Leikdagur: Ísland – Argentína

Það er komið að því. Ísland er að fara að spila sinn fyrsta leik í sögunni á lokakeppni HM. Biðin er senn á enda og framundan er glíma við einn besta knattspyrnumann allra tíma og lið sem er fullt af heimsþekktum knattspyrnustjörnum. En okkar lið er einnig orðið heimsþekkt fyrir það sem það getur gert. Bring it on!

Heimsmeistaramót karlalandsliða í knattspyrnu í Rússlandi,
laugardaginn 16. júní 2018,
klukkan 13:00 að íslenskum tíma, 16:00 í Moskvu.

Ísland – Argentína

1. umferð í D-riðli.

Völlur: Spartak Stadium, vanalega þekktur sem Otkritie Arena, í Moskvu.

Hér má finna upphitunarpistil um Moskvuborg.
Hér er upphitunarpistil um Spartak Stadium/Otkritie Arena völlinn.

Mynd: StadiumGuide.com

Dómari: Szymon Marciniak, frá Póllandi

Veðurspáin…

… í Moskvu:

Hitinn verður kominn upp fyrir 20 gráðurnar klukkan 11 fyrir hádegið í Moskvu. Á meðan leikurinn verður spilaður verður 22-23 gráðu hiti, léttskýjað og léttir 3 m/s af austsuðaustanátt.

… í Reykjavík:

Í Reykjavík verður aðeins öðruvísi veður. Frá því HM-torgið opnar og þar til leik lýkur verður 8-9 stiga hiti. Það verður nokkurn veginn logn allan tímann, gæti dottið í 2 m/s í breytilegri átt. Það gæti þó rignt og því er gott að gera viðeigandi ráðstafanir ef þið ætlið að horfa á leikinn í stemningunni á HM-torginu.


Dagskrá á leikdegi

Moskva

FIFA er með opinber stuðningsmannasvæði í öllum keppnisborgum, svokölluð Fan Fest. Það er hins vegar aðeins eitt slíkt svæði í Moskvu, þrátt fyrir að keppnisvellirnir í þeirri borg séu tveir. Það hallar töluvert á þann völl sem Ísland spilar á í þetta skiptið svo íslenska sendiráðið í Moskvu fékk sérstakt leyfi frá borgarstjóra Moskvu til að halda íslenska stuðningshátíð fyrir þennan leik. Vúbb vúbb!

Hátíðin verður í Zaryadye-garðinum, sem er rétt hjá Rauða torginu og Kreml. Semsagt, í miðri borg og á afskaplega góðum stað. Frá svæðinu eru góðar og þægilegar almenningssamgöngur beint að vellinum.

Hátíðin hefst klukkan 11:00 að staðartíma og við hvetjum alla Íslendinga til að fjölmenna þangað og mæta snemma, bláklædd og í stuði. Við sendum okkar besta fólk til að tromma undir víkingaklappi, Jónssonbræðurnir Frikki og Jón munu hita upp fyrir Tólfupartýið, sem verður eftir leikinn, með nokkrum skemmtilegum lögum og ýmislegt fleira verður í gangi þarna. Upp úr 12:30 verður svo farið að flykkjast á völlinn, enda mesta stemningin í því að mæta tímanlega. Neðanjarðarlestin kemur öllum á rétta staðinn, lína 7 stoppar rétt við Spartak völlinn.

Hér má sjá viðburðinn sjálfan á Facebook.

Reykjavík

Við gerum okkur grein fyrir því að Tólfur á Íslandi búa víðar en á höfuðborgarsvæðinu svo það verður alveg pottþétt hægt að komast á flotta viðburði til að horfa í góðum félagsskap á þennan stórleik.

En fyrir ykkur sem eruð á höfuðborgarsvæðinu eða nálægt því á leikdegi þá beinum við ykkur öll á HM-torgið sem verður á nýjum stað í þetta skiptið. Við ætlum að koma okkur fyrir í Hljómskálagarðinum og þar verður stórglæsileg aðstaða, skjáir fyrir alla, nóg af afþreyingu fyrir alla fjölskylduna, skemmtiatriði fyrir leik, Tólfur með trommur, vinir og kunningjar, hoppukastalar, veitingasala og að sjálfsögðu, það sem mestu máli skiptir, leikurinn sýndur í toppgæðum.

Þarna verður rífandi stemning og þarna höfum við sem heima sitjum tækifæri til að koma saman og senda okkar skilaboð og hvatningu alla leið til Rússlands.

HM-torgið opnar klukkan 11:00 á þessum leikdegi, 2 tímum fyrir leik. Mætið endilega tímanlega, bláklædd og í stuði. Heyrst hefur að einhverjir ætli bara að mæta með útilegustóla og kælibox, ekkert verra að keyra bara á blöndu af klassísku, íslensku útilegufjöri og norður-amerísku tailgatepartýi.

Hér er viðburðurinn á Facebook.


Ísland

Embed from Getty Images

Staða á styrkleikalista FIFA: 22. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S S T J S S T T T J
Markatala í síðustu 10 leikjum: 22-15

Þjálfari: Heimir Hallgrímsson
Fyrirliði: Aron Einar Gunnarson

Embed from Getty Images

Markahæstur frá upphafi: Eiður Smári Guðjohnsen, 26 mörk
Markahæstur í HM-hópnum: Gylfi Þór Sigurðsson, 19 mörk

Leikjahæstur frá upphafi: Rúnar Kristinsson, 104 leikir
Leikjahæstur í HM-hópnum: Birkir Már Sævarsson, 79 leikir

Embed from Getty Images

Ísland er mætt á HM í fótbolta í fyrsta skipti. Bara eins og það geti allt í einu gerst! Nú þurfum við ekki lengur að láta okkur nægja að finna okkur önnur lönd til að halda með, eins og þetta séu félagslið í enska boltanum. Við getum bara haldið með okkar landsliði. Á HM! Það er alveg sama hversu mikið ævintýri þessi síðustu ár hafa verið, ég er engan veginn kominn á þann stað ennþá að mér finnist þetta bara eitthvað eðlilegt. Ég bíð enn eftir að vakna upp og uppgötva að þetta var eftir allt saman of óraunsætt til að verða að veruleika. En eins og góður maður sagði eitt sinn: aldrei vekja mig frá þessum geggjaða draumi!

Það er samt ekki eins og þetta hafi verið einhver tilviljun. Ísland fór sannfærandi á EM fyrir tveimur árum. Ísland var næstum því farið til Brasilíu 2014. Ísland fékk erfiðan riðil í undankeppninni og þegar mörg af þessum (vanalega) minni liðum, sem slógu í gegn á EM í Frakklandi, misstu dampinn eftir sumarlangt ævintýri í Frakklandi, þá efldust íslensku strákarnir okkar bara og sigruðu þennan sterka riðil. Riðil sem hafði innanborðs þrjár aðrar þjóðir sem fóru í lokakeppni EM 2016.

Ísland vann alla heimaleikina sína í riðlinum. Af 54 liðum í evrópsku undankeppninni, þá voru aðeins 7 sem náðu því. Ísland er þar í hópi með Portúgal, Sviss, Þýskalandi, Póllandi, Englandi og Spáni. Ísland vann flesta leiki í riðlinum og skoraði flest mörk. Þetta var einfaldlega fyllilega verðskuldað.

Embed from Getty Images

Það eru jákvæðar fréttir af lykilmönnunum okkar sem hafa verið að glíma við meiðsli í aðdraganda mótsins. Gylfi Þór Sigurðsson náði að spila rúmlega 90 mínútur samtals í æfingaleikjunum fyrir mótið og Aron Einar Gunnarsson staðfesti á blaðamannafundi fyrir þennan leik að hann væri orðinn nægilega heill til að spila þennan leik. Afskaplega mikilvægt að fá þessa leikmenn aftur inn.

Gylfi Þór Sigurðsson var einmitt markahæsti leikmaður Íslands í undankeppninni, með 4 mörk. Hann var einnig mjög duglegur að leggja upp mörk fyrir samherja sína og er almennt mjög mikilvægur í öllu uppspili liðsins, auk þess sem hann leggur á sig mikla varnarvinnu líka. Alfreð Finnbogason kom næstur á eftir Gylfa í markaskorun, með 3 mörk.

Embed from Getty Images

Aron Einar skoraði ekki mark í þetta skipti. Það var þó ekki óvænt þar sem markaskorun hefur ekki verið hans hlutverk, hann hefur samtals skorað tvö A-landsliðsmörk á ferlinum. Hann er meira í almennri stjórnun á liðinu og því hlutverki sinnir hann yfirleitt aftar á miðjunni en liðið er allt annað þegar hann getur verið þarna til að segja mönnum til og hvetja menn áfram. Frábærar fréttir að hann geti spilað gegn Argentínu.

Íslenska liðið mun hafa nokkra yfirburði í hæð þegar kemur að leiknum gegn Argentínu. Meðalhæð íslenska hópsins er um 6 cm hærri en argentínska hópsins. Miðað við líkleg byrjunarlið þá getur þessi munur jafnvel aukist í allt að 9 cm. Það er vonandi að íslenska liðið finni leið til að nýta þann hæðarmun vel.


Argentína

Hér er upphitunarpistill um þetta fína land.

Embed from Getty Images

Staða á styrkleikalista FIFA: 5. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S J J J S S T S T S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 20-12

Þjálfari: Jorge Sampaoli
Fyrirliði: Lionel Messi

Embed from Getty Images

Markahæstur frá upphafi: Lionel Messi, með 64 mörk. Hann er 10 mörkum á undan Gabriel Batistuta.
Markahæstur í HM-hópnum: Messi.

Leikjahæstur frá upphafi: Þeir Javier-nafnarnir, Mascherano og Zanetti, deila efsta sætinu, með 143 leiki. Messi kemur þar á eftir með 124 leiki.
Leikjahæstur í HM-hópnum: Javier Mascherano.

Embed from Getty Images

Það þarf ekkert að kynna argentínska karlalandsliðið fyrir neinni knattspyrnuáhugamanneskju. Þetta er einn af risunum í fótboltanum í gegnum söguna. Ferilskráin segir allt sem segja þarf:

  • Tveir heimsmeistaratitlar (1978 og 1986)
  • 14 Suður-Ameríkumeistaratitlar (1921, 1925, 1927, 1929, 1937, 1941, 1945, 1946, 1947, 1955, 1957, 1959, 1991 og 1993)
  • Tveir Ólympíumeistaratitlar (2004 og 2008)
  • Einn álfukeppnistitill (1992)

Fyrir utan þetta hefur Argentína unnið 6 titla á Pan American leikunum, einn titil á Panamerican Championship, 3 silfur á heimsmeistaramótinu, 14 silfur á Copa América, 2 silfur á Ólympíuleikunum og 2 silfur í álfukeppninni.

Embed from Getty Images

Argentína er lið sem er oftast með á öllum stórmótum, það er miklu frekar að þeir hafi misst af mótum vegna þess að þeir hafi sjálfir dregið sig úr keppni en að þeir hafi ekki náð að vinna sér þátttökurétt á mótinu. Þrisvar sinnum drógu þeir sig úr leik á HM (1934, 1950 og 1954) en aðeins einu sinni hefur þeim mistekist að komast inn á lokamótið í gegnum undankeppnina. Það var árið 1970 þegar Argentína endaði undankeppnina í neðsta sæti í riðli með Perú og Bólivíu.

Á síðasta heimsmeistaramóti fór Argentína alla leið í úrslitaleikinn sjálfan. Liðið byrjaði á að vinna alla leikina í riðli með Nígeríu, Bosníu & Hersegóvínu og Íran. Það var þó alls ekki öruggt, allir leikirnir unnust með einu marki. Það mynstur hélt svo áfram í útsláttarkeppninni, Argentína vann Sviss í 16-liða úrslitum með 1 marki gegn engu, eftir framlengdan leik. Belgía var mótherjinn í 8-liða úrslitum og aftur vann Argentína 1-0, í það skipti þurfti þó ekki framlengingu til. Gegn Hollandi í undanúrslitum þurfti vítaspyrnukeppni, eftir markalausan leik og framlengingu. Argentína vann þar vítaspyrnukeppnina þar sem þeirra leikmenn nýttu fyrstu 4 vítaspyrnur sínar en Hollendingar klikkuðu á 2. Úrslitaleikurinn fór síðan líka í framlengingu en þar reyndust Þjóðverjar sterkari. Leið Argentínu í úrslitaleikinn var því meira byggð á öflugum varnarleik en góðum sóknarleik.

Embed from Getty Images

Undankeppnin fyrir þetta heimsmeistaramót byrjaði ekki vel hjá Argentínu, þeir töpuðu í fyrstu umferð á heimavelli gegn Ekvador og voru aðeins komnir með 2 stig eftir fyrstu 3 leikina. Eftir það komust þeir þó á ágætis skrið og unnu næstu fjóra leiki í röð.

En undankeppnin í Suður-Ameríku er löng og ströng og Argentína lenti í meira veseni þannig að þegar 18. og síðasta umferðin í undankeppninni þeirra fór fram áttu þeir á hættu að missa af sæti á HM ef liðið næði ekki að sigra Ekvador. Á erfiðum útivelli í þokkabót, leikurinn fór fram í Quito, höfuðborg Ekvador, sem er í 2.850 metra hæð yfir sjávarmáli. Þegar Ekvador, sem átti ekki lengur séns á að komast á HM, komst yfir strax á 1. mínútu þá var útlitið svart fyrir Argentínu.

Embed from Getty Images

Argentína hefur þó innan sinna raða annan af tveimur langbestu fótboltamönnum heims síðasta áratug og það var Lionel Messi sem steig upp þegar Argentína þurfti á því að halda. Hann skoraði þrennu í leiknum og skilaði Argentínu upp í þriðja sæti í undankeppninni. Argentína fékk þar 28 stig, eftir 7 sigra, 7 jafntefli og 4 tapleiki. Markatala Argentínu í þessum 18 leikjum var 19-16.

Það segir kannski sitt um spilamennsku Argentínu í undankeppninni að Bólivía var eina landið í suður-amerísku undankeppninni sem skoraði færri mörk en Argentína, þeir skoruðu 16 mörk. En á móti var það aðeins efsta liðið, Brasilía, sem fékk færri mörk á sig en Argentína, 11 talsins.

Lionel Messi var markahæsti leikmaður Argentínu í undankeppninni, eitthvað sem kemur sannarlega ekki á óvart. Hann skoraði 7 mörk og varð næstmarkahæstur í suður-amerísku undankeppninni, á eftir Cavani sem skoraði 10 mörk. Það helsta sem gerir þessa staðreynd merkilega er að Messi spilaði aðeins 10 af 18 leikjum Argentínu. Næstir á eftir honum hjá Argentínu voru Ángel Di Maria, Gabriel Mercado og Lucas Pratto, hver þeirra skoraði 2 mörk.

Embed from Getty Images

Það gæti orðið ákveðið áhyggjuefni fyrir þá að aðalmarkmaður liðsins, Sergio Romero, missir af keppninni vegna meiðsla. Romero spilaði alla 18 leiki liðsins í undankeppninni og hélt 8 sinnum hreinu. Aðeins Alisson hjá Brasilíu náði að halda oftar hreinu (9).

Argentína notaði líka þrjá landsliðsþjálfara í gegnum undankeppnina og mörg mismunandi leikkerfi, gerðu til dæmis tilraunir með þriggja miðvarða kerfi um tíma. Það er þó talið líklegt að Sampaoli muni nota 4-2-3-1 á mótinu, allavega til að byrja með. Sampaoli gaf m.a.s. út byrjunarliðið sitt á blaðamannafundi fyrir leik og sagði að það yrði svona:

Embed from Getty Images

Samkvæmt fréttum hefur Sampaoli verið að þjálfa argentínska liðið sérstaklega í að eiga við hæðarmuninn á liðunum. Argentína mun því reyna markvisst að nota sína hávöxnustu leikmenn (sem eru miðverðirnir Rojo og Otamendi auk Di Maria, Maximiliano Meza og Lucas Biglia) til að kljást við hættulegustu leikmenn Íslands í föstum leikatriðum.

Á þessum leikdegi eru akkúrat 12 ár, upp á dag, síðan Lionel Messi spilaði sinn fyrsta leik á HM. Þá kom hann inn á sem varamaður í sigri á Serbíu og Svartfjallalandi. Hann náði m.a.s. að skora í þeim leik. Samtals hefur hann skorað 5 mörk í lokakeppni HM.


Fyrri viðureignir

Þetta verður í fyrsta skipti sem Ísland og Argentína mætast, sama hvort kyn eða hvaða flokkur um ræðir. Sannarlega sögulegur leikur.


Dómarahornið

Pólski dómarinn Szymon Marciniak er farinn að verða góðkunningi okkar því hann hefur dæmt aðra eftirminnilega leiki karlalandsliðsins okkar á síðustu árum.

Hann var á flautunni á Stade de France í júní 2016 þegar Ísland vann Austurríki með eftirminnilegum hætti. Hér er gameday-pistillinn fyrir þann leik, smá upplýsingar um dómarann í þeim pistli.

Embed from Getty Images

En hann var líka á ferðinni í Eski?ehir í Tyrklandi í október 2017 og dæmdi annan eftirminnilegan fótboltaleik. Í það skipti var það í næstsíðustu umferðinni í undankeppninni fyrir þetta HM og aftur vann Ísland, í virkilega vel dæmdum leik að sjálfsögðu. Hér er gameday-pistillinn fyrir þann leik, þar var einnig að finna nokkra fína punkta um dómara leiksins.

Þetta verður í fyrsta skipti sem Marciniak dæmir leik með argentínsku liði. Leikmenn Argentínu ættu þó nokkrir að kannast við hann úr Evrópukeppnum með sínum félagsliðum en Marciniak hefur verið duglegur að dæma bæði í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni á síðustu tímabilum.

Hér má sjá áhugavert myndband þar sem Marciniak leyfði sjónvarpsáhorfendum að sjá og heyra hvernig hann sinnir sínum störfum. Að vísu er aðeins lítið brot af því á ensku en það gefur samt skemmtilega innsýn inn í hvernig hann undirbýr sig fyrir leiki og hvernig samskiptin eru hjá honum í leiknum, bæði við leikmenn og við aðstoðarmenn sína.

Marciniak til halds og trausts verða landar hans Pawel Sokolnicki og Tomasz Listkiewicz með fánana, Wilmar Roldan frá Kólumbíu verður fjórði dómari og Alexander Guzman, líka frá Kólumbíu, verður varamaður á dómarabekknum.

Þá verður fjögurra manna dómarateymi með puttann á púlsinum í myndbandadómgæsluherberginu í Moskvu.


Áfram Ísland!

Nokkur nýleg HM-lög ættu að koma okkur í gírinn.