Upphitun Tyrkland – Ísland

UPPHITUN

Hvað er í gangi?
A-landslið karla, undankeppni EM 2016
10. og síðasti leikurinn í A-riðli
Tyrkland – Ísland
13. október 2015, kl. 18:45

Völlur: Konya Büyükşehir Torku Arena
Nýr völlur, var opnaður í september 2014. Tekur 42.276 manns í sæti. Er heimavöllur Konyaspor sem spilar í tyrknesku Süper Lig, efstu deildinni. Tyrkneska landsliðið hefur spilað síðustu tvo landsleiki á þessum velli eftir að hafa áður spilað í Istanbúl.

Dómari: Gianluca Rocchi (frá Ítalíu)

Skybet-stuðlarnir
Tyrkland vinnur: 1/2
Jafntefli: 3/1
Ísland vinnur: 6/1


Lokahófið

Þá er komið að síðasta leik okkar manna í þessar frábæru undankeppni. Farseðillinn til Frakklands er kominn en þó er ekki hægt að segja að allt sé klappað og klárt. Enn er ýmislegt sem strákarnir hafa að spila um. Í fyrsta lagi er það efsta sæti riðilsins, þar á liðið í keppni við Tékkana. Tékkarnir fara til Hollands þar sem Hollendingar þurfa sigur til að geta skákað Tyrkjum í baráttunni um umspilssætið. Í öðru lagi er þetta tækifæri strákanna til að svara fyrir seinni hálfleikinn gegn Lettum og sýna úr hverju þeir eru gerðir. Jafnframt því að enda á góðum nótum til að taka jákvætt mómentum með sér í næstu verkefni.

Það verður fámennt en góðmennt af Tólfum sem ætlar að mæta á völlinn í Tyrklandi og gera sitt besta til að gefa strákunum sýni- og heyranlegan stuðning. Fyrir þá sem eru eftir á Íslandi þá

ætlum við að fylla Ölver af bláum treyjum, stuði og stemningu. Allir sem ekki komast þangað eru beðnir um að flagga bláa litnum þar sem þeir geta, standa upp og syngja og hvetja liðið. Jafnvel þótt fólk sé bara eitt heima hjá sér. Áfram Ísland!


Tyrkland

Stjóri: Fatih Terim, a.k.a. İmparator (keisari)
Terim er 62 ára gamall og reynslumikill þjálfari. Á árunum 1969-1985 spilaði hann rúmlega 400 leiki hjá Adana Demirspor og Galatasaray auk þess að spila 51 landsleik fyrir Tyrkland frá 1975 til 1985. Terim var varnarmaður og spilaði oftast sem sweeper. Hann þótti hafa mikinn og góðan leikskilning sem leikmaður og var einnig mikill leiðtogi á vellinum, hann endaði sem fyrirliði bæði hjá Galatasaray og landsliðinu. Hjá landsliðinu var hann fyrirliði í 32 leikjum af 51. Á 11 árum sínum sem leikmaður Galatasaray náði hann 3 sinnum að vinna tyrkneska bikarinn með liðinu en aldrei deildina. Hann átti það til að lauma inn einu og einu marki en ekki urðu þau mjög mörg samt. Hann skoraði 2 mörk með landsliðinu. Annað þeirra kom einmitt gegn Íslendingum í leik sem Tyrkir töpuðu 1-3 á heimavelli í september 1980.

Sem þjálfari sneri hann aftur til Galatasaray árið 1996 og í það skiptið náði hann að vinna tyrknesku deildina með liðinu. Ekki bara einu sinni heldur fjórum sinnum í röð. Auk þess vann liðið líka tyrkneska bikarinn ‘99 og 2000 og þar að auki varð liðið UEFA Cup meistari árið 2000. Fyrir það hafði Terim þjálfað tyrkneska landsliðið frá ‘93-’96 og komið þeim á EM ‘96. Það var fyrsta Evrópukeppnin sem Tyrkland hafði komist á og fyrsta stórmót í knattspyrnu sem landið hafði komist á síðan það fór á HM árið 1954. Fyrir utan stutt stopp á Ítalíu með Fiorentina og Milan hefur Terim aðallega skipst á að þjálfa Galatasaray og landsliðið, þrjár þjálfaralotur hefur hann tekið á hvorum stað. Hann bætti tveimur deildartitlum í safnið með Galatasaray og kom Tyrklandi ekki bara á EM 2008 heldur alla leið í undanúrslit. Þar þurftu Þjóðverjar mark á 90. mínútu til að ná 3-2 sigri eftir að Tyrkland hafði komist yfir í leiknum. Núna síðast tók hann við landsliðinu árið 2013.

Þessi undankeppni byrjaði ekkert sérstaklega vel hjá Tyrklandi. Tap í fyrstu tveimur leikjunum gegn Íslandi og Tékklandi, jafntefli í 3. leik gegn Lettum á útivelli og svo kom fyrsti sigurinn loks í nóvember 2014 þegar Tyrkir unnu Kazakhstan á heimavelli 3-1. 2015 hefur verið betra fyrir Tyrkina, þeir byrjuðu á að fara til Hollands í mars og gerðu þar jafntefli við heimamenn í leik þar

sem Huntelaar jafnaði metin á 2. mínútu í uppbótartíma. Eftir það kom annar sigur gegn Kazakhstan í júní og annað jafntefli við Letta í september. Tyrkirnir fylgdu þeim sigri svo eftir með góðum 3-0 heimasigri á Hollendingum sama dag og Ísland tryggði sér þátttöku á EM. Í síðasta leik fór liðið svo til Tékklands og vann þar 2-0 sigur. Heildarárangur Tyrkja í undankeppninni er því 15 stig, 4 sigrar, 3 jafntefli og 2 töp. Hafa skorað 13 mörk og fengið á sig 9. En ef við lítum bara á árangur liðsins á þessu ári þá er það ósigrað. Hafa unnið 3 leiki og gert 2 jafntefli, skorað 8 mörk og fengið á sig 2. Auk þess spilaði liðið 2 æfingarleiki og vann báða. Svo það er óhætt að segja að liðið sé í góðum gír þetta árið.

Flestir leikmanna tyrkneska landsliðsins spila fyrir lið í heimalandinu. Þar á meðal er markmaður liðsins, Volkan Babacan. Hann spilaði áður með Fenerbahce og Manisaspor en spilar núna með Istanbul Basaksehir. Hann spilaði ekki fyrstu tvo leikina, gegn Íslendingum og Tékkum, en hefur staðið vaktina síðan þá. Hann hefur varið 22 skot í keppninni og aðeins fengið á sig 4 mörk. Hann hefur flott viðbrögð og er góður í að verja skot af stuttu færi auk þess að vera fínn vítabani (vonum að Gylfi sé búinn að æfa vítin sérstaklega).

Markahæsti leikmaður liðsins er Burak Yilmaz. Sá spilar einnig í Tyrklandi. Hann hefur, líkt og Babacan, spilað bæði með Fenerbahce og Manisaspor en auk þess spilað með Besiktas, Trabzonspor og fleiri. Frá 2012 hefur hann spilað með Galatasaray þar sem hann hefur skorað 74 mörk í 124 leikjum. Fyrir landsliðið hefur hann spilað 42 leiki og skorað 19 mörk. 6 af þessum leikjum hafa komið í undankeppninni og 4 mörk hefur hann skorað þar. Hann skoraði til dæmis í báðum leikjunum gegn Hollendingum. Hins vegar spilaði hann ekki síðasta leik, gegn Tékkum.

En þeir spila ekki allir í Tyrklandi. Þeirra þekktasti leikmaður er miðjumaðurinn Arda Turan. Líkt og báðir fyrrnefndu leikmennirnir hefur hann spilað leiki fyrir tyrkneska félagið Manisaspor. Það gerði hann þegar hann var lánaður þangað frá Galatasaray árið 2006. Árið 2011 fór hann til Atlético Madrid á Spáni og varð lykilmaður í þeirra liði sem náði m.a. að skáka spænsku risunum með því að vinna La Liga tímabilið 2013-14. Með félaginu vann hann líka spænska bikarinn, spænska ofurbikarinn (meistarar meistaranna), UEFA Evrópudeildina og UEFA ofurbikarinn. Hann hefur þrisvar verið tilnefndur knattspyrnumaður ársins í Tyrklandi og einu sinni íþróttamaður ársins. Í sumar var hann keyptur til Barcelona. Þar sem Barcelona er enn í félagsskiptabanni má hann þó ekki byrja að spila með þeim fyrr en í janúar á næsta ári svo leikir með landsliðinu er eini alvöru fótboltinn sem Turan fær að spila þessa dagana. Hann er þó enginn nýgræðingur með landsliðinu. Hefur spilað 84 landsleiki frá árinu 2006 og skorað í þeim

15 mörk. Hann er fyrirliði liðsins. Hann er flinkur sendingarmaður, góður í að halda boltanum og getur tekið menn á. Hann hefur líka gaman af að henda sér í tæklingar en ekki alltaf með góðum árangri. Þannig missti hann af fyrri leik Tyrklands við Holland vegna þess að hann fékk 3 gul spjöld í fyrstu 4 leikjunum. Hann bætti það upp með því að skora í seinni leiknum við Holland en hann hefur skorað 2 mörk og gefið 3 stoðsendingar í undankeppninni.

Annar sem vert er að minnast á er Hakan Çalhanoğlu. Þessi 21 árs gamli leikmaður náði einhvern veginn að afreka það að koma sér í tyrkneska landsliðið án þess að eiga einn einasta leik að baki fyrir Manisaspor. Ekki nóg með það heldur hefur hann ekki einu sinni spilað í Tyrklandi. Hakan er fæddur í Þýskalandi og hefur spilað þar allan sinn feril. Fyrst með Karlsruher og Hamburger en frá 2014 hefur hann spilað með Bayer Leverkusen. Hann getur spilað sem sóknarsinnaður miðjumaður en líka sem kantmaður. Hann er framúrskarandi góður spyrnumaður. Þegar hann spilar sem kantmaður getur hann komið með prýðis fyrirgjafir en þykir heldur ekkert leiðinlegt að koma á sprettinum inn að miðjum vellinum og láta vaða. Það virðist ekki einu sinni skipta máli þótt færið sé langt, hann hefur lag á að spyrna þannig í fótbolta að svif boltans virðist ögra öllum eðlisfræðilögmálum. En hey, hann er enginn Gylfi Sig! Hann hefur spilað 12 landsleiki, þar af 7 þeirra á þessu ári. Hann hefur skorað 4 landsliðsmörk, öll þeirra á þessu ári. 3 af þeim komu í vináttuleikjum og svo skoraði hann í síðasta leik liðsins.

Það er enginn í banni hjá Tyrklandi. Sener Ozbayrakli, Oguzhan Özyakup, Gökhan Töre, Ozan Tufan og Arda Turan eru allir einu spjaldi frá banni en það þarf lítið að spá í það fyrst þetta er lokaleikur undankeppninnar. Bönn fyrir gul spjöld fylgja mönnum ekki í lokakeppnina.

Tyrkland er í góðu formi þessa dagana auk þess að hafa heimavöllinn með sér í þessum leik. Liðið er í 37. sæti á FIFA-listanum eins og er, eftir 9 sæta stökk frá síðasta lista á undan. Þeir eru í 3. sæti riðilsins og ætla sér að halda því. En við vonumst auðvitað til þess að okkar strákar skemmi partýið fyrir þeim.


Ísland

Stjórar: Lagerbäck og Heimir
Það var ekki gaman að frétta það að markvörðurinn Hannes Þór hefði farið úr axlarlið á landsliðsæfingu. Hannes hefur verið að spila glimrandi vel bæði með landsliði og félagsliði og ljóst að það verður ekki auðvelt verk að fylla hanskana hans. Vonum við að honum gangi vel í sinni endurhæfingu og geti farið að skutla sér eins og vindurinn fljótlega aftur.

En við höfum nú þrjá aðra markmenn í hópnum. Íslandsmeistarinn Róbert Örn Óskarsson var kallaður inn í hópinn sem þriðji markvörður en líklegra verður þó að teljast að annað hvort Gunnleifur hinn síungi Gunnleifsson eða Ögmundur „augað“ Kristinsson taki sætið í byrjunarliðinu.

Gunnleifur er fæddur árið 1975 og er því ekki neitt neitt gamall. Sumir myndu jafnvel segja að hann væri á besta aldri fyrir markmann. Hann hefur spilað 26 landsleiki, 11 af þeim hafa unnist, 11 tapast og 4 endað með jafntefli. Fyrsta landsleikinn spilaði hann gegn Möltu í júlí árið 2000. Þá var Ögmundur Kristins nýbúinn að halda upp á 11 ára afmælið sitt, Gylfi Þór og Kolbeinn voru 10 ára og Jón Daði Böðvarsson rétt orðinn 8 ára. En Gulla er slétt sama um það, hann byrjaði að spila með meistaraflokki árið 1994. Hann hefur spilað 358 leiki í meistaraflokki, þar af yfir 200 í efstu deild. Og skorað eitt mark! Það gerði hann árið 2002 þegar hann spilaði fyrir HK í 2. deildinni. Hann á enn eftir að skora sitt fyrsta landsliðsmark en það styttist ábyggilega í það. Í sumar spilaði hann glimrandi vel fyrir Breiðablik og setti meðal annars met með því að fá aðeins á sig 13 mörk í 22 leikjum. Hann hélt hreinu í 12 leikjum í deildinni.

Ögmundur er ogguponsu yngri en Gulli, fæddur 19. júní 1989. Hann spilaði 92 meistaraflokksleiki með Fram frá 2006 til 2014 (náði ekki að skora) áður en hann hélt til Danmerkur. Þar spilaði hann í eitt ár og stóð sig vel. Síðasta sumar færði hann sig svo yfir til Svíþjóðar og hefur verið að spila með Hammarby síðan í júlí. Hann varð strax aðalmarkvörður liðsins og hefur spilað 12 leiki í sænsku deildinni. Í þeim hefur hann fengið á sig 12 mörk. Hann hefur haldið hreinu í helming leikjanna, 6 talsins. Þar af síðustu þremur. Hann hefur spilað 4 A-landsleiki, 1 U21-leik og 2 U19-leiki. Líkt og Gulli á hann ennþá eftir að skora sitt fyrsta landsliðsmark.

Þetta er sjálfsagt ekki auðveld ákvörðun fyrir þjálfarana. Gunnleifur er reynslumikill leiðtogi sem eldist eins og rándýrasta rauðvín en Ögmundur er sprækur og efnilegur framtíðarmarkmaður. Báðir hafa þeir staðið sig vel með sínum liðum að undanförnu. Báðir geta þeir leyst þetta hlutverk.

En fyrir utan Hannes er flott að vita til þess að enginn önnur meiðsli eru að plaga landsliðshópinn. Jón Daði Böðvarsson missti af síðasta leik vegna meiðsla en hefur verið að æfa svo hann gæti spilað í leiknum. Kári Árna fór útaf meiddur snemma í síðasta leik en samkvæmt þjálfurum er hann orðinn góður. Enda vill hann eflaust spila þennan landsleik á 33 ára afmælisdaginn sinn.

Ef gul spjöld skiptu einhverju máli í þessum leik þá væru Kolbeinn Sigþórs, Ragnar Sig og Ari Freyr á hættusvæði. En þau gera það ekki svo þeir eru það ekki.


Viðureignin

Þessar þjóðir hafa 8 sinnum áður mæst á fótboltavellinum og verður að segjast eins og er að Ísland er með ansi góða tölfræði gegn Tyrkjum í gegnum tíðina. Ísland hefur unnið 5 leiki, 2 hafa endað með jafntefli og aðeins 1 hefur tapast. Markatalan er 16-9.

Í undankeppninni fyrir HM ‘82 lentu þessar þjóðir saman í riðli. Auk þeirra voru Sovétríkin, Tékkóslóvakía og Wales í riðlinum. Fyrri leikurinn fór fram í Tyrklandi þann 24. september 1980 fyrir framan 18.506 áhorfendur. Janus Guðlaugsson og Albert Guðmundsson (ekki þó sá Albert Guðmundsson heldur yngri nafni hans) komu Íslandi tveimur mörkum yfir áður en núverandi þjálfari, keisarinn Fatih Terim, minnkaði muninn úr vítaspyrnu. Það dugði þó skammt því Teitur Þórðarson skoraði þriðja mark Íslands og þannig endaði leikurinn. Seinni leikurinn var spilaður á Laugardalsvellinum 9. september 1981. Þá mættu 4.292 á völlinn og sáu Lárus Guðmunsson og Atla Eðvaldsson skora í 2-0 sigri. Þetta voru einu sigrar Íslands í þeirri undankeppni en liðið náði að gera 1-1 jafntefli við Tékkóslóvakíu á heimavelli og svo frægt 2-2 jafntefli í Wales þar sem spólvitlaus Ásgeir Sigurvinsson skoraði bæði mörk Íslands. Tyrkir töpuðu hins vegar öllum sínum leikjum og enduðu í neðsta sæti riðilsins.

Fyrir HM ‘90 lentu löndin aftur saman í riðli í undankeppninni. Aftur voru Sovétríkin með í riðlinum en ásamt þeim voru Austurríki og Austur-Þýskaland í riðlinum. Fyrri leikurinn var spilaður 12. október 1988 á Besiktas Inonu Stadyumu í Istanbúl. 25.680 áhorfendur mættu á völlinn í það skiptið. Ómar nokkur Torfason kom Íslandi yfir á 62. mínútu en miðjumaðurinn Ünal Karaman jafnaði metin 10 mínútum síðar og þar við sat. Fyrsta félagsliðið sem Karaman spilaði með var einmitt Konyaspor (sjá upplýsingarnar um völlinn efst í pistlinum). Seinni leikurinn fór fram 20. september 1989. 3.500 áhorfendur lögðu leið sína í Laugardalinn. Þeir sáu Pétur

Pétursson skora tvö mörk áður en Feyyaz Ucar minnkaði muninn í 2-1. Það var eini sigur Íslands í þeirri undankeppni en liðið var duglegt að ná sér í jafntefli. 4 leikir enduðu með jafntefli, þar á meðal báðir leikirnir við liðið sem endaði á að sigra riðilinn, Sovétríkin. Tyrkland vann hins vegar Austur-Þýskaland tvisvar og Austurríki og náðu 3. sæti riðilsins. Það dugði þeim þó ekki til að komast á lokamótið.

Eftir þetta kom að eina vináttuleiknum sem þjóðirnar hafa spilað. 17. júlí árið 1991 mættust liðin á Laugardalsvelli. Dómari í þeim leik var 28 ára gamall Svíi sem þá var að dæma sinn fyrsta leik í alþjóðlegum fótbolta. Sá er Per Stefan Anders Frisk sem átti góðan dómaraferil en ákvað að leggja flautuna á hilluna árið 2005 eftir að honum og fjölskyldu hans bárust hótanir í kjölfarið á umdeildum leik milli Chelsea og Barcelona í meistaradeildinni. Arnar Grétarsson kom Íslendingum yfir eftir 2ja mínútna leik. Ünal Karaman jafnaði metin á 14. mínútu. Þá var komið að The Arnór Guðjohnsen Show. Á 40 mínútna kafla skoraði kallinn 4 mörk. 5000 áhorfendur urðu vitni að þessari sýningu og hafa væntanlega skemmt sér konunglega.

Í undankeppni EM ‘96 lentu löndin enn saman í riðli. Í þetta skipti var Sovétríkin ekki með en hins vegar voru Sviss, Svíþjóð og Ungverjaland í riðlinum. Fyrri leikur liðanna fór fram 12. október 1994 á Ali Sami Yen vellinum (sem hafði það huggulega viðurnefni „Hell“). Hann endaði ekkert sérstaklega vel. Tyrkirnir unnu 5-0 þar sem Saffet Sancakli og Hakan Sukur skoruðu báðir 2 mörk en Sergen Yalcin það síðasta. 11.280 manns heimsóttu Helvíti til að horfa á þann leik. Seinni leikurinn var spilaður nánast akkúrat ári seinna, þann 11. október 1995 (sama ár og HM í handbolta var haldið hér á landi, sællar minningar). 3.011 mættu á Laugardalsvöllinn í þennan haustleik sem endaði 0-0. Í báðum þessum leikjum stjórnaði Fatih Terim tyrkneska liðinu. Það fór svo að Sviss vann riðilinn en Tyrkland endaði í 2. sæti og komst á sitt fyrsta stórmót í langan tíma. Ísland náði að leggja Ungverjaland og gera jafntefli við Svíana auk Tyrkja. Það dugði þó ekki langt í það skiptið því Ísland rak lestina í riðlinum með 5 stig, 3 mörk skoruð og 12 fengin á sig. Það hefur sitt hvað breyst á 20 árum!

Það liðu svo 19 ár þangað til þjóðirnar mættust aftur á knattspyrnuvellinum. Það gerðist 9. september 2014 þegar Jón Daði Böðvarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson tryggðu Íslendingum glæsilegan 3-0 sigur á heimavelli í fyrsta leik A-riðils í undankeppni fyrir EM 2016. 8.811 áhorfendur mættu á þann leik.

Sögulega séð er Ísland með ágætis tak á Tyrklandi. Eiginlega merkilega gott tak, betra en ég bjóst við einhvern veginn. En það segir ekki allt. Tyrkland hefur verið nokkuð öflugt á síðustu árum, verið að detta inn á stórmót og jafnvel náð fínum árangri þar. En þegar Ísland keppti flesta leikina við Tyrki voru þeir ekki með öflugasta liðið. En það var Ísland svosem ekki heldur með á þeim árum og náði þó að böðlast í Tyrkjunum bæði á heimavelli og útivelli. Það er þó alveg ljóst að þessi leikur verður gríðarlega erfiður. Alveg hægt að búast við því að áhorfendur mæti með læti.

Dómarinn:

Gianluca Rocchi er 42 ára gamall Ítali frá Flórens. Hann hóf að dæma í ítölsku C-deildinni árið 2000 og vann sig þaðan upp í að dæma í efstu deild. Frá árinu 2008 hefur hann verið alþjóðlegur dómari hjá UEFA og FIFA. Hann hefur dæmt í meistaradeildinni, Evrópudeildinni, UEFA Cup auk þess að dæma í undankeppnum EM og HM landsliða. Þetta verður fjórði leikurinn sem hann dæmir í þessari undankeppni. Fyrsti leikurinn var einnig í A-riðli, það var leikur Tékka og Hollendinga í Tékklandi. Auk hans dæmdi hann leik Portúgal og Serbíu í I-riðli og svo England-Sviss í E-riðli.

Síðasta leiktímabil, 2014-15, dæmdi Rocchi samtals 25 leiki, bæði lands- og félagsliða í hinum ýmsu keppnum. Í þeim leikjum náði hann að gefa 19 rauð spjöld, sem verður að teljast nokkuð afrek. Þar af gaf hann 2 rauð spjöld í 4 leikjum. Einn þeirra var leikur Juventus gegn Roma í ítölsku deildinni. Fyrir utan að gefa 2 rauð spjöld í þeim leik náði hann að dæma 3 umdeildar vítaspyrnur, allar í fyrri hálfleik. Þar gerði hann það sem allir dómarar vilja forðast, hann varð aðalumræðuefnið eftir leik.

Þetta tímabilið er hann búinn að dæma 6 leiki og er ekki enn farinn að lyfta rauðu spjaldi. Hann hefur hins vegar lyft gula spjaldinu 28 sinnum, kannski það hafi náð að svala spjaldaþörfinni.

Aðstoðardómarar Rocchi verða þeir Elenito Di Liberatore (osom nafn!) og Mauro Tonolini (tonolini, er það ekki pastategund?), báðir einnig frá Ítalíu.


Myndbandahornið