Leikdagur: Ísland – Austurríki

Íslenska liðið hefur nú klárað 2 leiki á EM 2016. Það er enn taplaust, það er eina liðið af 33 sem tekið hefur þátt í lokamóti EM án þess að tapa leik. Báðir leikirnir enduðu 1-1. Nú er allt undir, lokaleikur riðlakeppninnar, eftir hann kemur í ljós í hvaða sæti Ísland lendir í F-riðlinum. Ísland getur lendað í 1.-4. sæti, það er allt í járnum. Hvílík spenna!

Flag-Pins-Iceland-Austria_720x600

Evrópukeppni karla í knattspyrnu í Frakklandi
Miðvikudagurinn 22. júní 2016
Klukkan 16:00 að íslenskum tíma, 18:00 í Frakklandi

Ísland – Austurríki

Völlur: Stade de France í Saint Denis, úthverfi Parísar. Tekur 81.338 áhorfendur.
Hér er upphitunarpistill um Stade de France völlinn.
Hér er upphitunarpistill um París og Saint Denis.

Dómari: Szymon Marciniak, pólskur
Aðstoðardómarar: Pawe? Sokolnicki og Tomasz Listkiewicz, líka pólskir
Sprotadómarar: Pawe? Raczkowski og Tomasz Musia?, sömuleiðis frá Póllandi
4. dómari: Mark „kletturinn“ Clattenburg, enskur

Szymon Marciniak er fæddur 7. janúar 1981. Hann kemur frá borginni P?ock sem er í miðju Póllandi. Hann byrjaði að dæma knattspyrnuleiki árið 2002, var kominn upp í efstu deild árið 2009 og orðinn alþjóðlegur FIFA dómari árið 2011.

Szymon hefur dæmt einn leik í keppninni hingað til, það var leikur Spánverja og Tékka í fyrstu umferð D-riðils. Sá leikur endaði 1-0 fyrir Spán, David Limberský hjá Tékklandi var eini leikmaðurinn sem fékk gult spjald í þeim leik.

Hann hefur ekki reynslu af lokamóti A-landsliða en hann dæmdi í lokamóti EM U21-liða árið 2015. Þar dæmdi hann m.a. úrslitaleikinn, milli Svíþjóðar og Portúgals. Sá leikur var markalaus eftir 120 mínútur en Svíarnir unnu loks, 4-3, í vítaspyrnukeppni. Tveir leikmenn Svíþjóðar fengu gult spjald í leiknum, báðir í framlengingu.

Upphitanirnar, Frakkland og Reykjavík

Vanalega hefur Tólfan verið að nýta Fanzone borganna úti í Frakklandi fyrir sínar upphitanir en það er aðeins öðruvísi núna þar sem það er skertur opnunartími á Fanzone Saint Denis vegna þess að þar í grennd eru próftímabil í skólum. Tólfan mun því taka upphitun fyrir utan barinn O’Sullivan’s í Moulin Rouge hverfinu. Hér má sjá tilkynningu Tólfunnar og frekari upplýsingar. Hér fyrir neðan er svo kort sem sýnir staðsetninguna.

Moulin Rouge í París, oui oui
Moulin Rouge í París, oui oui

Sem fyrr verður brjáluð stemning, stuð og fjör á EM torginu sem áður var þekkt sem Ingólfstorg. Carlsbergtjaldið verður sem fyrr á sínum stað á The Dubliner. Bjarki Þór, Duddarinn sjálfur, verður mættur alla leið frá Akranesi og keyrir taktinn með öflugu trommufjöri ásamt fleiri góðum Tólfum. Þið sem eruð í Reykjavík og nágrenni, takið ykkur bara frí eftir hádegið, kíkið á The Dubliner og EM torgið og missið ykkur í Tólfustuðinu.

Tólfan á EM torginu (Mynd: Ólafur Hannesson fyrir Facebooksíðu EM torgsins)
Tólfan á EM torginu (Mynd: Ólafur Hannesson fyrir Facebooksíðu EM torgsins)

Ísland

Áfram Ísland!

Það besta sem Evrópa hefur upp á að bjóða (@hanneshalldors á Twitter)
Það besta sem Evrópa hefur upp á að bjóða (@hanneshalldors á Twitter)

Íslenska landsliðið

Ísland fyrir leikinn gegn Ungverjalandi
Ísland fyrir leikinn gegn Ungverjalandi

Stjórar: Lagerbäck og Hallgrímsson
Fyrirliði: A. Gunnarsson
Leikjahæstur: R. Kristinsson
Markahæstur: E. Gudjohnsen

Staða á FIFA: 34
Staða á UEFA: 27
Gengi í síðustu 10: T S T T T S T S J J
Markatala í síðustu 10: 17-17

Þvílík sveifla í tilfinningum sem maður hefur gengið í gegnum í þessum tveimur 1-1 leikjum liðsins á mótinu til þessa. Það hafa komið erfið augnablik en að mestu hefur þetta verið frábær skemmtun. Varnarleikurinn hefur verið virkilega góður og þótt við vitum að liðið getur spilað boltanum meira og betur á milli sín þá hafa komið mjög góðir sprettir í sóknarleiknum og hættuleg færi. Liðið á ýmislegt gott inni og höfum við auðvitað trú á því að þeir sýni okkur áfram hversu mikið þeir eigi heima í þessu móti.

 

Austurríki

Þeir sem vilja lesa misgagnslausar upplýsingar um landið sem við mætum í þessum leik geta kíkt á þennan upphitunarpistil um Austurríki.

Austurríska landsliðið

Austurríki fyrir leikinn gegn Portúgal
Austurríki fyrir leikinn gegn Portúgal

Stjóri: Marcel Koller
Fyrirliði: Christian Fuchs
Leikjahæstur: Andreas Herzog, 103 leikir (Christian Fuchs er leikjahæstur núverandi leikmanna, með 77 leiki)
Markahæstur: Anton Polster, 44 mörk (Marc Janko er markahæstur núverandi leikmanna, með 26 mörk úr 55 landsleikjum)

Staða á styrkleikalista FIFA: 10. sæti
Staða á styrkleikalista UEFA: 11. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: S S S T S T S T T J
Markatala í síðustu 10 leikjum: 16-13

Austurríki hefur einu sinni áður tekið þátt í lokamóti EM. Það var árið 2008, þegar Austurríki komst í lokakeppnina sem önnur af gestgjafaþjóðunum. Hin gestgjafaþjóðin var Sviss. Austurríki var í B-riðli mótsins, ásamt Króatíu, Þýskalandi og Póllandi. Fyrsti leikurinn var 0-1 tap gegn Króatíu þar sem Luka Modri? skoraði eina mark leiksins úr víti strax á 4. mínútu. Næsti leikur var gegn Póllandi, Roger Guerreiro skoraði fyrir Pólland á 30. mínútu en Ivica Vasti? jafnaði metin í uppbótartíma, úr víti. Lokaleikurinn var síðan gegn Þjóðverjum, Michael Ballack skoraði eina mark þess leiks. 1 stig var niðurstaðan úr því móti og Austurríki úr leik.

Þetta mark sem Ivica Vasti? skoraði á 93. mínútu í jafnteflinu gegn Póllandi árið 2008 er eina markið sem Austurríki hefur skorað í lokakeppni EM. Af 5 leikjum hefur liðið tapað 3 og gert 2 jafntefli.

Austurríki hefur 7 sinnum tekið þátt í Heimsmeistaramótinu. Síðasta skiptið sem austurríska liðið tók þátt í þeirri keppni var einmitt á mótinu 1998 sem var haldið í Frakklandi. Þeir gerðu þar 1-1 jafntefli bæði við Kamerún og Síle áður en þeir töpuðu fyrir Ítölum í lokaleik riðilsins, einmitt á Stade de France.

Viðureignin

Í júní 1953 mætti austurríska landsliðið til í heimsókn til Íslands.  Liðið var aðallega skipað ungum áhugaleikmönnum og byrjaði á að mæta íslenska landsliðinu. Þarna var íslenska liðið að keppa sinn 7. leik. Þórður Þórðarson, Sveinn Teitsson og Reynir Þórðarson skoruðu mörk Íslands í fyrri hálfleik og að honum loknum leiddi Ísland, 3-2. En austurríska liðið sýndi mátt sinn í síðari hálfleik og vann leikinn 4-3. Sigurinn hefði hæglega getað orðið stærri miðað við yfirburði Austurríkis í seinni hálfleik. Þetta austurríska lið spilaði einnig við KR, ÍA og sérstakt pressulið (hálfgert landslið valið af fréttamönnum blaða og útvarps). Austurríki vann alla leikina, með mismiklum yfirburðum. 6.095 áhorfendur mættu á Melavöllinn til að sjá landsleikinn milli Íslands og Austurríkis, 29. júní 1953.

Rétt tæplega 36 árum síðar, 14. júní 1989, mættust þjóðirnar aftur í landsleik. Í þetta skiptið var þó ekki um vináttuleik að ræða heldur höfðu þjóðirnar dregist saman í undankeppni fyrir Heimsmeistaramótið á Ítalíu 1990. 10.535 áhorfendur mættu á Laugardalsvöllinn og sáu Atla Eðvaldsson leiða sitt lið út á völlinn gegn Austurríki. Leikurinn endaði 0-0, sem var 4. jafntefli Íslands í fyrstu 5 leikjunum í undankeppninni (2 gegn Sovétríkjunum og eitt úti gegn Tyrklandi, töpuðu svo einum leik gegn Austur-Þýskalandi úti).

Næsti leikur á eftir var aftur gegn Austurríki, í þetta skiptið á Stadion Lehen í Salzburg. Heimo Pfeifenberger kom Austurríki yfir í byrjun seinni hálfleiks en Ragnar Margeirsson jafnaði strax mínútu síðar. Manfred Zsak tryggði þeim austurrísku svo sigurinn á 62. mínútu.

Austurríki endaði í 2. sæti undanriðilsins, á eftir Sovétríkjunum, og fór því alla leið í lokakeppni HM. Í þeirri keppni var sama fyrirkomulag og á EM í ár, þ.e. 24 lið í 6 riðlum og 16 lið sem fóru áfram úr þeim riðlum. Austurríki hafnaði þar í 3. sæti síns riðils en var annað af tveimur liðum (Skotland var hitt) í þriðja sæti sem sat eftir að riðlakeppni lokinni.

Síðasti leikur milli þessara liða fór fram 30. maí 2014. Það var vináttuleikur á Tivoli Stadion í Innsbruck í Austurríki. Marcel Sabitzer kom Austurríki yfir á 28. mínútu en Kolbeinn Sigþórsson jafnaði metin á 47. mínútu. Þannig endaði leikurinn.

David Alaba, skærasta stjarna austurríska liðsins, á afmæli 2 dögum eftir leikinn. Hann verður 24 ára þann 24. júní.

Alaba ætti að þekkja skærustu stjörnu íslenska liðsins, Gylfa Þór Sigurðsson, nokkuð vel en þeir spiluðu saman hjá Hoffenheim árið 2011. Þá var Alaba á láni þar frá Bayern Munchen.

Birkir Bjarnason og Marc Janko ættu að þekkjast enn betur, þeir eru liðsfélagar hjá Basel og urðu saman svissneskir meistarar með liðinu á dögunum.

Þegar Kolbeinn Sigþórsson var hjá Ajaz mætti hann austurrísku landsliðsmönnunum Martin Hinteregger, Stefan Ilsanker og Florian Klein sem þá spiluðu með Salzburg. Þetta var í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar tímabilið 2013-14. Salzburg vann báða leikina, 3-0 og 3-1.

Hinteregger skoraði eitt af mörkum Salzburg í 2-0 sigri á Malmö í undankeppni Meistaradeildar Evrópu fyrir siðasta tímabil (2015-16). Kári Árnason spilaði þá með Malmö.

Marc Janko skoraði eitt sinn mark fyrir Twente í 2-1 sigri þess á Ajax í hollenska ofurbikarnum í júlí 2011. Kolbeinn Sigþórsson var í liði Ajax í leiknum.

Peppið