Afmælispistill

Núna eru framundan 2 heimaleikir hjá A-landsliði kvenna. Stelpurnar okkar eru á endasprettinum í undankeppninni fyrir EM í Hollandi á næsta ári og stefna ekki bara á að tryggja sig þangað heldur klára undankeppnina með sama stæl og þær hafa sýnt í leikjunum til þessa. Við ætlum að mæta á leikina, styðja þetta frábæra lið og hjálpa þeim í undirbúningnum fyrir EM. En það er fleira sem við getum fagnað því þann 20. september höldum við upp á afmæli kvennalandsliðsins, þann dag verða 35 ár frá fyrsta leik þess. Mótherjinn í leiknum á þessum afmælisdegi verður sá sami og árið 1981, Skotland.

Áfram Ísland
Tveir flottir leikir framundan, smelltu á myndina til að komast í miðasöluna (mynd: KSÍ)

Upphaf kvennaknattspyrnu á Íslandi

Knattspyrnuiðkun hófst hér á landi undir lok 19. aldarinnar. Fótboltinn barst hingað frá Bretlandseyjum, munaði þar mest um Skotann James B. Ferguson sem kom til landsins árið 1895 og hóf að kenna áhugasömum undirstöðuatriðin í þessari göfugu íþrótt. Árið 1899 var fyrsta íslenska knattspyrnufélagið stofnað. Næstu ár á eftir fjölgaði liðum og knattspyrnuiðkun breiddist út um landið. Árið 1912 fór fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu fram og áfram stækkaði íþróttin á Íslandi.

Lengst af þótti einungis við hæfi að strákar stunduðu knattspyrnu. Á þessum fyrstu árum knattspyrnunnar á Íslandi reyndu þó einhverjar stúlkur að komast inn í heim knattspyrnunnar, til að mynda æfði hópur kvenna með knattspyrnufélaginu Víkingi í Reykjavík árið 1915 en ári áður hafði hópur kvenna á Ísafirði stofnað eina kvennaknattspyrnufélagið í íslenskri knattspyrnusögu, Hvöt. Þetta gerðu þær í hálfgerðri uppreisn því einungis strákum stóð til boða að ganga í Fótboltafélag Ísafjarðar á þeim tíma. En hvorki kvennaliði Víkings né knattspyrnufélaginu Hvöt tókst að spila alvöru keppnisleik. Áður en til þess kom hafði fjarað undan starfsemi beggja liða, aðallega vegna fordómanna sem mætti þeim. Erfiðlega gekk fyrir stúlkurnar að fá almennilega æfingaaðstöðu auk þess sem orðrómi var dreift um að knattspyrnuiðkun væri beinlínis hættuleg fyrir konur og gæti haft þau áhrif að þær fengju of stóra fætur og gætu ekki eignast börn.

Hvöt
Fótboltafélagið Hvöt er einstakt í íslenskri knattspyrnusögu. Myndin var tekin 14. júlí 1914 og er varðveitt á Héraðsskjalasafni Ísafjarðar.

Slíkir fordómar einskorðuðust ekki við Ísland heldur má finna þá víðar á þessum tíma. Þannig bannaði enska knattspyrnusambandið kvennaknattspyrnu árið 1921 og í fleiri löndum Evrópu var konum bannað að stunda knattspyrnu í um það bil hálfa öld.

Það var ekki fyrr en á sjöunda áratug 20. aldarinnar að aftur fór að bera á konum í íslenskri knattspyrnu. Fyrsti kvennaleikurinn var spilaður sumarið 1968, þegar konur úr handknattleiksdeildum KR og Fram áttust við. Kvennalið í handboltanum á þessum tíma voru í sífellt auknara mæli farin að spila fótbolta meðfram handboltanum, ýmist sem upphitanir á æfingum eða til að hafa eitthvað sniðugt að gera á sumrin þegar handboltinn var ekki spilaður.

Fyrsti opinberi kvennaleikurinn á Íslandi var spilaður 20. júlí 1970. Þá mættust úrvalslið Reykjavíkur og Keflavíkur fyrir framan fjölmarga áhorfendur á Laugardalsvellinum. Reykjavíkurliðið sigraði með 1 marki gegn engu. Þessi leikur var spilaður á undan landsleik hjá A-landsliði karla. Karlalandsliðið var þarna að spila sinn 59. leik frá stofnun þess, árið 1946. Konurnar voru kannski ekki komnar með landslið á þessum tíma en þær voru svo sannarlega komnar til að vera í boltanum.

Strax árið eftir spiluðu konurnar á sínu fyrsta Íslandsmóti innanhúss og sumarið 1972 var Íslandsmóti utanhúss bætt við. Formaður KSÍ á þessum tíma var sjálf Hvíta perlan, Albert Guðmundsson. Hann var harður á því að Ísland þyrfti að leggja áherslu á uppbyggingu kvennaknattspyrnunnar. Árið 1970 sagði hann á fulltrúaráðsfundi KSÍ að nú væri kvennaknattspyrnan farin í gang víða um heim og mikilvægt að Ísland tæki þátt í því starfi frá byrjun til að dragast ekki aftur úr öðrum þjóðum.

Aðdragandinn að stofnun kvennalandsliðs

Kvennaknattspyrnan á Íslandi byrjaði af krafti en svo fór að fjara undan henni og liðum tók að fækka eftir því sem leið á 8. áratuginn. Sumarið 1980 tóku aðeins 3 lið þátt í Íslandsmótinu í kvennaflokki. Ekki voru þó alltaf skynsamleg rök fyrir því að kvennadeildir félaganna voru lagðar niður. Hjá Fram var kvennadeildin lögð niður þrátt fyrir mikinn áhuga hjá leikmönnum kvennaliðsins að halda áfram þátttöku á Íslandsmótinu. Hjá Víkingi og Fylki voru kvennadeildir lagðar niður af því að þeim gekk of vel, þær höfðu þá unnið sér sæti í 1. deildinni. Líklegt má telja að körlunum í stjórnum félaganna hafi þótt peningum betur varið í karladeildirnar.

En KSÍ var ekki á því að leyfa kvennaknattspyrnunni að fjara alveg út líkt og hafði gerst í upphafi 20. aldarinnar. Á 35. ársþingi KSÍ, sem fór fram í lok nóvember 1980, var samþykkt að stofna sérstaka nefnd til að vinna að framgangi kvennaknattspyrnu. Í þessa nefnd voru skipuð Gunnar Sigurðsson, formaður, Svanfríður Guðjónsdóttir og Sigurður Hannesson.

Nefndin hóf strax störf og í lok janúar 1981 var haldin ráðstefna um kvennaknattspyrnu. Ráðstefnan þóttist heppnast vel og þátttaka góð. Á þessari ráðstefnu var þróun kvennaknattspyrnu í nágrannalöndunum og á Íslandi rædd. Það þótti ákveðið áhyggjuefni að það hafði ekki orðið nein umtalsverð fjölgun á þátttakendum í kvennaflokki á þeim áratug sem hafði liðið frá því skipulögð kvennaknattspyrna hófst á Íslandi. Ein skýring á því var mögulega sú að það var ekkert yngri flokka starf í kvennadeildunum.

Helstu niðurstöðurnar á ráðstefnunni voru:

  • Unnið yrði að þátttöku í Norðurlandamóti eða komið á landsleikjum með öðrum hætti.
  • Komið yrði á fót bikarkeppni í kvennaflokki sama ár og ráðstefnan fór fram.
  • Stefnt yrði að því að hefja keppni í yngri flokkum kvenna ári síðar.
Úr Þjóðviljanum, 28. janúar 1981. Textinn við myndina segir ansi mikið
Úr Þjóðviljanum, 28. janúar 1981. Textinn við myndina segir ansi mikið

Nefndin skrifaði knattspyrnufélögum í landinu bréf þar sem þau voru hvött til að taka upp kvennadeildir hjá sér, vænti hún þess að félögin myndu bregðast vel við svo Ísland gæti verið með í þeirri framþróun sem þarna átti sér stað í kvennaknattspyrnu í Evrópu. Sama ár sendi UEFA áskorun á knattspyrnusambönd innan Evrópu um að sinna þessum þætti knattspyrnu vel. Með fylgdi tilkynning um að til stæði að hefja Evrópukeppni landsliða í kvennaflokki.

Þessi vinna skilaði strax árangri, bikarkeppnin fór í gang strax sama sumar og mikil fjölgun varð á kvennaliðum á Íslandsmótinu. Það reyndist of seint að senda tilkynningu um þátttöku í Norðurlandamótinu en í staðinn var ákveðið að vinna að því að koma á landsleik við einhverja nágrannaþjóð, t.d. Skota.

Kvennaknattspyrnunefnd KSÍ sendi beiðni um landsleik til Þýskalands, Skotlands, Noregs, Lúxemborgar og Hollands. Skotarnir svöruðu og lýstu yfir áhuga á að fá íslenska landsliðið í heimsókn. Í júní hafði kvennanefndin ákveðið að þiggja boð Skotanna um að fara í heimsókn til Skotlands um haustið og Skotarnir kæmu svo í heimsókn til Íslands ári síðar. Reyndar áttu eftir að líða 11 ár þar til kvennalið Skotlands kæmist í heimsókn til Íslands en það er annað mál.

Fyrsti landsleikurinn

Guðmundur Þórðarson var ráðinn fyrsti landsliðsþjálfari A-landsliðs kvenna og það kom í hans hlut að velja þennan fyrsta landsliðshóp sem færi til Skotlands. Guðmundur átti að baki 10 tímabil sem framherji fyrir Breiðablik og spilaði 3 A-landsleiki árið 1970.

Tenging kvennaknattspyrnunnar við handknattleik var ennþá sterk á þessum árum. Kannski full sterk því 5 öflugar knattspyrnukonur gátu ekki gefið kost á sér í þetta verkefni vegna þess að þær voru á sama tíma að fara til Evrópu með kvennalandsliðinu í handknattleik. Að auki komu meiðsl í veg fyrir val á öðrum leikmönnum sem líklegir þóttu til að taka þátt í verkefninu. En það kom ekki í veg fyrir að Guðmundur gæti valið 16 sterka leikmenn til að fara til Skotlands. Af þessum 16 kom helmingurinn frá Breiðabliki, 3 leikmenn frá Val, 3 frá ÍA, 1 frá Víkingi og 1 frá FH.

Fyrsta A-landslið kvenna sem keppti fyrir Íslands hönd. Vísir, 16. september 1981.
Fyrsta A-landslið kvenna sem keppti fyrir Íslands hönd. Vísir, 16. september 1981.

Byrjunarliðið gegn Skotlandi þann 20. september 1981 var þannig skipað (heildarfjöldi A-landsleikja á ferlinum í sviga):

  • 1. Guðríður Guðjónsdóttir, Breiðablik (7 landsleikir)
  • 2. Jónína Kristjánsdóttir, Breiðablik (1 landsleikur)
  • 3. Rósa Áslaug Valdimarsdóttir, fyrirliði, Breiðablik (5 landsleikir, 1 mark)
  • 4. Brynja Guðjónsdóttir, Víkingur (8 landsleikir)
  • 5. Kristín Aðalsteinsdóttir, ÍA (3 landsleikir)
  • 6. Ragnheiður Víkingsdóttir, Valur (8 landsleikir, 1 mark)
  • 7. Ásta María Reynisdóttir, Breiðablik (12 landsleikir, 4 mörk)
  • 8. Magnea Helga Magnúsdóttir, Breiðablik (11 landsleikir)
  • 9. Sigrún Cora Barker, Valur (3 landsleikir)
  • 10. Bryndís Einarsdóttir, Breiðablik (6 landsleikir, 1 mark)
  • 11. Ásta Breiðfjörð Gunnlaugsdóttir, Breiðablik (26 landsleikir, 8 mörk)

Varamaður sem kom inn á í leiknum:

  • 12. Hildur Harðardóttir, FH (1 landsleikur)

Ónotaðir varamenn:

  • 13. Ragnheiður Jónasdóttir, ÍA (3 landsleikir, 1 mark)
  • 14. Kristín Reynisdóttir, ÍA (enginn landsleikur)
  • 15. Bryndís Valsdóttir, Valur (3 landsleikir, 1 mark)
  • 16. Svava Tryggvadóttir, Breiðablik (8 landsleikir)

Skoska liðið var töluvert leikreynt og var á þessum tíma nýkomið úr keppnisferð frá Ítalíu. Þar hafði það m.a. sigrað Belgíu og úrvalslið frá Sikiley ásamt því að tapa naumlega fyrir sterku liði Ítalíu. Leikurinn gegn Íslandi var 28. leikur kvennalandsliðs Skota.

Veðrið var ekki í sparifötunum þegar liðin hófu leik, í staðinn rigndi eins og hellt væri úr fötu. Völlurinn var þungur og Skotarnir sóttu mun meira til að byrja með. Þegar blásið var til leikhlés höfðu þær skosku skorað eina mark leiksins og leiddu leikinn.

Íslensku stelpurnar fóru greinilega vel yfir málin í hálfleiknum og voru staðráðnar í að sýna hvað þær gætu. Þegar 15 mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum skoraði Bryndís Einarsdóttir fyrsta markið sem A-landlið kvenna frá Íslandi skoraði. Þær tóku þó lítinn tíma í að fagna þessum merka áfanga því fljótlega eftir var Ásta B. Gunnlaugsdóttir búin að bæta við öðru marki og Ísland komið í 2-1.

Á þessum árum sögðu alþjóðlegar reglur um knattspyrnu að leiktími í kvennaflokki skyldi vera 2 x 35 mínútur. Eftir þeim reglum var farið á Íslandi en í þessum leik brá svo við að leiktíminn var 2 x 45 mínútur. Það hefur kannski haft eitthvað að segja um lokaniðurstöðuna. Íslenska liðið hélt forystunni allt þar til 7 mínútur voru til leiksloka. Þá skoraði skoska liðið 2 mörk á jafnmörgum mínútum og tryggði sér þannig harðsóttan 3-2 sigur á íslenska liðinu. Íslenska liðið var að vonum svekkt með að hafa ekki náð að halda forystunni allt til loka en bæði liðið, aðstandendur og blaðamenn voru heilt yfir jákvæð yfir spilamennskunni, hún þótti lofa mjög góðu fyrir framhaldið. Íslenskt kvennalandslið var sannarlega góð hugmynd.

Frekari heimildir

Árið 1997 gaf Knattspyrnusamband Íslands út bókina Knattspyrna í heila öld eftir þá Víði Sigurðsson og Sigurð Á. Friðþjófsson. Það er skemmtileg og fróðleg bók, margt hér að ofan kemur úr bókinni.

Tvær góðar lokaritgerðir komu einnig að góðum notum. Annars vegar var það ritgerðin Íslensk kvennaknattspyrna fyrstu árin, lokaverkefni til B.Ed. – gráðu í íþróttafræði við HÍ eftir Kristínu Evu Bjarnadóttur (hana má nálgast hér) og hins vegar Kvennaknattspyrna í Evrópu: saga og þróun, lokaverkefni í íþróttafræði BSc frá HR eftir Bylgju Eybjörgu Arnarsdóttur (hana má nálgast hér).

Þetta er þó ekki tæmandi heimildarlisti því bæði notaði ég vefsíðu KSÍ og Tímarit.is mjög mikið til að fletta upp alls konar upplýsingum.