hópurinn þeirra sé best skipaður á pappírunum. En það skiptir ekki alltaf öllu máli þegar út í svona keppni er komið.

Fyrri viðureignir liðanna

Ísland og Frakkland hafa 9 sinnum mæst áður.

Fyrsti leikur liðanna fór fram á Akranesvellinum laugardaginn 30. september 1995, það var annar leikur Íslands í undankeppninni fyrir EM 1997. Ísland leiddi 3-1 í hálfleik en Frakkarnir náðu að jafna undir lok leiks. Jónína Halla Víglundsdóttir, Margrét Rannveig Ólafsdóttir og Ásthildur Helgadóttir skoruðu mörk Íslands í leiknum. Frakkland vann hins vegar seinni leikinn í undankeppninni, 3-0 í Frakklandi 1. júní 1996.

Ísland og Frakkland lentu aftur saman í riðli fyrir undankeppni EM 2005. Fyrri leikurinn fór þá fram í Frakklandi 8. september 2003, Frakkland vann þann leik 2-0. Seinni leikurinn fór fram á Laugardalsvelli 2. júní 2006, Frakkland vann líka þann leik, í þetta skiptið 3-0.

Fagnað í júní 2007 (Mynd: Vísir.is)

Þegar liðin mættust á Laugardalsvelli 16. júní 2007, í undankeppni EM 2009, kom eins og minnst var á hér að ofan síðasta tap Frakka í undankeppni af nokkru tagi. 1-0 fyrir Ísland í fræknum sigri. Frakkland sigraði hins vegar í seinni leiknum 2-1, sá leikur fór fram 27. september 2007. Katrín Jónsdóttir skoraði mark Íslands í þeim leik.

Í þessari undankeppni endaði Frakkland í efsta sæti riðilsins en Ísland í 2. sætinu og tók þar með þátt í umspili um að komast á lokamótið. Liðið vann það með stæl og þegar í lokamótið var komið mættust Ísland og Frakkland í fyrsta leik. Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins strax á 7. mínútu en Frakkland reyndist sterkari aðilinn í þeim leik, skoraði 3 mörk og náði að vinna leikinn.

Liðin lentu svo líka saman í riðli í undankeppninni fyrir HM 2011. Fyrri leikurinn fór þá fram á Stade de Gerland 24. október 2009 og endaði 2-0 fyrir heimakonur. Seinni leikurinn var spilaður á Laugardalsvelli 21. ágúst 2010, aftur unnu Frakkarnir en í þetta skipti 1-0. Frakkland vann alla leikina 10 sem þeir spiluðu í þeim undanriðli og skoruðu 50 mörk í þeim. Ísland endaði í 2. sæti, frönsku mörkin 3 voru þau einu sem liðið fékk á sig þá.

Peppið

Það er alveg ljóst að þetta franska lið er gríðarlega sterkt. Það er frábærlega mannað og sigurstranglegt á mótinu sjálfu. En íslenska liðið er líka sterkt lið skipað flottum leikmönnum. Íslenska liðið hefur líka virkilega flottan þjálfarahóp og það er enginn vafi að liðið mætir vel undirbúið til leiks. Það er líka engin spurning að liðið fær flottan stuðning á vellinum. Allt þetta getur skipt máli og við trúum því öll að Ísland geti fengið eitthvað út úr þessum leik.

Áfram Ísland!