Borgarpistill: Moskva

Við erum búnir að fara yfir þjóðirnar sem eru með okkur í D-riðlinum á HM í Rússlandi. Næst ætlum við að fara yfir keppnisborgirnar. Byrjum á þeirri fyrstu, þann 16. júní spilar Ísland í sjálfri höfuðborg Rússlands, Moskvu.

Höfundur: Halldór Marteins

Fáni Moskvu (Mynd: https://en.wikipedia.org/wiki/Flag_of_Moscow)

Moskva (rússneska: ???????)

Staðsetning: Við ána Moskvu, í Evrópuhluta Rússland.
Stærð: 2.511 km2 (til samanburðar þá er Reykjavík 273 km2 )
Íbúafjöldi: 12,2 milljónir (8. fjölmennasta borg heims)

Skjaldarmerki Moskvu.

Skjaldarmerki Moskvuborgar er riddari á hesti að stinga dreka með spjóti. Myndin vísar í dýrlinginn heilagan Georg og þjóðsöguna um það þegar hann drap dreka og frelsaði heilt þorp úr ánauð hans. Drekinn í sögunni er talinn tákna heiðni og barátta heilags Georgs við að breiða út kristni gerði hann snemma að tákni fyrir ýmsa staði og baráttur. Þannig eru einhverjar útfærslur af þessari mynd notaðar í skjaldarmerkjum í Ástralíu, Austurríki, Króatíu, Tékklandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Litháen, Hollandi, Spáin, Sviss, Bretlandi og víðar. Rauði krossinn í fána Englands er þannig til að mynda kallaður Georgskrossinn, tákn sem var fyrst notað á tímum krossfaranna og er vísun í heilagan Georg.

Í Moskvu var fyrst farið að nota heilagan Georg sem verndartákn á 11. öld. Svipuð mynd og er nú var fyrst notuð í opinberu skjaldarmerki borgarinnar á 16. öld. Mismunandi útgáfur hafa verið notaðar síðan og eftir rússnesku byltinguna árið 1917 voru öll trúartákn og tákn um gamla Rússland bönnuð. Í staðinn var tekið upp skjaldarmerki sem innihélt rauða stjörnu, hamar, sigð og fleiri kommúnísk tákn. Núverandi skjaldarmerki var svo tekið upp árið 1993.

Punktar um borgina

Borgin Moskva heitir eftir ánni Moskvu sem liggur í gegnum borgina. Áin á upptök sín 140 km vestur af borginni, rennur í gegnum hana og sameinast svo ánni Oka 110 km suðaustur af borginni. Oka endar síðan á að sameinast ánni Volgu sem rennur meðal annars í gegnum borgina Volgograd á leið sinni út í Kaspíahaf.

Áin Moskva (Mynd: https://en.wikipedia.org/wiki/Moskva_River)

Elstu minjar um byggð á svæðinu þar sem Moskva er núna eru frá nýsteinöld. Fyrstu skráðu heimildir um borgina Moskvu eru frá 1147 en þá var borgin hluti af furstadæminu Suzdal. Seinna varð hún höfuðborg furstadæmisins Moskvu sem þróaðist seinna yfir í rússneska keisaradæmið.

Í hjarta Moskvuborgar er Kremlin Moskvu, húsaþyrping með varnarvirkjum í kringum. Rússneska orðið kremlin (r. ??????) þýðir borgarvirki og vísar í miðjueiningunnar í varnareiningum gamalla, rússneskra borga. Þar var bókstaflega innsti kjarni borgarinnar í öllum skilningi, þar var fólkið sem öllu stjórnaði. Í seinni tíma hefur Kreml verið miklu meira notað sem bein vísun í Moskvukreml, frekar en almennt. Eða jafnvel sem heiti um pólitíska stjórnsýslu yfir öllu Rússlandi, og Sovétríkjunum þar áður. Enda hafa þar setið ýmsir keisarar og ríkisstjórnir og forsetar. Þetta er enn mikilvægur hluti af stjórn landsins. Kremlsafnið opnaði þarna árið 1961 og er vinsæll ferðamannastaður í dag.

Kreml, virkisveggirnir sjást vel (Mynd: Moscovery.com)

 

Vinaborgir Moskvu

Moskva á helling af vinaborgum um allan heim. Þeirra á meðal eru:

  • Reykjavík, Ísland
  • Buenos Aires, Argentína
  • Chicago, Bandaríkin
  • Peking, Kína
  • Berlín, Þýskaland
  • Prag, Tékkland
  • Seúl, Suður-Kórea
  • Tókýó, Japan
  • Varsjá, Pólland

Auk þess er Moskva með sérstaka samstarfsamninga við:

  • Lissabon, Portúgal
  • Teheran, Íran
  • Amsterdam, Holland
  • Jerevan, Armenía
þekkt fólk með tengingu við moskvu

Þegar farið er yfir þekkt fólk í sögunni með sterka tengingu við Moskvu er svo sannarlega um auðugan garð að gresja. Það væri efni í gríðarlega langan pistil að fara yfir það allt saman svo það verður ekki reynt í þetta skiptið. En hér eru þó nokkur dæmi um þekkt Moskvufólk:

Rithöfundurinn Fjodor Dostojevskíj fæddist 11. nóvember árið 1821. Þrátt fyrir að hann hafi búið á ýmsum stöðum, innan sem utan Rússlands, og mestan part ævi sinnar í Sankti Pétursborg þá fæddist hann í Moskvu og eyddi þar æskuárunum. Það er líka safn honum til heiðurs í Moskvu, að er elsta bókmenntatengda safn í Moskvu og elsta Dostojevskíj-safn í heimi, opnaði á afmælisdaginn hans árið 1928. Fyrir þau ykkar sem verðið á miklum ferðalögum um Rússland í sumar þá væri margt vitlausara en að kippa með 1-2 af bókunum hans með í ferðalagið. Glæpur og refsing og Karamazov-bræðurnir teljast báðar með helstu bókmenntum sögunnar.

Stytta af Dostojevskíj fyrir framan rússneska ríkisbókasafnið (Mynd: Rusmania.com)

Sofia Kovalevskaya fæddist líka í Moskvu, hún fæddist þar 15. janúar 1850.  Kovalevskaya var mikill frumkvöðull, hún var fyrsta konan til að vinna sér inn doktorsgráðu í stærðfræði. Hún var líka fyrsta konan í Norður-Evrópu til að fá fulla stöðu prófessors við háskóla þegar hún fékk stöðu við Háskólann í Stokkhólmi árið 1889. Það er til safn henni til heiðurs í Rússlandi en það er að vísu ekki í Moskvu. Í Moskvu, Sankti Pétursborg og víða annars staðar í Rússlandi eru götur sem heita eftir henni.

Hún sagði meðal annars um sína sýn á stræðfræðina:

It is impossible to be a mathematician without being a poet in soul.

Stærðfræðingurinn Sofia Kovalevskaya (Mynd: Moscow City Day)

Lev Yashin fæddist líka í Moskvu, það gerði hann þann 22. október 1929. Ólíkt hinum tveimur manneskjunum hér að ofan þá bjó hann alla sína ævi í Moskvu. Hann spilaði allan sinn feril með Dynamo Moskva og vann hjá félaginu eftir að hann lagði markmannshanskana á hilluna. Yashin er einn allra besti knattspyrnumarkmaður sögunnar og það er engum ofsögum sagt að hann hafi breytt stöðunni með sínum leikstíl. Hann hlaut Ballon d’Or verðlaunin árið 1963 og er enn í dag eini markmaðurinn sem hefur hlotið þau verðlaun. Hann hélt hreinu oftar en 270 sinnum á ferlinum og er talinn hafa varið 150 vítaspyrnur, fleiri en nokkur annar.

Það eru víða styttur af Yashin, þar á meðal ein þar sem gamli heimavöllur Dynamo Moskvu stóð. Yashin var ýmist kallaður Svarta kóngulóin eða Svarti pardusinn á sínum ferli, þá bæði vegna þess að hann var iðulega alsvartklæddur og hann hafði ákveðna eiginileika sameiginlega með þessum dýrum. Dynamo Moskva flutti á nýjan heimavöll árið 2009. Sá heimavöllur er ekki notaður á HM í þetta skiptið en það er eflaust hægt að heimsækja hann fyrir það.

Svarta kóngulóin, Lev Yashin (Mynd: RussiaTeam.com)

Áhugaverð afþreying í borginni

  • Helstu minnisvarðar, eins og Rauða torgið og dómkirkja heilags Basils. Það er algjört möst að kíkja á eitthvað svoleiðis í Moskvu. Gríðarlega mikil saga í þessum stöðum og margt að sjá.
  • Moscow Gun Tours. Langar þig að fræðast um hernaðarsögu Rússlands eða prófa að skjóta af AK-47 riffli? Þá er þetta eitthvað fyrir þig. Alls ekki allra og vel hægt að skilja þá afstöðu að vilja ekki koma nálægt svona löguðu. Þetta er þó í boði fyrir þau sem vilja.
  • Moskvudjassinn. Djassinn kom til Rússlands árið 1922 og var fyrst spilaður í Moskvu. Síðan þá hefur jazzsenan í Rússlandi verið blómleg, jafnvel þótt hún hafi ekki alltaf verið vel séð meðal stjórnvalda. Djass kemur auðvitað frá Bandaríkjunum svo það þótti ekki sniðugt að spila djass í Sovétríkjunum á tímum kalda stríðsins. Engu að síður kraumaði djassmenningin rétt undir yfirborðinu og sovétskir djassspilarar urðu jafnvel í fararbroddi í ákveðnum tegundum af djassi. Djassinn er mjög vinsæll í Moskvu og þar eru afskaplega margir djassstaðir og -spilarar. Einn sá allra vinsælasti heitir Esse (????), þar má alltaf finna góðan djass. Það er þó langt í frá eina, almennilega djassbúllan í Moskvu heldur má þar finna fleiri staði til að svala djassþorstanum.